Gleðileg jól, gott fólk. Hér í matreiðslubókasafninu ríkja rólegheitin ein eftir að safnvörðurinn hafði staðið á haus í tvo daga, ekki við jólaundirbúning (hann er mjög einfaldur), heldur Þorláksmessuundirbúning – og svo komu í kringum 80 manns hingað seinnipartinn í gær (nei, ekki allir samtímis) og gæddu sér á afrakstrinum. Þetta hefur nú verið á hverju ári í langan tíma en að þessu sinni fylgdust bandarískir matarblaðamenn og ljósmyndari með öllu saman og skráðu og mynduðu í bak og fyrir. Sem var bara skemmtilegt og aldrei þessu vant klúðraðist bara ekkert hjá mér …
Á Þorláksmessuhlaðborðinu voru að þessu sinni bæði fastir liðir og nýjungar – heimaverkuð skinka (10,5 kg), hrátt hangilæri frá ættaróðalinu, reyktar folaldatungur frá hinu ættaróðalinu, nautatungur, grafnar gæsabringur, grafið kindafillet, hreindýrapaté, kjúklingalifrarkæfa, reykt makrílkæfa, heimaverkuð síld, saltfiskplokkfiskur, hægbakaður lax, tvær tegundir af heimagerðu sinnepi, sex íslenskir og enskir úrvalsostar, vínarterta, jóladrumbur og fimm sortir af smákökum, þar á meðal buffhamarskökurnar hennar Valgerðar langömmu … og sennilega eitthvað fleira sem ég er að gleyma. Og þetta var allt saman bara nokkuð gott. Og það eru ekki miklir afgangar.
Svo að jólamaturinn verður bara pís of keik.
En svona sem jólakveðja til ykkar, þá er hér uppskrift að litríku og hátíðlegu salati. Það verður nú varla í jólamatinn úr þessu en gæti alveg eins verið um áramótin, til dæmis. – Ég tók einhverjar myndir á meðan ég var að gera þetta en finn þær ekki svo að tvær verða að duga – myndin af tilbúnu salatinu og svo þessi granateplamynd, sem er nú örlítið jólaleg bara per se.
Granateplið er fallegur og dálítið sérstakur ávöxtur. Sjálft aldinkjötið er í rauninni óætt en það eru rauð fræin, umlukin safaríkum belgjum, sem eru notuð. Ávöxturinn hefur einmitt nafn af þeim – gamla latínunafnið er pomum granatum, epli með fræjum, en ávöxturinn er upprunnin í Íran og hefur verið notaður þar í þúsundir ára í ýmiss konar rétti og drykki. Einn þeirra er þjóðarréttur Írana, fesanjan, og má finna uppskrift að einni útgáfu af honum í bókinni Kjúklingaréttir Nönnu. Þar er líka uppskrift að granateplasírópi.
Á Vesturlöndum eru granateplafræ ekki síst notuð í ýmiss konar salöt því þau eru sérlega litskrúðug og setja óvenjulegan svip á rétti, auk þess sem bragðið er frísklegt og gott.
Granateplasalat með jólasteikinni
Meðlæti fyrir 4−6
1−2 granatepli, eftir stærð
75−100 g fagurgræn salatblöð (ég notaði romaine)
200 g dökk vínber, steinlaus
4−5 mandarínur
60 g pekan- eða valhnetur
3−4 msk granateplasafi
2 msk ólífuolía
pipar
salt
Ég skar granateplin í sundur í miðju og skóf fræin úr þeim. Síaði safann frá og tíndu ljósa aldinkjötið úr, það er ekki notað. Svo skar ég salatblöðin í ræmur og setti þau í skál. Skar vínberin í tvennt, flysjaði mandarínurnar og skar þær í þunnar sneiðar eða bita og grófmuldi hneturnar. Blandaði þessu saman við salatið, ásamt meirihlutanum af granateplafræjunum.
Svo setti ég granateplasafann í hristglas ásamt olíu, pipar og salti og dreypti jafnt yfir salatið. Setti allt saman á fat (má líka nota grunna skál) og stráði afganginum af granateplafræjunum yfir.
Enn og aftur – gleðileg jól og verði ykkur gott af jólmatnum.