Eldað hægt og rólega

Ég er svolítið þreytt og löt þessa dagana og hef eiginlega ekkert nennt að elda, satt að segja. Sem kemur svosem stundum fyrir mig, ekki síst þegar ég er bara með sjálfa mig í mat – þá verður fljótlegt salat eða eitthvað slíkt oft fyrir valinu þegar mig vantar kvöldmat.

En það er sjálfsagt ekkert óeðlilegt að ég finni fyrir þreytu, hún er nú meira andleg en líkamleg, held ég. Dauðsfall og jarðarför taka á, þannig er það nú bara, maður finnur það kannski best þegar allt er afstaðið. Stundum þegar mér líður svona er lausnin einmitt að fara í eldhúsið og gera eitthvað skemmtilegt og uppörvandi en ekki núna, kannski vegna þess að ég hef verið að elda ansi mikið að undanförnu – hef verið að klára myndatökur í tvær bækur, klára uppskriftir fyrir MAN, og svo voru páskarnir og það allt. En ég reikna nú fastlega með að þetta sé að komast í lag. Aukafrídagur á morgun og svona og honum ætla ég reyndar að eyða að töluverðu leyti í eldhúsinu við tilraunastarfsemi og fleira.

Allavega, uppskriftin núna er ekkert frumleg, bara gamall standard sem ég hef gert ýmis tilbrigði við um dagana. En rétturinn hefur þá kosti að vera einfaldur og auðveldur. Og góður, auðvitað. Þessi útgáfa birtist fyrst í febrúarblaði MAN.

Ég baka oft silung og lax við mjög vægan hita og fæ þannig sérlega safaríkan og bragðgóðan fisk. Og þegar hitinn er svona vægur haldast kryddjurtirnar sem ég strái yfir hann fallega grænar (basilíka vill þó dökkna fullmikið). Ég hef notað ýmsar tegundir af kryddjurtum og líka smurt ýmsu á fiskinn, oft einhverju sætu eins og marmilaði en líka ýmsum kryddsósum. Í staðinn fyrir sítrónu-límónumarmilaðið má líka nota appelsínumarmilaði blandað rifnum sítrónu- eða límónuberki og -safa.

IMG_9810

Allavega, ég notaði tvö væn bleikjuflök (þessi uppskrift ætti að duga fyrir 3-4), 3 vorlauka, 1/2 knippi af fjallasteinselju, 2 msk af ólífuolíu, 3 msk af sítrónu-límónumarmilaði (lemon-lime) sem ég átti til, en það má semsagt nota ýmislegt annað (sjá hér fyrir ofan), 1/2 tsk af dijonsinnepi (má vera meira), pipar og salt.

IMG_9813

Ég byrjaði á að hita ofninn í 120°C. Svo setti ég bökunarpappírsörk á ofnplötu, penslaði hana með dálítilli olíu og lagði svo flökin á hana með roðið niður. Bar afganginn af olíunni á flökin og kryddaði með pipar og salti.

IMG_9816

 

Svo hrærði ég marmilaði og sinnep saman og smurði blöndunni jafnt á flökin.

IMG_9820

Svo saxaði ég vorlaukinn og steinseljuna og dreifði þessu yfir flökin. Setti svo plötuna í miðjan ofninn og bakaði silunginn í um 30 mínútur.

IMG_9828

Þá ætti silungurinn að vera rétt eldaður í gegn, safaríkur og meyr en alls ekki þurr, og kryddjurtirnar enn fagurgrænar.

IMG_9867

Ég færði svo flökin yfir á fat (notaði til þess pönnukökuspaða) og bar þau fram með soðnum kartöflum og salati (mætti líka hafa t.d. spínat).

IMG_9874

 

Hægbökuð bleikja með kryddjurtum

600-700 g bleikjuflök

2 msk ólífuolía

pipar

salt

3 msk sítrónu-límónu-marmilaði (eða annað marmilaði)

½ tsk dijonsinnep

3 vorlaukar

½ knippi steinselja

Um 30 mínútur við 120°C.

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s