Bústnir borgarar

Þetta sumar var nú ekki beint grillsumarið mikla, það er óhætt að segja. Að minnsta kosti held ég að ég hafi ekki grillað minna í mörg ár.

En maður lifir það nú alveg af. Bæði er að það þarf nú hvorki i alltaf gott veður til að grilla né heldur sumar og sól – og svo er líka oft hægt að nota grilluppskriftirnar en steikja matinn bara, á grillpönnu, steikarpönnu eða í ofni.

Þessa borgara má hvort heldur er steikja á grillpönnu eða pönnu svo að veðrið og árstíminn skipta svo sem engu máli. Og hver veit, kannski verður þetta grillhaust … Uppskriftin birtist fyrst í ágústblaði MAN.

Það er alveg hægt að kaupa hamborgarana í búð og láta duga að krydda þá, grilla eða steikja og setja á þá beikon, ost og annað sem hugurinn girnist. En stundum langar mann í þykkan og safaríkan, hæggrillaðan alvöruborgara. Þessir eru 150 grömm hver, þurfa 8–10 mínútur á grillinu og það þarf ansi stóran munn ef maður ætlar að bíta í þá. Þeir eru kryddaðir með lauk, sinnepi, worchestersósu og chili en svo má líka nota annað krydd eða kryddjurtir eftir smekk. Mér finnst gljáður rauðlaukur passa einstaklega vel við þessa borgara og uppskrift að honum kemur hér fyrst.

_MG_6891

Ég byrjaði á að taka einn stóran rauðlauk (eða tvo minn), skera hann í helminga eða fjórðunga og síðan í þunnar sneiðar. Setti hann í lítinn pott ásamt 1 msk af ólífuolíu, lét krauma við vægan hita í um 15 mínútur og hrærði öðru hverju. Laukurinn á að mýkjast en ekki að brúnast.

_MG_6893

Þá hrærði ég 1 msk af púðursykri og 1 msk af balsamediki saman við og kryddaði með fáeinum chiliflögum, pipar og salti.

_MG_6901

Svo hækkaði ég hitann ögn og lét krauma í nokkrar mínútur í viðbót, þar til laukurinn var orðinn karamellugljáður og allur vökvi gufaður upp. Þá tók ég pottinn af hitanum og setti laukinn í krukku.

_MG_6896

Þá var komið að borgurunum og ég byrjaði á að útbúa maukið sem ég kryddaði þá með. Ég saxaði 1 lauk og setti hann svo í matvinnsluvél ásamt  1 msk af grófkorna sinnepi, 2 tsk af worchestersósu, smáklípu af chiliflögum, pipar og salti og lét vélina ganga þar til þetta var orðið að mauki.

_MG_6905

Mér finnst best að nota hakk sem er ekki mjög magurt því það gefur safaríkari borgara en það má líka nota fitulítið hakk. Ég notaði 600 g í fjóra borgara.  Ég setti kryddmaukið í skál ásamt hakkinu og blandaði þessu vel saman en gætti þess þo að hnoða ekki blönduna, þá er hætta á að borgararnir verði þurrari en þeir þyrftu að vera.

_MG_6914

Ég skipti svo hakkinu í fjóra hluta og mótaði stóra borgara, 9-10 cm í þvermál og 2½ cm á þykkt. Ég nota oft málmhring sem ég á til að fá borgarana alveg kringlótta og jafnþykka.

_MG_6915

Svo hitaði ég grillpönnu vel (má auðvitað líka vera útigrill eða steikarpanna). Penslaði borgarana með olíu og steikti þá við meðalhita í 4–5 mínútur á hvorri hlið; sneri þeim aðeins einu sinni.

_MG_6917

Ég steikti beikonsneiðar á grillpönnunni við hliðina á borgurunum. Ég ákvað að hafa helminginn af borgurunum með osti og setti því þykkar ostsneiðar ofan á tvo þeirra þegar ég var búin að snúa þeim.

_MG_6924

Ég vildi spælegg á hina borgarana tvo og hitaði því pönnu með ögn af olíu og steikti tvö egg. Og þar notaði ég hringinn líka til að fá reglulegri lögun á eggin. Á meðan hitaði ég hamborgarabrauðin á grillpönnunni.

_MG_6945

Svo er bara að setja hamborgarana saman eftir smekk hvers og eins. Á þessum hér eru salatblöð, tómatsneiðar, beikon, hamborgari, spælegg og gljáður rauðlaukur …

_MG_6952 - Version 2
… og þessi er nú eiginlega alveg eins nema það er bráðinn ostur í staðinn fyrir spæleggið. Bæði betra.

*

Hamborgarar með gljáðum rauðlauk og allskonar

Gljáður rauðlaukur

1 stór rauðlaukur

1 msk ólífuolía

1 msk púðursykur

1 msk balsamedik

örlítið af chiliflögum

pipar

salt

*

Alvöru hamborgarar

600 g nautgripahakk

1 laukur

1 msk grófkorna sinnep

2 tsk worchestersósa

smáklípa af chiliflögum

pipar

salt

olía til steikingar

beikon, ostur, egg, tómatar, salatblöð og annað eftir smekk

4 stór hamborgarabrauð (gjarna gróf)

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s