Ég gerði einhverntíma í sumar ískynningu fyrir Kjörís. Reyndar var ég að reyna að hafa dálítla sumarstemningu í þessu og það er nú lítið eftir af sumrinu – en það er svo sem alltaf tilefni til að fá sér ís.
Þetta voru svo sem varla uppskriftir, meira tillögur að réttum úr tilbúnum ís en ég gerði þó til dæmis appelsínukaramellu-íssósu sem gerði mikla lukku, bæði hjá syninum og vinnufélögunum, svo að uppskriftin kemur hér.
Ég bar sósuna fram með mandarínuís en hún á líka mjög vel við með t.d. vanilluís. En ef maður notar mandarínu- eða appelsínuís og hefur svo appelsínukaramellusósuna með er skemmtilegt að nota appelsínuhelminga fyrir ísskálar.
Þá eru appelsínur skornar í tvennt, losað um aldinkjötið og helmingarnir settir á diska (skerðu e.t.v. örþunna sneið neðan af svo þær velti ekki). Safann úr aldinkjötinu má svo nota í íssósuna.
En svo má auðvitað bara líka setja stóra kúlu af mandarínumjúkís (eða öðrm ís (í skál). Svo er bara að hella volgri appelsínukaramellusósu yfir og bera afganginn fram með.
Appelsínukaramellusósa
100 g sykur
100 ml rjómi
4 msk ljóst síróp
75 g smjör
nýkreistur safi úr ½ appelsínu
Allt sett í pott, hitað rólega að suðu og hrært þar til allt er bráðið. Látið malla í 4-5 mínútur, þar til sósan þykknar.