Jóladesert fyrir þá sykurlausu – og hina líka

Þetta eru búin að vera alveg bara ágæt jól það sem af er, bæði matarlega séð og að öðru leyti, og allt afskaplega vel heppnað. Samt gætu þetta alveg orðið síðustu hefðbundnu jólin sem ég held. Börnin mín tvö hafa alltaf verið bæði hjá mér í mat á aðfangadagskvöld eftir að þau urðu fullorðin en einhverntíma þarf það auðvitað að breytast – sjálf var ég komin á fertugsaldur þegar ég hætti að fara til mömmu og pabba á jólunum og mér fannst það eiginlega of seint. Og nú finnst mér kominn tími til að losna við þau … eða þannig. Sonurinn eldaði sjálfur jólamat heima hjá sér fyrir sig og tengdadótturinna (og það tókst einstaklega vel hjá honum, heyrist mér) og það var búið að ákveða fyrirfram að þetta yrði í síðasta skipti sem dótturfjölskyldan kæmi í mat á aðfangadagskvöld.

Mig langar til að breyta algjörlega til um næstu jól, fara til útlanda og prófa alveg nýtt umhverfi. Kannski finnst mér það ömurlegt og sakna jólanna heima óstjórnlega en þá er ég allavega búin að prófa það. En kannski slappa ég bara reglulega vel af fjarri öllum jólahefðum.

Kemur í ljós.

Það mætti nú kannski ætla að þessi síðustu fjölskyldujól mín hefði ég lagt sérlega mikið í undirbúning jólamáltíðarinnar. En nei … Þorláksmessa er aðalmatarhátíðin hér og mér finnst alltaf hálfpartinn eins og jólin séu … nei, ekki búin þegar hún er afstaðin en það sem kemur þar á eftir er ekkert stórmál. Ég elda góðan mat og allir eru ánægðir. Og ekkert til að stressa sig á. Þannig að í mörg ár hef ég verið frekar kærulaus gagnvart máltíðinni á aðfangadagskvöld; barnabörnin vilja ekki sjá annað en andabringur í aðalrétt og það eru svosem allir sáttir við það, meðlætið er það sem mér dettur í hug hverju sinni og svo ræð ég forrétti og eftirrétti og hef passað mig að láta engar hefðir skapast þar (það er ekki hlustað á ,,af hverju fáum við ekki humar? það er alltaf humar, ja, sko, það var humar í fyrra …“).

En ég var kannski óvenju kærulaus í ár og keypti í rauninni nánast ekkert í jólamatinn. Andabringurnar voru til í frystinum og þar vissi ég líka af ýmsu hráefni sem mundi henta í góðan forrétt. Dóttirin og dótturdóttirin sneiða hjá öllum sykri og sykurlíki (nema þem sykri sem er í ávöxtum) svo að planið var að gefa þeim bara gott ávaxtasalat eða eitthvað slíkt og gera hefðbundinn eftirrétt handa okkur hinum. Fara bara í búð á aðfangadagsmorgun og athuga hvað væri til af girnilegum berjum og ávöxum.

En á aðfangadagsmorgun nennti ég satt að segja ekki út. Var reyndar dálítið þreytt eftir Þorláksmessu (hingað komu um 80 gestir) og veðrið ekkert spes svo ég fór að hugsa um hvort ég þyrfti þess nokkuð. Það var til rauðkál, epli, kastaníur (vakúmpakkaðar) og eitthvað fleira sem hentaði sem meðlæti með öndinni; ég tók tígrisrækjur úr frysti og vissi að ég hlyti að eiga eitthvað sem hægt væri að nota með þeim í forréttinn; ég vissi svosem ekkert hvað ég ætti að gera í sambandi við eftirrétt fyrir sykurlausa fólkið en ákvað að það hlyti nú að reddast.Ég á nú ýmislegt til.

Svo að það var ekki fyrr en eftir hádegi sem ég fór að huga að eftirrétti. Þegar ég mundi að ég átti kakósmjör og döðlur ákvað ég að gera tilraun með ósykraðan súkkulaðibúðing.

IMG_6146

Ég byrjaði á að vigta 200 g af mjúkum döðlum. Steinhreinsaði þær svo, setti þær í matvinnsluvél og maukaði. Svo bræddi ég 100 g af kakósmjöri og hrærði saman við ásamt 4 msk af kakódufti.

IMG_6149

Blandan verður mjög þykk, dökk og svolítið kornótt. En svo hrærði ég saman við hana 100 g af mascarponeosti, 4 msk af rjóma, 1 tsk af vanilluessens og salti á hnífsoddi og þá varð hún ljósari og alveg slétt en enn frekar þykk og stíf. Það mætti alveg hræra meiri rjóma saman við til að fá hana ögn mýkri.

IMG_7753

 

Svo smakkaði ég á búðingnum og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri nú bara það gott að við þessi sem erum ekki að forðast sykur algjörlega gætum nú bara vel verið sátt við þetta og ég þyrfti hreint ekki að gera annan eftirrétt fyrir okkur. Svo að ég setti búðinginn bara í skál og skreytti með berjum. Ég setti hann ekki í kæli þar sem aðeins voru fáeinir klukkutímar þar til hann yrði borðaður og ég vissi að hann yrði mjög stífur í kæli. Hann þarf heldur ekkert að bíða, hægt að borða hann strax, en versnaði sannarlega ekki við biðina.

Þetta líkaði bara ansi vel. Þetta er mjög massívur búðingur, eiginlega meira eins og konfekt, og það þarf því ekki mikið af honum. Ég var að hugsa um að bera fram þeyttan rjóma með en ákvað svo að sleppa því. En mér fannst eiginlega nauðsynlegt að hafa gott kaffi með, þetta er þannig búðingur. En barnabörnin, sem ekki drekka kaffi, voru ekki sammála og voru mjög sátt við búðinginn þrátt fyrir það.

Af þessum búðingi er mikið og þétt súkkulaðibragð og einhver líkjörkeimur (þótt ekkert áfengi sé í búðingnum) og þótt sætan komi eingöngu úr döðlunum er búðingurinn alveg nógu sætur, allavega fyrir okkur.

Mæli með honum.

 

Sykurlaus súkkulaðbúðingur

200 g döðlur

100 g kakósmjör

4 msk kakóduft

100 g mascarponeostur

4 msk rjómi (eða meira)

1 tsk vanilluessens

salt á hnífsoddi

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s