Þessi átti nú ekkert að fara á bloggið og þess vegna tók ég engar myndir af undirbúningi eða deigi, mig vantaði bara mynd af skúffuköku. En svo fór ég með hana í vinnuna eftir að hafa myndað hana (og eftir að sonurinn var búinn að taka toll af henni) og einhver vildi uppskrift svo ég set hana bara hér.
Þetta er nú ekki alveg skúffukökuuppskriftin hennar mömmu og ég man ekki lengur hvar ég fékk þessa en ég er búin að nota hana nokkuð lengi, þótt ég breyti stundum til.
– Skúffukakan hennar ömmu var betri, sagði sonurinn, sem er mikill skúffukökusvelgur og einhvers staðar á ég mynd af honum í kringum tíu ára aldurinn þar sem hann hefur krækt í tvær vænar sneiðar af skúffukökunni hennar ömmu sinnar og er að reyna að troða þeim báðum upp í sig í einu. – Tuttugu prósent meiri ást en í þinni.
Og þetta segir hann við móður sína daginn eftir að hann gleymir mæðradeginum.
– Tuttugu prósent meiri sykur, tautaði ég.
Sem er líklega alveg rétt. Þessi er ekkert dísæt. Alveg mátuleg fyrir mig og svo er náttúrlega glassúr á henni.
Hún er líka þykkari en kakan hennar mömmu, enda bakaði ég hana í eldföstu móti en ekki ofnskúffu. Þynnri kaka þýðir hlutfallslega meiri glassúr á hverri sneið og þar með meiri sykur.
Mamma bakaði oft skúffuköku þegar ég var lítil og við héldum upp á hana. Einu sinni komu einhverjir góðborgarar af Króknum að heimsækja afa og það var náttúrlega tekinn tappi úr flösku, eða kannski var búið að taka hann úr löngu áður en komið var í Dal. Allavega var setið að sumbli í eldhúsinu. Mamma var nýbúin að baka skúffuköku og hún var á eldhúsbekknum og smjörpappírsörk ofan á henni. Eldhúsbekkurinn var frekar lágur og það vildi svo til að þegar einn gesturinn ákvað að tylla sér á hann hitti hann skúffukökuna fyrir og settist á hana svo hún fór í klessu. Skúffukökunni var nú örugglega ekki hent og smjörpappírinn hlífði buxum gestsins svo þetta var ekkert stórslys en okkur systkinunum þótti þetta mjög skondið og kenndum kökuna við þennan mæta mann þaðan í frá. Alveg þangað til við fluttum á Krókinn, þá harðbannaði mamma okkur að nota það nafn því aðrir gætu heyrt það. Og þá varð kakan aftur bara plein skúffukaka.
En hér er alltsvo uppskriftin.
Skúffukaka
125 g smjör, lint
75 g púðursykur
100 g sykur
2 egg
1 tsk vanilluessens
250 g hveiti
6 msk kakóduft
1 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
½ tsk salt
150 ml súrmjólk
100 ml sjóðheitt vatn
Ég hitaði ofninn í 175°C. Setti lint smjör, púðursykur og sykur í hrærivélarskálina og hrærði mjög vel saman. Hærði svo eggjunum saman við, einu í einu, og síðan vanillunni. Blandaði hveiti, kakói, lyftidufti, matarsóda og salti saman í skál og blandaði súrmjólk og sjóðandi vatni saman í könnu. Setti svona þriðjung af þurrefnunum og súrmjólkurblöndunni út í deigið og hrærði, svo annan þriðjung og svo þann þriðja. En um að gera að hræra eins lítið og mögulegt er, bara rétt til að blanda öllu saman svo hvergi sjáist í hvítt.
Svo tók ég eldfast mót (ég nenni ekki að leita að tommustokknum til að mæla það en það er mjög áþekkt fartölvuskjá að stærð), klæddi það innan með bökunarpappír og hellti deiginu í það. Ég hefði líka getað notað stærra form og þá hefði skúffukakan orðið þynnri en þetta er líklega full-lítið deig í heila ofnskúffu.
Ég setti formið svo á neðstu rim í ofninum og bakaði kökuna í um 30 mínútur, eða þar til hún var svampkennd og farin að losna frá börmunum. Þynnri kaka þarf styttri bökunartíma, jafnvel ekki nema 20 mínútur. Tók hana svo út, hvolfdi á grind og lét kólna alveg.
Þegar kakan var orðin köld hrærði ég 150 g af flórsykri með 2-3 msk af kakódufti og svolitlu sjóðandi vatni, nægilegu til að fá þykkfljótandi glassúr. Smurði honum á kökuna og af því að ákveðnir aðilar eru fjarska lítið hrifnir af kókosmjöli skar ég hana svo í tvennt og stráði kókosmjöli bara á annan hlutann. Ég vil hafa kókosmjöl en hvað gerir maður ekki fyrir syni sína, jafnvel þótt þeir gleymi mæðradeginum …
Svo skar ég hvorn helming um sig í ferkantaða bita og raðaði til skiptis á bakka svo allir voru ánægðir. Og með þessu er gott að hafa glas af kaldri mjólk. Nú, eða kaffi …
Og slatta af ást, þótt 20% kunni að vanta.