Bara svo þið vitið það strax: það er engin uppskrift í þessari færslu, aldrei þessu vant. Og hún er ekki einu sinni beint um mat þótt matur komi við sögu.
En það er þessi tíu plötu áskorun sem tröllríður Facebook þessa dagana. Það var náttúrlega skorað á mig en ég sagði pass því ég man satt að segja ekki eftir nokkurri einustu plötu sem hefur haft minnstu áhrif á mig, fyrr eða síðar. Ég hlusta aldrei á tónlist af nokkru tagi og á engin tæki til að spila eða hlusta á svoleiðis.
Þá var því skotið að mér hvort ég gæti ekki bara í staðinn talið upp tíu rétti sem hefðu haft áhrif á mig. Ég hélt að það væri nú alveg möguleiki og byrjaði á því þegar heim kom. En komst eiginlega ekkert áfram í því, ekki með einstaka rétti, svo að ég ákvað að skrifa í staðinn um tíu máltíðir. Ekki kannski beint sem breyttu lífi mínu en sumar höfðu vissulega áhrif á mig og aðrar eru eftirminnilegar af öðrum ástæðum. Og það er ekki alltaf (og kannski sjaldnast) maturinn, heldur fólkið, umhverfið, stemmningin, tilefnið. Svo að gjörsvovel, tíu máltíðir úr lífi Nönnu. Mataráfangar, kannski.
1974, vor, Sauðárkrókur. Ég held að ég hafi aldrei verið jafnsvöng á ævinni. Samt hafði ég borðað einhvern hádegismat, minnir mig, en lystin var ekki alveg í lagi. En kvöldmat hafði ég ekki fengið því að á kvöldmatartíma var ég önnum kafin við að koma dóttur minni í heiminn. Og þegar það var farsællega afstaðið varð ég alveg hrikalega svöng. Svo að María ljósa fór að athuga hvort hún gæti fundið eitthvað ætilegt en í eldhúsinu á sjúkrahúsinu á Króknum var ekkert til nema hræringur og hún kom með fleytifullan disk af honum upp. Og ég hámaði hann í mig. Þótt mér þætti hræringur afar vondur og klígjaði alltaf við honum þegar ég var krakki.
En ég hef aldrei borðað hræring síðan.
1975, haust/vetur, Akureyri. Þennan vetur kom ég oft í Skarðshlíðina þar sem Steingrímur Sigfússon leigði íbúð við annan mann og var gjarna kallað Stein’s Brewery. Einhverntíma kom ég þangað seinnipartinn á laugardegi og þá vildi svo til að þar voru samankomnir sex eða sjö strákar; þeir eða einhverjir þeirra höfðu farið á rjúpnaskytterí og nú átti að elda rjúpurnar. En þær voru þó ekki fleiri en svo að það hafði verið fjárfest í lambalæri líka. Aðeins einn þeirra var áhugasamur um matargerð en þar sem ég var um þessar mundir í sjókokkanámi jafnframt menntaskólanáminu var ég drifin í eldamennskuna ásamt Gulla Kristjáns.
Hvorugt okkar hafði eldað rjúpu en við vorum með uppskrift úr Þistilfirðinum – hvort hún var frá Gunnarsstöðum eða Svalbarði man ég ekki – og í sameiningu tókst okkur að elda rjúpurnar og lambalærið ásamt öllu tilheyrandi og þetta var allavega ætt, ég fullyrði ekki meira. Ég fékk svo að setjast til borðs með þeim, eina stelpan í þessari samkundu, og njóta afrakstursins. Þetta var í fyrsta skipti sem ég eldaði veislumat fyrir hóp.
1978, sumar, Reykjavík. Ég var í sjoppu og var að háma í mig pylsu. Með tómat og sinnepi og steiktum og remúlaði, held ég. Og svo kom strákur inn. Ég var dálítið skotin í þessum strák. Vissi svosem að hann var ekkert skotinn í mér en maður getur nú látið sig dreyma. Og mér fannst ekki gott að hann skyldi koma þarna þegar ég var að troða í mig pylsu og þamba kók með. Nema það hafi verið appelsín.
Og svo kom hann til mín og horfði á mig.
Vá, hugsaði ég. Hann ætlar að segja eitthvað við mig. Honum finnst ég þess virði að tala við.
Og svo sagði hann:
– Þú hefur misst remúlaði oná þig.
Story of my life.
1996, vor, Reykjavík. Ég var að klára röð af viðtölum hjá Stígamótum (það var þrjátíuogníuára uppgjörið mitt). Búin að losa mig við gamlar byrðar (og það fyrir fullt og allt) en sat og talaði við ráðgjafann minn um sjálfa mig og hvað ég væri illa haldin af minnimáttarkennd og skorti á sjálfstrausti og sjálfsáliti.
