Eitt af því sem ég elda iðulega þegar ég er í letikasti eru kjúklingavængir – þá velti ég þeim oftast bara upp úr vel kryddaðri hveitiblöndu, raða á plötu klædda bökunarpappír og baka í miðjum ofni við háan hita í 25-30 mínútur, snúið einu sinni. Gæti varla verið einfaldara.
En þegar ég er ekki alveg eins löt geri ég ýmislegt annað við vængina. Útbý til dæmis kóreska kjúklingavængi. Aðeins meiri fyrirhöfn en síður en svo flókið.
Kóreskir kjúklingavængir hafa verið vinsælir í Bandaríkjunum og víðar á síðustu arum.Þeir eru sérlega stökkir og knasandi og það er yfirleitt vegna þess að þeir eru djúpsteiktir tvisvar, fyrst eldaðir til hálfs og svo kláraðir rétt áður en þeim er velt upp úr kryddaðri, sætri sósu og síðan bornir fram. Uppskrift að þessu má finna í bókinni Kjúklingaréttir Nönnu og hér er mynd:
Reyndar er þetta ekkert sérlega kóreskt – allavega ekki sæta sósan – eða það sagði kórenski sjónvarpsmaðurinn sem heimsótti mig í fyrra mér. Það er nú kannski aukaatriði, þetta er fjári gott.
Ég held að uppskriftin sem hér kemur sé mögulega aðeins kóreskari (og þó kannski ekki) en hér er allavega farin önnur leið til að fá vængina brakandi stökka og þeir eru alls ekki síðri – og auðvitað mun hollari. En það þarf að byrja undirbúninginn daginn áður og hafa pláss í ísskápnum.
Því miður eru engar myndir af undirbúningnum. Ég tók þær reyndar á sínum tíma (gerði þetta fyrir marsblað MAN) en þær hafa einhvernveginn farið forgörðum, ég finn þær allavega ekki núna.
En ég notaði einn bakka af kjúklingavægjum (10-12 stykki). Hjó þá ekki í sundur á liðamótum eins og ég geri nú oftast þegar ég elda kjúklingavængi, vildi frekar hafa þá heila – en það er allt í lagi að hluta þá sundur ef maður vill það heldur.
Ég byrjaði á (daginn áður semsagt) að setja 2 eggjahvítur, 1 tsk af matarsóda og 1 tsk af salti saman í skál og hræra þetta saman. Velti svo vængjunum vel upp úr blöndunni. Tók svo stórt, eldfast mót (má líka nota ofnskúffu), setti rist yfir það og raðaði vængjunum á ristina. Setti svo mótið með ristinni yfir í kæliskáp og lét standa og þorna til næsta dags. Ekki breiða yfir kjúklinginn, þá þornar hann ekki.
Daginn eftir hitaði ég svo ofninn í 230°C. Setti mótið og ristina í miðjan ofninn og steikti vængina í 15 mínútur. Tólk þá út, sneri þeim og steikti áfram í 10 mínútur. Sneri þeim þá aftur og steikti í 10 mínútur í viðbót, eða þar til þeir voru orðnir fallega dökkgullinbrúnir.
Kóreskir kjúklingavængir
10−12 kjúklingavængir
2 eggjahvítur
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
Sósa
4 msk tamari-sojasósa
1½ msk hrísgrjónaedik
1 msk hunang
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
¼ tsk chiliflögur, eða eftir smekk
1 msk engiferrót, smátt söxuð
1 msk sesamfræ
grænu blöðin af 2 vorlaukum, skorin í þunnar sneiðar