Útlendingurinn ég

Ég skrapp aðeins út í hádeginu í dag. Fór inn í tvær búðir á Laugaveginum og afgreiðslufólkið í báðum ávarpaði mig á ensku. Kannski er ég bara svona útlendingsleg. Eða kannski eru Íslendingar alveg hættir að koma í þessar búðir.

Svo varð ég allt í einu svöng og fyrst ég var nú svona mikill útlendingur langaði mig í franskan brunch á Le Bistro og hann vara svo vel útilátinn að ég borðaði mig alveg pakksadda svo að laxinn sem ég ætlaði að hafa í kvöldmatinn er  enn í frystinum.

En ef ég hefði eldað hann (sem ég geri kannski á morgun) hefði ég kannski gert eitthvað í þessum dúr við hann – þetta er uppskrift sem var í ágústblaði MAN. Þetta er allavega hentugt fyrir útlendingslegt fólk eins og mig …

Þetta er semsagt teriyaki-lax með núðlum. Það er alveg hægt að kaupa teriyakisósu í búð og nota í þennan rétt en sú heimagerða er bara miklu betri og það tekur bara fáeinar mínútur að gera hana, svo að ég mæli eindregið með því.

_MG_7273

Ég byrjaði á sósunni: Setti 3 msk af mirini, 3 msk af púðursykri,  2 msk af hunangi, 1 msk af smátt saxaðri engiferrót, 125 ml af sojasósu, 2 smátt saxaða hvítlauksgeira og 1 tsk af sesamolíu  í pott og hitaði rólega að suðu.

_MG_7276

Svo hrærði ég 1 msk af maíssterkju (maizenamjöli) út í 3 msk af köldu vatni, hrærði saman við og lét malla í 3–4 mínútur. Sósan geymist í a.m.k. tvær vikur í kæli. Ef ekki er til mirin má nota sætt sérrí.

_MG_7279

Svo tók ég laxaflak, 700-800 g, og skar það  í um 5 cm breið stykki og raðaði þeim á disk með roðhliðina niður. Svo penslaði ég stykkin vel með sósunni og lét standa í um 10 mínútur.

_MG_7336

Ég hitaði svo 2–3 msk af olíu á pönnu, setti laxinn á hana með roðhliðina upp, penslaði roðhliðina með teriyakisósunni og steikti laxinn við meðalhita í 2–3 mínútur á hvorri hlið, eftir þykkt. Hann á að taka góðan lit en það þarf að passa að hann brenni ekki of mikið. Svo tók ég hann af pönnunni, setti á disk og hélt heitum.

_MG_7281

Á meðan ég steikti laxinn sauð ég  núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og hellti þeim svo í sigti og lét renna vel af þeim.

_MG_7288

Ég bætti svo aðeins meiri olíu á pönnuna (ef mikið hefur brunnið við hana er best að hella olíunni sem er á henni af, þerra hana með eldhúspappír og bæta svo nýrri olíu á hana). Ég saxaði svo 3-4 vorlauka og 1 rautt chili smátt, setti það á pönnuna og steikti við meðalhita í 1 mínútu.

_MG_7290

Ég tók svo einn lítinn kínakálshaus, skar hann í ræmur og bætti á pönnuna, ásamt vænni lófafylli af spínati (má sleppa). Steikti þetta í 1–2 minútur og hrærði stöðugt á meðan.

_MG_7292

Ég hvolfdi svo núðlunum á pönnuna og velti þeim fram og aftur smástund til að blanda þeim vel saman við grænmetið. Dreypti 2–3 msk af teriyakisósu yfir.

_MG_7319

Svo hvolfdi ég núðlu-grænmetisblöndunni á fat, raðaði laxinum ofan á og bar fram með afganginum af sósunni.

_MG_7328

*

Teriyaki-lax á núðlubeði

700–800 g laxaflak, beinlaust með roði

teriyakisósa (sjá uppskrift)

olía til steikingar

250 g eggjanúðlur, ókryddaðar

3–4 vorlaukar

1 rautt chilialdin

1 lítill kínakálhaus

væn lófafylli af spínati (má sleppa)

*

Teriyakisósa

125 ml sojasósa

3 msk mirin (sætt hrísgrjónavín)

3 msk púðursykur

2 msk hunang

1 msk engiferrót, söxuð smátt

2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt

1 tsk sesamolía

1 msk maíssterkja (maizenamjöl) hrærð út í 3 msk af köldu vatni

4 comments

  1. heyrðu þetta var svona líka gott! Smábreytingar, átti ekki kínakál og notaði hvítkál og svo hrísgrjónanúðlur í stað eggjanúðla. Þetta verður gert aftur!

  2. Það ætti að fást í mörgum stórmörkuðum, í hillunum hjá austurlenskum sósum og vörum; mig minnir að ég hafi keypt það síðast í Nóatúni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s