Ég hef nú verið frekar ódugleg að skrifa hér að undanförnu – var býsna önnum kafin um mánaðmótin og svo á fimmtudagsmorguninn í síðustu viku fór ég til Finnlands, var í Turku á matarkaupstefnu og bókamessu, hélt erindi um íslenska matarmenningu og matarsögu, tók þátt í hringborðsumræðum, bakaði pönnukökur og talaði um bækurnar mínar. Og hafði það bara alveg hreint ágætt. En nóg að gera og auðvitað var ég ekkert að elda í Finnlandsferðinni. Nema pönnukökurnar auðvitað. Og ég tók mína eigin pönnuköku og pönnukökuspaða með til Turku, treysti ekki öðrum tólum nægilega vel ..
Svo er líka kominn sá árstími að ég tek lítið af myndum nema um helgar svo ég verð ekki mikið að blogga um hversdagsmatinn á virkum dögum. Reyndar eldaði ég ágætis kjöthleif með basilíku og hráskinku í kvöld en myndaði hann ekkert – líklega skrifa ég nú samt uppskriftina niður á meðan ég man hana enn og endurtek hana svo einhverntíma þegar betur stendur á til að geta sett hana hér. Eða einhvers staðar.
Ég á aftur á móti slatta af uppskriftum á lager, sumar hafa birst í MAN eða annars staðar, aðrar hvergi, og tíni örugglega eitthvað af þeim fram ef mig langar að blogga en á ekkert splunkunýtt. Og það geri ég einmitt núna, þetta er uppskrift frá í sumar. Einföld og engin nýjung – þvert á móti, þetta er sambland af tveimur alþekktum klassískum kjúklingauppskriftum, annars vegar hvítlaukskjúklingi – kannast ekki allir við fjörutíu hvítlauksgeira kjúkling? – og hins vegar sítrónukjúklingi, þar sem kjúklingurinn er fylltur með sítrónu áður en hann er steiktur.
Enginn veit fyrir víst hver uppruni fjörutíu hvítlauksgeira kjúklingsins er og kannski varð réttur með þessu heiti fyrst til í Bandaríkjunum, þar sem fjörutíu hvítlauksgeirar þóttu ógnvekjandi tala – en ætternið er að minnsta kosti franskt. En ef kjúklingur væri eldaður með fjörutíu söxuðum eða pressuðum hvítlauksgeirum yrði hann líklega óætur. Galdurinn er að hafa geirana heila – eða hálfa, eins og hér er gert – og baka þá með kjúklingnum þar til þeir eru orðnir að mauki inni í hýðinu. Þá verða þeir unaðslega sætir og bragðmiklir og frábært að kreista maukið yfir kjúklinginn eða meðlætið.
Ég notaði reyndar ekki nema svona tuttugu hvítlauksgeira – tvo heila hvítlauka – og setti sítrónu inn í fuglinn og dreifði heitu sítrónumauki yfir hann hálfsteiktan. Útkoman fannst mér sérlega góð. Svo gerði ég gómsæta sítrus-hvítlauks-rjómasósu úr soðinu.
Allavega, ég var með kjúkling, svona 1,6 kíló, nýmalaðan pipar, salt, 40 g af smjöri – hvorki hörðu né linu, heldur dálítið mjúku – 2 sítrónur, 3-4 rósmaríngreinar (en það má nota aðrar kryddjurtir, ferskar eða þurrkaðar), 2 heila hvítlauka og svolitla ólífuolíu.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 215°C. Svo losaði ég um um haminn á bringu kjúklingsins með því að stinga fingrunum og síðan allri hendinni inn undir hann. Þetta útglennta þarna undir hamnum eru alltsvo puttarnir á mér.
Ég kryddaði undir haminn með pipar og salti og setti svo u.þ.b. helminginn af smjörinu á bringuna undir haminn. Svo nuddaði ég haminn (utan frá) til að dreifa sem mest úr smjörinu.
Næst skar ég aðra sítrónuna í báta og setti inn í kjúklinginn, ásamt 1–2 rósmaríngreinum, pipar og salti.
Svo tók ég báða hvítlaukana og skar þá í sundur í miðju (best er ef geirarnir tolla saman en ef einhverjir þeirra losna sundur er það engin katastrófa) og sítrónuna í þykkar sneiðar.
Setti svo kjúklinginn í eldfast, olíuborið mót, kryddaði hann með pipar og salti og dreifði afganginum af smjörinu yfir í smáklípum, ásamt rósmaríninu. Svo dreifði ég hvítlaukshelmingum og sítrónusneiðum í kring.
Ég setti svo kjúklinginn í ofninn og steikti hann í um hálftíma.
Þá tók ég fuglinn út og jós soði úr fatinu yfir hann. Ég skóf líka innan úr sítrónusneiðunum með skeið og dreifði á bringuna. Setti fatið svo aftur í ofninn og steikti í 25–30 mínútur í viðbót, eða þar til kjúklingurinn var gegnsteiktur (þar til tær safi rennur úr honum þegar prjón er stungið í hann þar sem hann er þykkastur). Þá tók ég hann út, setti hann á fat ásamt hvítlauknum og lét bíða í 10–15 mínútur, á meðan ég bjó til sósu.
Hún var mjög einföld, ég skóf botninn á fatinu og síaði soðið í pott. Bætti svo við 300 ml af vatni og 1 tsk af kjúklingakrafti, hitaði að suðu og lét malla smástund. Bætti við svona 100 ml af rjóma og 1 tsk af worchestersósu, smakkaði soðið og bragðbætti eftir þörfum.
Ég þykkti sósuna dálítið með sósujafnara eða hveitijafningi og bar hana fram með kjúklingnum …
ásamt steiktum kartöflum og salati.
Og svo er um að gera að hafa hvítlaukshelmingana með svo fólk geti tekið sér geira og kreist úr þeim ljúffengt hvítlauksmaukið.
*
Hvítlaukssítrónukjúklingur
1 kjúklingur, um 1,6 kg
pipar
salt
40 g smjör, hálflint
2 sítrónur
3–4 rósmaríngreinar
2 heilir hvítlaukar
svolítil ólífuolía
Sósan:
300 ml vatn
1 tsk kjúklingakraftur
100 ml rjómi
1 tsk worchestersósa eða sojasósa
sósujafnari eða hveiti