Súpa og skattur

Líf mitt snýst um tvennt, mat og bækur. Þetta er ekki bara það sem skapar mér atvinnu, heldur er þetta mér eiginlega jafnnauðsynlegt (þótt vissulega kæmist ég sennilega aðeins lengur af án bóka en matar) og endalaus uppspretta ánægju og umhugsunar. Svo að mér líður ekkert sérlega vel þegar stendur til að hækka skatta á þetta tvennt. Alveg sama þótt Bjarni Ben segi að sykraðar mjólkurafurðir og svoleiðis muni nú ekkert hækka svo mikið af því að vörugjaldið falli niður. Ég nota voða voða lítið af sykruðum mjólkurafurðum.

Allavega, hér kemur uppskrift að súpu og brauði sem innihalda engar sykraðar mjólkurafurðir (eða sykur yfir höfuð). Þetta er nú ekkert voðalega dýr matur. En það munar samt alveg um fimm prósentin. Og þetta vita menn líka á Skagfirska efnahagssvæðinu.

Allavega, þetta er  bragðmikil og góð grænmetissúpa sem getur vel verið heil máltíð með brauði og e.t.v. salati. Ég notaði dálítinn rjóma í hana en í staðinn fyrir hann mætti líka nota meiri kókosmjólk. Bragðið ræðst auðvitað dálítið af því hvaða paprikumauk er notað í súpuna; ég var með Piquillo papriku-bruschetta frá Heima en það má líka nota aðrar tegundir, eða grilla papriku og mauka hana.

Brauðið sem fylgir er pönnusteikt og mjög einfalt.  Í það notaði ég heilhveiti og hveiti til helminga en það má alveg nota bara annaðhvort. Uppskriftin birtist fyrst í ágústblaði MAN.

Ég  byrjaði á að útbúa deigið í pönnubrauðið: setti 250 ml af ylvolgu vatni og 1½ tsk af þurrgeri í skál og lét standa þar til gerið fór að freyða. Hrærði svo 150 g af heilhveiti, svona 125 g af hveiti,  ½ tsk af salti og 1 msk af ólífuolíu saman við. Bætti svo við hveiti þar til deigið var hnoðunarhæft en þó fremur lint. Hnoðaði það smástund og lét það svo lyfta sér í 45–60 mínútur.

_MG_7224

Ég byrjaði á að taka 5–6 vorlauka (má líka vera ½ lítill blaðlaukur) og skera í bita. Tók svolítið af grænu blöðunum til hliðar. Svo flysjaði ég 200 g af gulrótum og skar þær í þunnar sneiðar. Hitaði 2 msk af olíu í potti og lét gulræturnar og vorlaukinn krauma við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til laukurinn var farinn að mýkjast.

_MG_7227

Svo stráði ég yfir 1½ tsk af karrídufti, 1/2 tsk af túrmeriki (má sleppa), 1 tsk af kummini, pipar og salti. Hrærði þessu saman við og lét krauma í 1 mínútu.

_MG_7228

Ég var búin að fræhreinsa 1 rauða papriku og skera niður og skera 100 g af blómkáli frekar smátt. Setti þetta út í.

_MG_7232

Svo bætti ég við 5-6 msk af paprikumauki, 1 lítilli dós (150 ml) af kókosmjólk og 600 ml af vatni. Hitaði súpuna að suðu og lét malla í 5 mínútur.

_MG_7233

Þá hellti ég út í 125 ml af rjóma (en það má líka sleppa honum og nota meiri kókosmjólk í staðinn) og lét malla í nokkrar mínútur í viðbótþ

_MG_7248

Á meðan súpan var að malla tók ég deigið, skipti því í 6–8 hluta og flatti hvern um sig út á hveitistráðu borði í sporöskjulaga (eða kringlótt), þunnt brauð. Penslaði þau með olíu og steikti á heitri pönnu í 2–3 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þau voru bökuð í gegn og höfðu tekið góðan lit.

_MG_7257

Ég skreytti svo súpuna með grænu vorlauksblöðunum og basilíku (af því að ég átti hana til) og bar hana fram. Hún var nokkuð góð.

*

Grænmetis-paprikusúpa

5–6 vorlaukar eða ½ lítill blaðlaukur

200 g gulrætur

2 msk olía

1½ tsk karríduft

½ tsk túrmerik (má sleppa)

1 tsk kummin (cumin)

pipar

salt

1 rauð paprika

100 g blómkál

5–6 msk paprikumauk

1 lítil dós kókosmjólk (150 ml)

600 ml vatn

125 ml rjómi (eða meiri kókosmjólk)

e.t.v. kryddjurtir til skreytingar

*

Pönnubrauð

250 ml vatn, ylvolgt

1½ tsk þurrger

150 g heilhveiti

150 g hveiti, eða eftir þörfum

½ tsk salt

1 msk ólífuolía

olía til penslunar

Færðu inn athugasemd