Rauð-spretta

Ég áttaði mig á að það er líklega orðið dálítið langt síðan ég hef verið hér með uppskrift að hvitum fiski. Ekki vegna þess að hann hafi ekki verið á borðum hjá mér, þvert á móti, en af einhverri ástæðu hef ég ekki mikið verið að mynda hann eða skrifa niður uppskriftir. Þorskur, steinbítur, blálanga, karfi og fleira – þetta þykir mér allt afskaplega góður matur og skemmtilegt að elda hann.

Fiskur er líka eins og ég hef áður sagt hinn eini sanni skyndibiti. Rétturinn sem ég eldaði í kvöldmatinn áðan og uppskrift er að hér á eftir tók til dæmis ekki mikið meira en tíu mínútur, frá upphafi til enda – og fiskurinn sjálfur ekki nema þrjár til fjórar mínútur.

Mig var líka farið að langa verulega í fisk, hafði ekki eldað hann í meira en viku. Fékk þó tvisvar fisk í Finnlandsferðinni um helgina, fyrst steikta síld í finnsku mötuneyti – hún var óæt (þótt steikt síld geti verið ágæt) og svo steiktan aborra á veitingahúsi í Turku, hann var nú alveg ágætur. En núna átti ég lítið rauðsprettuflak, 170 grömm eða svo, alveg passlegt í matinn handa mér einni, án afgangs – mig vantar nefnilega yfirleitt ekki nesti í vinnuna á föstudögum, þá er boðið upp á morgunkaffi og með því á Forlaginu og yfirleitt eru afgangar af brauðmetinu og álegginu sem hægt er að gæða sér á í hádeginu.

Svo að ég þurfti bara þetta eina litla flak. Keypti heldur ekkert til að hafa með því, átti ýmislegt í ísskápnum sem ég vissi að ég gæti notað.

_MG_1718

Ég átti hálfan rauðlauk og 100 g af sveppum frá því að ég steikti balsamlifur í gær – sú uppskrift kemur örugglega seinna – og ég saxaði laukinn og skar sveppina í sneiðar, saxaði 2 hvítlauksgeira smátt, hitaði 1 msk af ólífuolíu á pönnu og lét þetta krauma smástund.

_MG_1720

Svo kryddaði ég með 1/2 tsk af þurrkuðu timjani, 1 tsk af reyktri papriku (má vera venjuleg), pipar og salti.

_MG_1725

Svo opnaði ég dós af smjörbaunum (mættu alveg vera einhverjar aðrar baunir), lét renna af þeim í sigti, hellti þeim svo á pönnuna, bætti við svolitlu vatni og lét malla á meðan ég steikti rauðsprettuna. Endaði á að saxa nokkur basilíkublöð og setja saman við rétt áður en ég bar þetta fram en það var nú bara af því að ég átti þau til.

_MG_1729

Svo blandaði ég saman á diski 1 msk af rúgmjöli (má vera heilhveiti eða hveiti en mér finnst rúgmjöl best), pipar, salti og 1/2 tsk af reyktri papriku (eða venjulegri).

_MG_1733

Svo velti ég rauðsprettuflakinu upp úr mjölblöndunni og reyndi að láta sem mest af henni tolla á fiskinum.

_MG_1735

Síðan hitaði ég 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á lítilli pönnu. Setti svo flakið á pönnuna með roðhliðina upp og steikti það við góðan hita í 1 mínútur.

_MG_1739

Sneri því svo og steikti það í um 1 mínútu á hinni hliðinni.

_MG_1742

Ég setti svo hluta af baunablöndunni á disk ásamt salatblöðum, lagði rauðsprettuflakið ofan á og bar fram með sítrónubátum.

_MG_1752

Ég bar afganginn af baunablöndunni fram með (en reyndar var það óþarfi, þetta var of stór skammtur fyrir einn og afgangurinn verður notaður í einhvern annan rétt á morgun eða um helgina).

En rauðsprettan var alveg hreint ágæt. Rauðgullin og falleg.

*

Steikt rauðspretta með baunasalati

1 lítið rauðsprettuflak, 170-200 g

1 msk rúgmjöl (eða heilhveiti eða hveiti)

1/2 tsk reykt paprika

pipar

salt

1 msk olía

1 msk smjör

*

Heitt baunasalat

1/2 rauðlaukur

100 g sveppir

2 hvítlauksgeirar

1 msk olía

1 tsk paprika (reykt)

1/2 tsk þurrkað timjan

pipar

salt

1 dós smjörbaunir (eða aðrar baunir)

nokkur basilíkublöð (má sleppa)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s