Grískt partí

Ég er í sumarbústað í Skagafirði með saumaklúbbnum mínum. Sem er alveg óskaplega indælt, þetta eru frábærar konur sem ég er búin að þekkja – ja, enga þeirra í styttri tíma en rétt tæp 40 ár og sumar lengur – og eina mun lengur því Gunna systir er  í þessum hópi. Svo að þetta er ansi skemmtilegt og hér fljúga setningar eins og ,,það var árið sem ég fótbrotnaði í fallhlífastökkinu“ og ,,munið þið eftir Þjóðverjanum sem drakk í gegnum mig?“ Og fleira og fleira.

Og ég fæ að elda handa þeim – ef einhver heldur að það sé kvöð get ég fullvissað ykkur um að það er með því skemmtilegra sem ég geri. Reyndar bæði að elda fyrir góða vini og að elda í sumarbústað eða annars staðar þar sem ég þarf að notast við það sem til er eða einhver hefur munað eftir/dottið í hug að koma með og maður þarf að láta hugmyndaflugið ráða.

Það er bara einn galli, og hann svosem ekki stórvægilegur: Ég neyðist líklega til að horfa á Eurovision í kvöld. Eða reyndar ekki horfa, en hlusta allavega. Það hef ég ekki gert í mörg ár. En ég lifi það nú af.

Og í tilefni þess datt mér í hug að setja hér uppskriftir að smávegis góðgæti sem kynni einmitt að henta í dannað og dömulegt Eurovisionpartí. Nú hef ég ekkert verið að fylgjast með eins og fyrr segir og hef ekki hugmynd um hvort Grikkir komust áfram og eru með í kvöld. En þeir eru það nú venjulega. Og hvað sem því líður, þá koma hér uppskriftir að nokkrum grískættuðum smáréttum sem ég var með í páskablaði MAN og ættu að passa vel.

Meze – fleirtala mezethes – þýðir biti eða smakk og er notað um ýmsa smárétti sem eru bornir fram með drykkjum, gjarna á undan máltíð. Réttirnir geta verið af ýmsu tagi, heitir eða kaldir – stundum bara nokkar ólífur, brauð og ídýfur eins og tzatziki eða taramasalata, stundum ostar, grillaður smokkfiskur eða sardínur, steiktar kartöflur, litlir blaðdeigsbögglar með fyllingu, litlar kjötbollur, pylsur, fyllt vínviðarlauf og ótalmargt annað. . Mezethes eru ekki eiginlegir forréttir, heldur snarl sem notið er saman með glasi af víni, ouzo eða raki. Sem sagt, smellpassar.

_MG_1308

Kryddlegnar ólífur eru fínasta nart með víninu eða bjórnum. Þær þurfa ekki að ligga nema nokkra klukkutíma en geymast í nokkrar vikur í kæli.

Ég notaði svona 400 g af ólífum; finnst best að vera með nokkrar mismunandi tegundir af ólífum, bæð grænum og svörtum. 350 ml af ólífuolíu, 1 sítrónu (notaði bara börkinn), 4 hvítlauksgeira, 2-3 rósmaríngreinar, nokkrar timjangreinar (það má alveg nota þurrkað timjan en ég mæli með að rósmarínið sé ferskt) og 1/4 tsk af piparkornum.

_MG_1313

Ég hellti ólífunum í sigti (ef maður notar ekki heilar krukkur má bara veiða þær upp úr) og lét renna af þeim. Svo setti ég olíuna í pott og hitaði hana. Flysjaði ræmur af sítrónuberkinum, skar hvítlaukinn í þunnar sneiðar og kryddjurtastönglana í bita. Setti þetta allt út í olíuna ásamt piparkornum og lét krauma í nokkrar mínútur við meðalhita.

_MG_1317

Svo setti ég ólífurnar út í og lét krauma í 3-4 mínútur í viðbót.

