Blómkálsbakstur

Ég er að gera svolítið af blómkálstilraunum þessa dagana.  Það er hægt að gera svo ótrúlega margt við það og ég hugsa að ef ég gerist einhverntíma grænmetisæta (ólíklegt en ekki útilokað) mundi ég hafa blómkál sem aðalrétt einu sinni í viku eða svo. Og aldrei sama réttinn tvisvar, það eru svo margir möguleikar. Hér er til dæmis blómkálssteik (eða þannig) sem ég var með uppskrift að í vor.

Ég hef áður ofnsteikt blómkálshaus í heilu lagi en þá steikti ég hann allan tímann í ofni. Hefði viljað hafa hann aðeins meyrari (en kannski steikti ég hann bara ekki nógu lengi) svo að ég ákvað að prófa að forsjóða hann. Og til að fá meira bragð í blómkálið kryddaði ég soðið. Útkoman var mjög bragðgóð en blómkálið varð eiginlega of meyrt – hnífurinn rann í gegnum það eins og lint smjör – svo að þegar ég geri eitthvað svipað næst hugsa ég að ég sjóði það eitthvað skemur. En kálið datt nú ekkert í sundur samt.

_MG_0779

Ég byrjaði á að taka meðalstóran blómkálshaus og hreinsa af honum öll laufblöðin.

_MG_0781

 

Svo skar ég stilkinn úr hausnum – eða hluta af honum, tók samt ekki svo mikið að hætta væri á að blómkálshausinn dytti í sundur.

_MG_0783

 

Svo setti ég blómkálið í pott (sem best er að sé ekki of stór, helst bara rétt eins og þarf til að rúma kálhausinn, annars þarf svo mikið vatn) ásamt 2 timjankvistum og lárviðarlaufi, hellti 2 msk af ólífuolíu yfir kálhausinn og stráði svo flögusalti og nýmöluðum pipar yfir allt saman.

_MG_0785

 

Svo hellti ég vatni í pottinn – það þarf ekki að fljóta yfir en svona næstum því – hitaði að suðu og lét malla við vægan hita undir loki í15 mínútur. En það er líklega of langur tími, ég hugsa að ég láti 7 mínútur duga næst. Á meðan hitaði ég ofninn í 225°C.

Svo tók ég blómkálið upp úr, lét renna af því og setti það í eldfast mót. Hrærði saman í lítilli skál 2 msk af olíu, 2 msk af matreiðslurjóma (má vera venjulegur, en það mætti líka nota t.d. sýrðan rjóma eða skyr, 1 tsk af hunangi, 1/2 tsk af sinnepsdufti, pipar og salt. Hellti þessu yfir kálhausinn og setti hann í ofninn.

Ég hafði blómkálið sem meðlæti með steiktri bleikju. En ef ég hefði ætlað að hafa það sem aðalrétt hefði ég líklega búið til sósu úr soðinu – látið það sjóða rösklega niður, kannski bragðbætt það með grænmetis- eða kjúklingakrafti og svo þykkt það  og borið sósuna fram með kálinu.

_MG_0836 - Version 2

 

Ég steikti blómkálið í um hálftíma, eða þar til það hafði tekið fallegan lit. Tók það svo gætilega úr eldfasta mótinu með stórum gataspaða og setti á fat með bleikjunni og salatblöðum – en það má líka bera það fram í mótinu.

Blómkálið var mjög meyrt – kannski aðeins of eins og ég sagði áðan, það hefði mátt stappa það með gaffli – en mér fannst forsuðan skila sér í bragðinu, kryddbragðið náði mun betur inn í kálið en þegar kryddi er bara stráð eða hellt yfir og kálið svo bakað.

*

Ofnsteikt blómkál

1 blómkálshaus, 700-800 g

2 timjankvistir

1 lárviðarlauf (eða aðrar kryddjurtir)

4 msk ólífuolía

salt

nýmalaður pipar

vatn

2 msk matreiðslurjómi (eða rjómi eða annað)

1 tsk hunang

1/2 tsk sinnepsduft

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s