– Er þá ekkert sem þér finnst að þú gerir vel? spurði hún.
Ég hugsaði mig um.
– Jú, sagði ég svo. – Ég elda góðan mat, held ég.
Og þegar ég kom heim og fór að hugsa um þetta ákvað ég að reyna að sanna fyrir sjálfri mér að ég gæti virkilega eldað góðan mat. Svo að ég setti saman átta eða tíu rétta matseðil með allskonar góðgæti og bauð fólki í mat. Og eldaði þessa átta eða tíu rétti (man samt ekki hvað það var) og það tókst allt vel og allir voru ánægðir og ég sannaði fyrir sjálfri mér að ég gæti bara víst gert eitthvað vel.
Og síðan hefur leiðin bara legið upp á við.
1999, vetur, London, World’s End í Chelsea. Matarást var komin út og ég hafði sent Alan Davidson eintak., Ég hafði alltaf litið á sem mentor minn og fyrirmynd frá því að ég keypti bókina hans North Atlantic Seafood fyrir rælni 1982 eða svo – það var svo sannarlega bók sem breytti lífi mínu – en var tiltölulega nýbúin að komast í samband við þennan einstaka mann, ,,the last great British eccentric”, hefur hann verið kallaður (hann er líka sagður guðfaðir sjónvarpsþáttarins QI). Hann var svo hrifinn af Matarást (eða hann gat náttúrlega ekki lesið hana en fannst svo merkilegt að ómenntaður kvenmaður uppi á Íslandi skyldi hafa skrifað þessa bók) að hann bauð mér til London og ég var þar hjá honum í viku.
Og eitt kvöldið kom sjálf Claudia Roden í heimsókn og ég kenndi henni að leita á internetinu (ég er ekki að ljúga þessu, í mesta lagi að ýkja örlítið) og svo fórum við út að borða, ég, Alan, Jane kona hans og Claudia. Fórum nú bara á Café Rouge sem var þarna rétt hjá og fengum okkur matarmikla fiskisúpu sem var reyndar ansi góð en það er ekki súpan sem er eftirminnileg, heldur félagsskapurinn, sem var alveg einstakur og ég á aldrei eftir að sitja við borð með öðrum eins snillingum.
2000, haust, Búdapest. Árshátíðarferð. Nema þegar kom að heimferðinni á sunnudagskvöld hafði Atlantavélin sem við áttum að fara með bilað á Spáni og heimferðin frestaðist um sólarhring. Svo að við gistum aukanótt og morguninn eftir fór ég ein í bæinn. Fór á fornbókasölu og keypti matreiðslubók á pólsku og aðra á rúmensku, báðar út af myndunum.
Svo var komið hádegi og ég var orðin svöng og fór inn á eitt af þessum flottu gömlu veitingahúsum með gylltum súlum og alles sem einhvernveginn lifðu af kaldastríðsárin. Það voru afar fáir gestir og ég fékk mér sæti í miðjum salnum og pantaði mér lambasteik með grænmeti og ungverskt hvítvín sem einhvernveginn smellpassaði með lambinu. Og ég sat þarna ein og borðaði afskaplega góðan einfaldan mat og allt í einu kom yfir mig tilfinning sem ég hef aðeins fundið fyrir í örfá skipti á ævinni, tilfinningin að þetta væri fullkomið augnablik. Og það var það.
2002, vetur, Colorado Springs. Ég var boðin til Bandaríkjanna að halda erindi á ráðstefnu um miðaldamatargerð á vegum Society for Creative Anachronism, þar sem ég á ýmsa kunningja. Gisti þar á hóteli ásamt fleiri ráðstefnugestum yfir helgi og í hádeginu á sunnudeginum var all you can eat-hlaðborð sem var það yfirhlaðnasta sem ég hef nokkru sinni séð.
Ég sat við borð með konu sem ég hafði kynnst á ráðstefnunni, sem var feitasta kona sem ég hef nokkru sinni séð. Við fórum saman að hlaðborðinu (eða hlaðborðunum, þau voru nokkur) og ég fékk mér sitt lítið af hverju en hún fékk sér krabbaklær. Vitið þið hvað er hægt að hrúga mörgum krabbaklóm á einn disk?
Og svo settumst við og ég borðaði mitt og hún krabbaklærnar og fór svo og sótti sér annan disk jafnhrúgaðan af einhverju öðru og þannig koll af kolli. Ég hafði ætlað að fara aðra ferð en lét nægja að sækja mér einhvern búðing eða eitthvað svoleiðis og sat svo bara og nartaði í hann og horfði heilluð en líka með hryllingi á borðfélaga minn, sem kjagaði hverja ferðina af annarri (ég hætti að telja á sjöunda diski) að hlaðborðunum og aftur til baka með hlaðinn disk. Ég man reyndar ekkert hvað hún var að borða fyrir utan krabbaklærnar. En ég man hvernig mér leið á meðan, man þessa undarlegu tilfinningu að ofbjóða en geta um leið ekki slitið sig frá því að fylgjast með.
