Rauður 1. maí (og gulur og grænn og appelsínugulur)

Ég átti núna á fyrsta maí dálítið af lambakjöti sem ég þurfti eitthvað að gera við. Þetta voru aðallega framhryggjarbitar og ég hafði upphaflega ætlað mér að grilla kjötið en þegar til átti að taka fannst mér ekki alveg nógu gott grillveður (eða jú, það var það svosem) og svo var gasið búið af grillkútnum (en ég hefði getað tengt eldavélarkútinn við grillið) og svo bara einfaldlega nennti ég ekki að grilla, sem var náttúrlega aðalástæðan, hitt var fyrirsláttur.

Ég var nefnilega búin að dunda mér mestallan daginn í eldhúsinu, annars vegar við tilraunastarfsemi (sumt gekk upp, annað ekki) og svo við annars konar eldamennsku sem var allt annað en tilraunastarfsemi, heldur gerði ég þrælklassíska rétti – eldað soðinn saltfisk með rófum og hömsum, sem eiga sérlega við á baráttudegi verkalýðsins; lífið er jú saltfiskur eins og Salka Valka sagði.

Og á tyllidögum var gjarna borin fram rjómaterta með kokkteilávöxtum með kaffinu. Og það var nú viðeigandi, fannst mér, því að þennan dag voru einmitt eitt hundrað ár frá því að niðursoðnir kokkteilávextir voru fyrst kynntir á Íslandi í blaðaauglýsingu.

Screen Shot 2014-05-01 at 8.30.09 AM

 

Svo að það mátti nú ekki minna vera en að ég bakaði svo sem eina stríðstertu.

_MG_1375

 

Og kaffikanna og bollapör í stíl. Ég fann samt að ég er alveg úr æfingu með rjómasprautuna.

En það var þetta með kvöldmatinn. Ég semsagt nennti ekki að gera neitt sem kallaði á einhverja fyrirhöfn í eldhúsinu en eitthvað þurfti ég nú að gera því dótturfjölskyldan var að koma í mat. Svo að í stað þess að kveikja á grillinu dró ég fram grillplötuna mína. Það má líka nota pönnu en þetta voru það margar kjötsneiðar að þær hefðu ekki komist með góðu móti á stóru pönnuna mína. Og er hún þó stór.

_MG_1417

 

En ég byrjaði á að blanda kryddolíu til að velta kjötinu upp úr. Ég mældi nú ekkert nákvæmlega en þetta voru 3-4 msk af olíu, sirka 1 tsk af kummini, 1 tsk af chilikryddblöndu (ekki chilipipar), og slatti af pipar og salti. Þetta var fyrir 7 vænar kjötsneiðar, líklega rúmlega 1,5 kg alls.

 

 

_MG_1420

 

Ég velti kjötinu upp úr olíunni en lét það ekki liggja neitt nema bara rétt á meðan ég hitaði ofninn í 180°C og hitaði svo grillplötuna vel. Ef ég hefði grillað kjötið á útigrillinu hefði ég sennilega sett sítrónusafa eða edik út í kryddolíuna og látið kjötið liggja í leginum í nokkra klukkutíma. Brúnað það á báðum hliðum við háan, beinan hitað og látið það svo vera á lokuðu grilli við óbeinan hita í góða stund. En það hefði orðið allt annar réttur.

Ég stráði góðum slatta af þurrkuðu timjani á kjötið áður en það fór á grillplötuna.

_MG_1422

 

Ég steikti kjötið við góðan hita í 2-3 mínútur, eða þar til það var farið að taka lit, sneri því og steikti á hinni hliðinni.

_MG_1426

 

Svo setti ég kjötsneiðarnar í stórt, eldfast mót (eða ofnskúffu). Var búin að skera niður um 1 kg af kartöflum í báta og dreifði þeim yfir, ásamt nokkrum gulrótum, 3-4 hvítlauksgeirum í bitum og nokkrum rósmaríngreinum (má sleppa). Hellti olíunni af plötunni yfir – og eins ef eitthvað var eftir á diskinum.

_MG_1438

 

Ég athugaði svo hvað ég ætti fleira af hentugu grænmeti og það reyndust vera til þrír vel þroskaðir tómatar og ein spænsk paprika, sem ég skar niður og dreifði yfir. Hellti svo sirka 200 ml af sjóðandi vatni í formið, breiddi álpappír mjög vel yfir (það má auðvitað líka nota form með loki en þau eru sjaldan nógu stór fyrir svona stóran skammt) og setti í ofninn í svona 45 mínútur.

_MG_1444

 

Þá hækkað ég hitann í 220°C, tók fatið út, fjarlægði álpappírinn, hellti mestöllu soðinu í pott (hmm, reyndar best að gera það áður en maður tekur álpappírin, best að ýta honum bara aðeins til hliðar í einu horninu og hella soðinu af til að grænmetið hrynji ekki ofan í pottinn, taka svo álpappírinn). Setti fatið svo aftur í ofninn í svona 15-20 mínútur, eða þar til grænmetið var byrjað að taka lit.

_MG_1445

 

Soðið ætti að vera bragðmikið og gott og það er hægt að gera úr því ýmiss konar sósur, jafnvel bara nóg að þykkja það og krydda aðeins, en ég ákvað að gera tómatsósu, fagurrauða af því að það var nú fyrsti maí, svo að ég hitaði það að suðu og hrærði einni fernu (500 ml) af tómatpassata saman við.

 

Svo kryddaði ég sósuna með slatta af óreganói og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum. Þykkti hana svo með hveitijafningi (það má auðvitað líka nota sósujafnara) og lét hana malla á meðan kjötið var í ofninum.

 

 

Þetta var nú alveg ágætlega litríkt eins og það kom úr ofninum en ég er litaglöð kona og á auk þess yfirleitt heimaræktaða basilíku svo ég stráði slatta af henni yfir.

_MG_1458

 

Og svo bar ég þetta fram með sósunni og grænu salati.

 

Gufusteikt lambakjöt með grænmeti

(fyrir 6)

1,5 kg lambaframhryggur eða annað kjöt í  2 cm þykkum sneiðum

3-4 msk olía

1 tsk kummin

1 tsk chilikryddblanda (mætti líka nota paprikuduft eða annað krydd)

pipar

salt

2 tsk þurrkað timjan

ferskt rósmarín (má sleppa)

3-4 hvítlauksgeirar

1 kg kartöflur

nokkrar gulrætur

3-4 tómatar, vel þroskaðir

1 paprika (má sleppa)

200 ml sjóðandi vatn

 

Tómatsósa:

soðið úr steikarfatinu

500 ml tómat-passata, eða eftir smekk

1 tsk þurrkað óreganó

pipar og salt

hveiti eða sósujafnari til þykkingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s