Ég var hér um daginn með uppskrift að dökku, bragðmiklu jógúrt-melassa-rúgmjölsbrauði. Held að ég hafi tekið fram að þegar ég bjó til uppskriftina hafi ég spilað út frá uppskrift sem ég var þá nýbúin að birta í MAN. Þetta geri ég oft þegar ég er að elda og baka, tek einhverja uppskrift, nota það sem ég á til eða langar að hafa og úr verður eitthvað allt annað en ég fór af stað með.
Eiginlega er þetta eitt af því sem mér finnst svo skemmtilegt við matargerð; að uppgötva (oft með happa- og glappa-aðferðinni og stundum með mistökum og klúðri) hvernig hægt er að breyta og hvernig maturinn eða bakkelsið breytist þegar maður skiptir út einu hráefni eða fleirum; eða jafnvel næstum öllum eins og ég gerði hér.
Ef þið hafið ekki tekið eftir því, þá var að koma út aftur bók sem ég skrifaði eiginlega um einmitt þetta; um hvernig hægt er að nýta það sem maður á (eða manni dettur í hug að nota). Og um hvernig maður notar afganga og eitt og annað sem maður situr uppi með. Og fleira í þeim dúr. Semsagt um nýtni og hugmyndaflug í eldhúsinu.
Þessi hér semsagt. Fínasta bók þótt ég segi sjálf frá.
Þetta var plöggið, nú er að snúa sér að uppskriftinni að jógúrtbrauðinu. Það er alls ekkert líkt jógúrt-melassabrauðinu sem ég var með uppskrift að hér um daginn. Í því var venjuleg jógúrt, hér er grísk jógúrt og mjólk. Í hinu var dökkur melassi, hér er ljóst síróp. Reyndar er heilhveiti í báðum en í öðru er polenta, í hinu rúgmjöl. Og svo var fimm korna blanda í þessu þarna um daginn en hér eru valhnetur. (Að öðru leyti eru þau sko alveg eins …)
Þetta er annars bragðgott og fljótlagað brauð með sérlega góðri skorpu. Þetta er ekki gerbrauð og þarf því hvorki hnoðun né lyftingu, reyndar er best að hræra það sem allra minnst og setja það strax í formið og baka.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 165°C. Blandaði síðan saman 350 g af heilhveiti, 100 g af polentu (grófu maísmjöli), 1 tsk af lyftidufti, 1 tsk af matarsóda og 1/2 tsk af salti í hrærivélarskál.
Svo mældi ég 300 ml af grískri jógúrt, 100 ml af mjólk og 100 ml af ljósu sírópi og setti út í. Hrærði þessu saman við en best er þó að hræra sem allra minnst.
Að lokum gófsaxaði ég 60 g af valhnetum og blandaði þeim saman við. Deigið ætti að vera hæfilega þykkt til að mögulegt sé að hnoða það en þó svo blautt að það klessist aðeins við hendurnar.
Ég setti svo ræmu af bökunarpappír á botninn á meðalstóru jólakökuformi og smurði hliðarnar. Setti deigið í formið og jafnaði yfirborðið.
Ég setti svo brauðið í ofninn og bakaði það á neðstu rim í 50-60 mínútur, eða þar til prjónn sem stungið var í það kom hreinn út.
Ég lét brauðið hálfkólna í forminu en losaði það svo úr, setti á grind og lét kólna alveg.
Eða næstum alveg, það er nefnilega býsna gott þegar það er enn pínu volgt.
Jógúrtbrauð með hnetum
300 g grísk jógúrt
100 ml mjólk
100 ml ljóst síróp
350 g heilhveiti
100 g polenta (gróft maísmjöl)
1 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
½ tsk salt
60 g valhnetur