Það verður nú að vera eitthvert bakkelsi af og til. Ég er að vísu að fara í smávegis jólabakstur um helgina en það er nú ekki hann sem ég ætla að skrifa um. Nei, þetta er meira hversdags. En gott samt sko. Ég gerði þetta fyrir MAN einhverntíma í sumar.
Ég kalla þetta hálfbrúnkur af því að botninn er brúnkudeig en ofan á það er svo sett frekar hollustulegt hafra- og hnetudeig sem felur súkkulaðið og sukkið sem er undir. Útkoman er einstaklega góð og maður getur næstum ímyndað sér að maður sé að borða einhverja hollustu …
Hugmyndin er fengin úr uppskrift frá Fat Witch Bakery í New York en þeirra útgáfa (sem er ívið óhollari) kallast Breakfast Brownie Bars og sagt að það vanti eiginlega bara beikonið til að þetta sé fullkominn morgunverður. Ég veit nú ekki alveg …
Ég byrjaði á að bræða 200 g af smjöri og 100 g af suðusúkkulaði í potti við vægan hita, hrærði þar til það var bráðið og samlagað og lét það svo kólna dálítið.
Ég þeytti 2 egg, 75 g af púðursykri og 1 tsk af vanilluessens mjög vel saman og hrærði svo súkkulaðismjörblöndunni rólega saman við.
Svo blandaði ég 60 g af heilhveiti (má alveg vera hveiti en hey, þetta á að vera þykjustuhollusta) gætilega saman við með sleikju.
Ég hellti svo deiginu í húðað (eða pappírsklætt) ferkantað form, 20×30 cm. Setti það í kæli í um 20 mínútur og hitaiu á meðan ofninn í 180°C.
Þá var komið að hafradeiginu. Hollustunni sko … eða þannig. Ég hrærði 100 g af linu smjöri og 150 g af púðursykri vel saman og þeytti svo 2 eggjum saman við, ásamt 1 tsk af vanilluessens. Blandaði svo 200 g af heilhveiti og 1 tsk af lyftidufti saman við …
… og svo 100 g af hafragrjónum og 60 g af grófsöxuðum pekanhnetum (eða valhnetum) saman við og hrærði þetta saman við deigið með sleif.
Deigið verður þykkt og svolítið erfitt að hræra það en þannig á það að vera.
Ég tók formið með brúnkudeiginu úr kæli og grófmuldi hafradeigið jafnt yfir. Yfirborðið ´ ekki að vera slétt en það má klappa það létt með lófanum til að jafna það dálítið.
Ég bakaði kökuna á næstneðstu rim í ofninum í um 25 mínútur. Lét hana svo kólna smástund í forminu áður en ég skar hana í bita – eða þar sem ég notaði mitt sérlega brúnkumót tók ég bara grindina sem fylgir því og þrýsti henni niður í kökuna – og lét hana svo kólna alveg.
Ég hélt satt að segja að það yrðu skarpari litaskil í kökunni en hafradeigið seig niður og rann saman við brúnkudeigið. Það var verulega góð blanda.
Efri hlutinn var alveg ágætur – en það besta var semsagt á botninum.
Hálfbrúnkur
16 bitar
Brúnkudeig
200 g smjör
100 g suðusúkkulaði
2 egg
75 g púðursykur
1 tsk vanilla
60 g heilhveiti (eða hveiti)
*
Hafradeig
100 g lint smjör
150 g púðursykur
2 egg
1 tsk vanilluessens
200 g heilhveiti
1 tsk lyftiduft
100 g hafragrjón
60 g pekanhnetur eða valhnetur