_MG_1320

Svo hellti ég öllu saman í krukku (það má bæta við olíu ef þarf svo að fljóti yfir ólífurnar), lét kólna og geymdi svo í kæli.

_MG_1473

 

Svo setti ég ólífurnar á disk en skildi mestalla olíuna eftir í krukkunni – það má svo nota hana t.d. út á salöt.

 

Svo er það fetaosturinn. Reyndar er best að gera hann daginn áður en hann er ágætut líka þótt fyrirvarinn sé bara nokkrir klukkutímar.

_MG_1323

Ég tók 1 fetakubb, 200 ml af ólífuolíu, 2 rósmaríngreinar, nokkrar timjangreinar, 1/4 tsk af chiliflögum (má svosem sleppa), 1/2 tsk af piparkornum og 1/2 rautt chili.

_MG_1325

Ég byrjaði á að setja olíuna í pott. Skar kryddjurtastönglana í búta og setti út í ásamt chiliflögunum og piparkornunum. Hitaðuiað suðu.

_MG_1329

Ég reif svo gula börkinn af sítrónunni út í. Skar chilialdinið í þunnar sneiðar og setti út í.

_MG_1331

Tók af hitanum, setti í skál og lét kólna alveg.

_MG_1359

Þegar olían var orðin köld setti ég fetaostinn í lítið form (eða á disk) og helliu kryddolíunni yfir. Setti í kæli, lét standa og sneri fetakubbinum öðru hverju.

_MG_1505

Svo bar ég fetaostinn fram í olíunni, ásamt góðu brauði.

 

Að lokum er hér feta- og paprikuídýfa, htipiti.

_MG_1368

 

Ég notaði 250 g af fetaosti (kubb), 1 krukku af grillaðri papriku í olíu, ég notaði Sacla, 100 ml af olíunni af paprikunni (eða ólífuolíu), 1/2 rautt chilialdin, fræhreinsað, 1 1/2 msk af hvítvínsediki, nýmalaðan pipar (salt er óþarfi því osturinn er saltur) og lófafylli af basilíku, sem reyndar er ekki klassískt grískt og það má þess vegna sleppa henni en mér finnst gott að nota hana.

_MG_1369

Ég muldi fetaostinn ofan í skálina á matvinnsluvél (eða blandara) og bætti við papriku, ólífuolíu, söxuðu chilialdini og ediki. Maukaði þetta vel saman.

_MG_1372

Ég maukaði svo basilíku saman við og kryddaði með pipar.

_MG_1452

Borið fram með góðu brauði.

_MG_1488

Gersvovel, Eurovisionpartí með grísku þema.

 

Kryddlegnar ólífur

300-400 g ólífur, blandaðar

350 ml ólífuolía

1 sítróna (aðeins börkurinn notaður)

4 hvítlauksgeirar

2-3 rósmaríngreinar

nokkrar timjangreinar

¼ tsk piparkorn

 

Kryddjurta- og sítrónuleginn fetaostur

200 ml ólífuolía

1-2 rósmaríngreinar

nokkrar timjangreinar

¼ tsk chiliflögur (má sleppa)

½ tsk piparkorn

1 sítróna (aðeins börkurinn notaður)

½ rautt chilialdin

250 g fetaostur (kubbur)

 

 

Feta- og paprikuídýfa – Htipiti

250 g fetaostur (kubbur)

1 krukka grillaðar paprikur í olíu (ég notaði Sacla)

100 ml ólífuolía (fínt að nota olíuna af paprikunni)

½ rautt chilialdin, fræhreinsað

1½ msk hvítvínsedik

nýmalaður pipar

lófafylli af basilíku

 

 

One comment

  1. […] var áður búin að birta flestar hinar uppskriftirnar úr páskaveislunni, t.d. að kryddjurta- og sítrónulegnum fetaosti, kryddlegnum fetaosti, feta- og paprikuídýfu (htipiti), avgolemono með kjúklingi, spanakopitu, ofnsteiktum kartöflum með fenniku, rauðrófusalati […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s