Að setja upp kartöflur tvisvar á dag í fimmtíu ár … Það hef ég reyndar ekki gert, í fyrsta lagi er ég ekki alveg nógu gömul til þess og í öðru lagi sýð ég nú hreint ekki kartöflur daglega; er reyndar býsna oft með kartöflur í matinn en geri satt að segja ekkert voðalega mikið af því að sjóða þær þótt það komi fyrir. (Og síðast þegar ég sauð kartöflur klúðraði ég því, alveg satt.)
En vissulega geta soðnar kartöflur verið ansi góðar, til dæmis nýuppteknar með smjöri og flögusalti. Eða soðnar og svo pönnusteiktar með kryddjurtum. Eða stappaðar. Og svo auðvitað heilbakaðar, ofnsteiktar, djúpsteiktar, pönnusteiktar og bara allskonar. En einkum og sér í lagi kannski ofnsteiktar.
Hér kemur grískættuð uppskrift sem ég var með í páskablaði MAN, þar sem þemað var Grikkland. Ofnsteiktar kartöflur, bragðbættar með hvítlauk, óreganói og sítrónu, eru mjög vinsælar í Grikklandi og frábært meðlæti til dæmis með lambakjöti og öðrum steikum. Ég bætti líka fenniku við en það má svosem sleppa henni.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo tók ég 1 kg af meðalstórum kartöflum (þetta er skammtur fyrir 5-6) og skar hverja kartöflu í 2-4 hluta eftir stærð. Ég átti líka tvær fennikur, ekki mjög stórar, og snyrti þær. Skar laufin af þeim og geymdi þau. Svo skar ég hvora fenniku hvora um sig í fjórðunga.
Ég setti kartöflur og fennikur í fremur stórt, eldfast mót. Blandaði saman í skál 4 msk af ólífuolíu, 4 smátt söxuðum hvítlauksgeirum, 1 msk af þurrkuðu óreganói, 1 tsk af kummini, 1 tsk af salti, nýmöluðum pipar og smáklípu af chiliflögum. Hellti þessu yfir kartöflurnar og fennikurnar og blandaði vel.
Ég setti svo fatið í ofninn og bakaði í um 20 mínútur. Þá blandaði ég saman saman 100 ml af kjúklingasoði (má líka vera grænmetissoð, eða hvítvín, það er nú ekki verra) og safa úr 1 sítrónu, hellti yfir grænmetið og bakaði í 20-25 mínútur í viðbót, eða þar til grænmetið var orðið vel meyrt og hafði tekið fallegan lit.
Svo stráði ég fennikulaufinu sem ég hafði tekið frá yfir og bar fram.
*
Ofnsteiktar kartöflur með fenniku
1 kg kartöflur, meðalstórar
2 fennikur, frekar litlar
4 msk ólífuolía
4 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
1 msk óreganó, þurrkað
1 tsk kummin
1 tsk salt
nýmalaður pipar
smáklípa af chiliflögum
100 ml grænmetis- eða kjúklingasoð, eða hvítvín
safi úr 1 sítrónu
[…] kryddlegnum fetaosti, feta- og paprikuídýfu (htipiti), avgolemono með kjúklingi, spanakopitu, ofnsteiktum kartöflum með fenniku, rauðrófusalati með jógúrt-skyrsósu og ravani (kókosköku með sítrónusírópi og […]