Þegar maður finnur kúrbít í ísskápnum og það er rigning úti …

Ég fann kúrbít í ísskápnum í dag. Hafði keypt hann um síðustu helgi og ætlaði að nota hann í rétt sem ég eldaði þá en hætti við og gerði eitthvað annað. Og þar sem ég hafði einmitt verið að leita í skápnum að einhverju sem ég gæti notað í köku var eiginlega alveg augljóst hvað yrði um þennan ágæta kúrbít.

Ég hef reyndar áður sett hér uppskrift að kúrbíts-súkkulaðiköku sem var ekkert ósvipuð en þó ólík að ýmsu leyti; í henni voru til dæmis súkkulaðidropar en núna notaði ég valhnetur og bragðbætti kökuna með vanillu en ekki skyndikaffi. Og ýmislegt fleira var ólíkt, hin var til dæmis hlutfallslega sætari.

Já, rétt: fyrir þá sem vilja sætar kökur er þetta ekki uppskriftin, kakan er þess í stað með örlítið beisku súkkulaðibragði sem ég er hrifin af. Hún er alls ekki sykurlaus en það er þó mun minni sykur en í ýmsum öðrum svipuðum kökum. En það er líka í lagi að bæta við sykurinn ef manni sýnist svo.

_MG_1156

 

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 165°C (eða þar um bil, hitastillingin á honum er ekkert rosalega nákvæm). Svo tók ég kúrbitinn og reif hann fremur gróft. Ég gleymdi að vigta hann en þetta var meðalstór kúrbítur, kannski svona 350 grömm.

_MG_1158

 

Allavega, þegar ég setti þetta í mæliglas og þjappaði voru það um 400 ml.

_MG_1160

 

En allavega, ég náði í Bosch-hrærivélina mína (sem er ótrúlega létt, það er nú stór kostur þegar maður þarf að flytja hana fram og aftur eftir eldhúsbekknum. Ég gæti reyndar alveg notað hana þar sem hún er en ekki ef ég ætla að taka myndir, það hentar illa). Setti í skálina 100 g af sykri, 125 g af linu smjöri og 100 ml af hunangi.

_MG_1166

 

Ég hrærði þetta vel saman og bætti svo við 100 ml af ólífuolíu (en má vera önnur olía) og 1 tsk af vanilluessens og hrærði saman við.

_MG_1161

 

Svo tók ég 2 egg og þeytti þeim saman við.

_MG_1168

 

Svo vigtaði ég 325 g af hveiti og 45 g af kakódufti og blandaði saman við 1 tsk af matarsóda og 1 tsk af salti. Hrærði þessu saman við deigið í þremur skömmtum til skiptis við 150 ml af hreinni jógúrt (mætti líka vera súrmjólk). Hrærði samt ekki meira en þurfti til að rétt blanda öllu saman.

_MG_1171

 

Svo setti ég kúrbítinn út í, ásamt 80 g af grófsöxuðum valhnetum, og blandaði saman. Deigið á að vera frekar þykkt og stíft, það er svo mikill vökvi í kúrbítnum sem fer út í deigið við bökunina.

_MG_1176

 

Ég tók svo frekar stórt jólakökuform, setti renning af bökunarpappír í það (ég geri það yfirleitt jafnvel þótt formið sé húðað, það er auðveldar að ná kókunni úr) og setti svo kökuna á neðstu rim í ofninum.

_MG_1179

 

Ég bakaði kökuna í 1 klst. og 5 mínútur en bökunartíminn getur verið svolítið misjafnt – best að stinga prjóni í kökuna eftir klukkutíma til að athuga hvort hún er bökuð. Ef eitthvert deig situr enn á prjóninum er um að gera að baka hana aðeins lengur (og ef maður er ekki viss er best að baka hana 5-10 mínútum lengur). Lét hana svo hálfkólna í forminu og hvolfdi henni svo á grind.

_MG_1205

Kakan er – eða mín allavega – rök og mjúk án þess að vera klesst eða hrá, með miklu og örlítið beisku súkkulaðibragði – dökkrauðbrún með fagurgrænum yrjum.

_MG_1197

 

Kakan er fín eins og hún er – finnst mér alltsvo – en þeir sem eru meira fyrir sætar kökur geta auðvitað sett smjörkrem eða glassúr ofan á hana.

*

Súkkulaði-kúrbítskaka með valhnetum

1 rúmlega meðalstór kúrbítur eða 2 litlir (um 400 ml rifinn)

125 g lint smjör

100 g sykur

100 ml hunang

100 ml ólífuolía (eða önnur olía)

1 tsk vanilluessens

2 egg

325 g hveiti

45 g kakóduft

1 tsk matarsódi

1 tsk salt

150 ml hrein jógúrt

100 g valhnetukjarnar, grófsaxaðir

60-75 mínútur við 165°C.

 

One comment

  1. Bakaði blandaða útgáfu af þessari og gulrótaformköku sem einnig er að finna á siðunni þinni! Úr varð hin fínasta formkaka, mjúk og góð. Ég setti appelsínuglassúr ofaná, en valdi sjálf neðri helminginn þegar ég skar mér hálfa sneið, fannst glassúrinn heldur of mikið sætt! Takk.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s