Hvað verður maður að eiga í skápnum?

Í erlendum matartímaritum eru oft fastir þættir þar sem eitthvert fólk – yfirleitt einhverjir þekktir, gjarna kokkar eða mikið mataráhugafólk, en stundum bara eitthvert almennt frægafólk – er spurt nokkurra spurninga sem lúta að smekk þess, matargerð og eldhúsvenjum. Og ein mjög algeng spurning í slíkum listum er eitthvað á borð við: Nefndu x hráefni sem þú verður að eiga í ísskápnum/eldhúsinu. X er oftast einhver lág tala, þrír eða fimm til dæmis. Eða bara einn.

Ég veit ekki alveg hvað ég mundi nefna ef ég væri til dæmis beðin að nefna fimm hráefni. Það gæti verið mjög erfitt að ákveða það og svo breytist það líka dálítið með tímanum, eftir því í hvaða fasa ég er í matargerðinni og svona. En ég er 100% viss um að tvö af þessum fimm atriðum yrðu egg og sítrónur. Þetta tvennt finnst mér alveg ómissandi og ég get ekki hugsað mér matargerð án þeirra. Ekki til lengri tíma allavega.

Og hér er einmitt uppskrift þar sem þessi tvö hráefni eru allsráðandi. Og mynda saman ótrúlega mjúka og rjómakennda blöndu, margir halda að það hljóti að vera rjómi í henni en svo er alls ekki.

Avgolemono þýðir egg-sítróna og þetta gríska heiti, sem er nú þekkt víða um heim, er notað um bæði sósur og súpur sem gerðar eru úr þeyttum eggjum og sítrónusafa sem blandað er saman við soð eða annan heitan vökva og hitað þar til súpan eða sósan þykknar. Avgolemono (undir ýmsum nöfnum) er þekkt frá fornu fari við austanvert Miðjarðarhafið, á Balkanskaga og fyrir botni Miðjarðarhafs og sumir telja að upprunans sé að leita í matargerð gyðinga en það er engan veginn víst; þetta er eitthvað svo sjálfsögð samsetning að hún getur hafa orðið til víða. Að minnsta kosti alls staðar þar sem sítrónur eru ræktaðar.

Avgolemono-sósa er meðal annars notuð sem volg ídýfa með ýmsu grænmeti og smáréttum en líka sem sósa með fiski, kjúklingi og á meðal ítalskra gyðinga með pasta. Súpan er meira og minna eins, nema þynnri (sumar eru þó svo þykkar að þær eru nánast eins og pottréttur, ef kjöt eða grænmeti er sett út í) og yfirleitt er í þeim einhver sterkja; algengast er að nota orzo, sem er smátt, hrísgrjónalagað pasta, en hrísgrjón eru líka algeng. Því má þó sleppa og þá ætti að vera komin súpa sem hentar vel þeim sem eru á lágkolvetnafæði.

Soðið sem notað er í súpuna getur verið af ýmsu tagi, lambakjöts-, fisk- eða grænmetissoð, en langalgengast er þó að nota kjúklingasoð. Ég mæli ekki sérstaklega með teningi eða soðkrafti, það er langbest að nota heimagert kjúklingasoð og best af öllu finnst mér að sjóða kjúkling sérstaklega og nota soðið af honum beint þótt frosið soð komi líka til greina. Og þá set ég líka kjúklinginn (eða hluta hans) út í súpuna en það er þó oftast ekki gert, heldur er hann borðaður með af sérstökum diski eða hafður í aðra rétti. Hér sauð ég lítinn kjúkling og notaði bringurnar út í súpuna en tók allt annað kjöt af beinunum og notaði í pastarétt síðar.

Uppskriftin birtist upphaflega  í páskablaði MAN, þar sem ég var með grískt páskaþema (og það verður því örugglega slatti af grískum uppskriftum hér á næstunni) og ég studdist að nokkru leyti við uppskrift kunningjakonu minnar, gríska matreiðslubókarhöfundarins Aglaiu Kremezi.

_MG_1702

Ég byrjaði með einn frekar lítinn kjúkling, líklega um 1200 grömm (það hefði nú sannarlega ekki verið talinn lítill kjúklingur um það leyti sem ég var að byrja minn eldamennskuferil) og setti hann í passlega stóran pott. Skar 2-3 gulrætur og 2-3 sellerístöngla í sneiðar og einn lauk í bita og setti í pottinn ásamt 2-3 lárviðarlaufum, 1 tsk af piparkornum, salti og 2 lítrum af vatni.

_MG_1723

Ég hitaði þetta að suðu, setti svo lok á pottinn og lét malla á hægum hita  í 50-60 mínútur. Þá tók ég  kjúklinginn upp úr og setti hann til hliðar. Soðið setti ég hins vegar aftur í pottinn, hitaði að suðu, setti 50 g af hrísgrjónum út í og lét sjóða í 12-15 mínútur, eða þar til hrísgrjónin voru meyr.

_MG_1839

Á meðan braut ég fjögur egg  í skál. Hrærivélarskálina reyndar, mér finnst best að nota hrærivél eða rafmagnsþeytara, en það er auðvitað alveg hægt að þeyta þetta í höndunum líka.

_MG_1841

Ég byrjaði á að þeyta eggin vel saman. Þau þurfa nú ekkert að freyða svona mikið, ef maður þeytir í höndunum – en ég notaði alltsvo hrærivél.

_MG_1846

Svo tók ég 3 msk af nýkreistum sítrónusafa (ætti að fást úr einni sítrónu) , hellti sítrónusafanum smátt og smátt saman við og þeytti vel á meðan.

_MG_1853

Svo hellti ég sjóðheitu soðinu smátt og smátt saman við eggjablönduna og lét vélina ganga á meðan. Ef þeytt er í höndunum er trúlega betra að þeyta bara einum bolla eða svo saman við eggin í skálinni en hella svo eggjablöndunni rólega út í soðið í pottinum og hræra rösklega á meðan.

Ég hellti svo blöndunni aftur í pottinn, hafði hitann mjög vægan (á lægstu mögulegu stillingu) í fáeinar mínútur og hrærði stöðugt þar til súpan var farin að þykkna aðeins.

_MG_1869

Þá tók ég pottinn af hitanum, hellti súpunni í tarínu (af því að ég á svoleiðis, en það má alveg bera hana fram í pottinum auðvitað), reif (eða skar) niður kjúklingabringurnar (en því má sleppa).

_MG_1885

Og skreytti með smávegis steinselju, en því má nú líka sleppa.

Þessi útgáfa er nokkuð þykk en súpan má alveg vera þynnri.

 

Sítrónu-kjúklingasúpa – Avgolemono

Fyrir 4-6

 

1 kjúklingur, lítill

2-3 gulrætur

2-3 sellerístönglar

1 laukur

2-3 lárviðarlauf

1 tsk piparkorn

salt

2 l vatn

50 g hrísgrjón

4 egg

safi úr 1 sítrónu (um 3 msk)

steinselja eða aðrar kryddjurtir

 

 

 

 

5 comments

  1. Finnst svo rosalega skemmtilegt að lesa um matargerðina þína og hvað hugmyndir af réttunum koma

  2. Þetta er svona ein af þeim uppskriftum sem ég verð að hugsa um þar til ég prófa sjálf. Get ekki ímyndað mér annað en að þessi súpa sé stórgóð.

    • Já, hún getur verið mjög góð (finnst mér allavega) en það skiptir miklu að vera með gott soð. Og svo er hægt að gera ansi góða sósu á nákvæmlega sama hátt, bara hafa hana dálítið þykkari kannski og sleppa hrísgrjónunum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s