2008, haust, Róm. Ég fór í vínsmökkunarferð til Toscana, þetta var hópferð en ég fór á undan og var nokkra daga í Róm. Á mánudaginn varð bankahrunið. Ég fékk óljósar fréttir af því um kvöldið, sat á hótelherberginu mínu í gamalli kardínálahöll rétt við Piazza Navonna (góðærið, sko) og reyndi að finna sjónvarpsstöð sem gæti sagt mér hvað var að gerast heima en CNN sýndi bara mann við hraðbanka í Austurstræti í hríðarveðri. Lítið á því að græða.
Ég svaf ekkert sérlega vel um nóttina og rölti út morguninn eftir og hugsaði margt. Hafði ætlað að versla eitthvað en snarhætti við það því það gat verið að ég yrði að láta evrurnar sem ég hafði tekið úr hraðbanka daginn áður duga það sem eftir var ferðarinnar.
Allavega, þegar leið að hádegi rölti ég niður að Tíber og fann þar lítið veitingahús sem mælt hafði verið með við mig. Settist við borð fyrir utan, það var afskaplega gott veður. Ég var eini gesturinn. Pantaði mér gnocchi í forrétt og baccalao með tómötum og ólífum og kaffi og köku á eftir. Þetta kostaði ekki mikið (en samt mun meira en ég hélt, áttaði mig ekki á því fyrr en heim kom og ég sá hvað ég hafði borgað fyrir evrurnar sem ég tók út á mánudeginum). Og þarna sat ég í hátt í tvo tíma og var eini gesturinn mestallan tímann (enda fór staðurinn svo á hausinn en maturinn var samt mjög góður).
Og ég sat og borðaði matinn og drakk rauðvínið mitt í hægum takti og lét hugann reika og tókst næstum því að hugsa ekkert um framtíðina, sem var nú eins gott. Og það leið langur tími þar til mér leið svona vel aftur. Þótt Toscanaferðin væri reyndar mjög skemmtileg (enda búið að borga hana upp í topp fyrirfram, til allrar guðslukku).
2010, sumar, Oxford. Mig hafði í mörg ár langað á árlega matarráðstefnu í Oxford sem Alan heitinn Davidson, vinur minn (sjá hér á undan) var upphafsmaður að, en hafði af ýmsum ástæðum aldrei komist. En þetta sumar lét ég verða af því. Þarna kemur saman fólk víða að úr heiminum til að tala um mat og matartengd viðfangsefni af ýmsu tagi yfir eina helgi og það eru haldnar veislur tvisvar á dag. Og það engar smáveislur.
Ég settist við langborð fyrsta kvöldið og horfði á alls konar kræsingar bornar fram, þema kvöldverðarins var A Feast of Cockaigne. Og þegar gljáandi svínskjammi var borinn á borð og ég sat og spjallaði við borðfélaga mína og skemmti mér við að lesa á nafnspjöldin þeirra og hugsa já, ég á bók eftir hana, já, ég las grein eftir þennan mann um daginn – þá vissi ég hvert leið mín ætti eftir að liggja á hverju sumri næstu árin. Og það hefur gengið eftir. Frábær félagsskapur og frábær matur.
2013, Þorláksmessa, Reykjavík. Ég man ekki hvenær ég byrjaði að hafa opið hús á Þorláksmessu en það hefur smáundið upp á sig – ég ber fram ýmiss konar kræsingar eftir behag og þeli hverju sinni, sumt er reyndar fastir liðir, annað eitthvað sem ég hef verið að prófa eða dettur allt í einu í hug að prófa, og fólk kemur og fer.
En síðasta Þorláksmessa var reyndar óvenju eftirminnileg, ekki bara vegna þess að þetta gæti orðið síðasta Þorláksmessuveislan mín (nei, ég er ekkert að fara að hætta að vera með opið hús, engar áhyggjur, en það færist líklega aðeins framar á dagatalinu því ég ætla ekki að vera á landinu næstu jól) – heldur vegna þess að ég var með blaðamenn og ljósmyndara frá bandaríska tímaritinu Saveur í heimsókn og afraksturinn birtist í næsta jólablaði. Það var dálítið eftirminnilegt.
Ljósmyndarinn, sem hefur myndað mat víða um heim, sagði mér á eftir að hún hefði aldrei séð eina manneskju reiða fram annað eins veisluborð á jafnstuttum tíma. Ég veit nú ekki hvort það passar. En mikið óskaplega var þetta skemmtilegt.
Skemmtilegt. Og já öðruvísi.
mjög skemmtilegt og fróðlegt
Nú er ég svangur á líkama en mettur á sál. Best að gera eitthvað í hinu fyrra.