Hvar býr hún Nípa?

Ég er svona að mestu leyti búin að kaupa inn fyrir jólin og ákveða jólamatinn – helst að eftirréttirnir séu í dálítilli óvissu, sonurinn rekur sterkan áróður fyrir hvítum súkkulaðiís með hindberjasósu á jóladag en móðirin er ekki búin að ákveða hvort það verður látið eftir honum – og svo er ég ekki alveg viss um meðlætið með andabringunum á aðfangadagskvöld. Mig langar að hafa einhverja útgáfu af réttinum sem ég ætla að setja uppskrift að hér en það ræðst af því hvort ég fæ nípur, sá þær ekki í þeim tveimur búðum sem ég fór í núna í dag. En það getur nú ræst úr því.

Nípa eða pastinakka (parsnip, pastinak) er rótargrænmeti, skylt gulrót og lögunin nokkuð áþekk en nípur eru þó langsverastar efst, mjókka hratt niður og enda í löngum rótarþræði. Þær voru um tíma seldar hér undir nafninu steinseljurót en það er þó allt annað grænmeti, mjög svipað í útliti en bragðast allt öðruvísi. Ég var búin að tuða yfir þessu í tíu ár eða meira, á prenti og í ýmsum fjölmiðlum, en allt kom fyrir ekki, allir héldu áfram að tala um steinseljurót. En svo breyttist þetta allt í einu, kannski áttuðu innflytejndur sig á að parsnip og parsley root er alls ekki það sama.

IMG_4012

Nípur eru sætar á bragðið, einkum þegar búið er að elda þær, og voru fyrr á öldum oft notaðar til að gera mat sætari. Þær má nota eins og gulrætur en þó eru þær sjaldan borðaðar hráar. Þær má sjóða, gufusjóða, baka, steikja og gera úr þeim mauk. Þær eru oft notaðar í pottrétti og súpur en einnig bakaðar og hafðar sem meðlæti með ýmsum kjötréttum; sumum Englendingum þykja þær til dæmis ómissandi með jólasteikinni. Þær eru vetrargrænmeti og þykja yfirleitt bestar eftir fyrstu frost á haustin eða snemma vetrar. Litlar nípur eru oftast betri en þær stóru, sem geta verið trefjamiklar.

Þetta er einfaldur en góður réttur sem ég var með uppskrift að í 3. tbl. MAN og hentar vel sem meðlæti með t.d. fuglakjöti eða lambakjöti.

IMG_4021

Ég var með 500 g af nípum, 2 perur, 2 1/2 msk af ólífuolíu, 2 msk af hlynsírópi, nokkra valhnetukjarna, pipar og salt. Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C.

IMG_4025

Ég byrjaði á að flysja nípurnar og notaði við það flysjunarjárn – það er langþægilegast. Ég kann einstaklega við svona Y-laga flysjunarjárn og nota þau alltaf en auðvitað má líka nota hníf.

IMG_4026

Ég skar svo nípurnar í fjórðunga eftir endilöngu – ef þær eru stórar er þó best að skera mjósta hlutann frá og skera svo svera hlutann í áttundu parta.

IMG_4029

Ég skar svo perurnar í helminga, kjarnhreinsaði þá og skar svo hvern helming svo í fremur þunna báta. Var ekkert að hafa fyrir því að flysja perurnar, fannst það óþarfi (og hafði rétt fyrir mér þar).

IMG_4032

Svo hrærði ég olíu, hlynsíróp, pipar og salt saman í lítilli skál (það má líka hrista þetta saman í hristiglasi) .

IMG_4034

Ég blandaði perunum og nípunum saman og dreifði þeim á bökunarplötu sem ég hafði klætt með bökunarpappír. Dreypti svo olíu- og hlynsírópsblöndunni jafnt yfir, setti þetta í miðjan ofninn og bakaði í um 24 mínútur.

IMG_4104

Þá tók ég plötuna út, stráði grófmuldum valhnetum yfir og setti svo aftur í ofninn og bakaði í 10-15 mínútur í viðbót, eða þar til nípurnar voru meyrar og aðeins farnar að taka lit.

IMG_4136

 

Þetta held ég að mundi nú bara fara nokkuð vel með öndinni …

 

Bakaðar nípur með perum og hnetum

500 g nípur

2 perur

2 ½ msk ólífuolía

2 msk hlynsíróp

pipar

salt

10-12 valhnetukjarnar

 

 

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s