Ég er búin að vera frekar upptekin að undanförnu – er að vinna í nokkrum bókum sem ýmist koma út á þessu ári eða seinna eða kannski alls ekki, það kemur allt í ljós – og svo var ég að elda fyrir júníblað MAN og ýmislegt fleira. Skriftir og tilraunir og myndatökur og svoleiðis. Og sosum ekkert sérlega rólegt í vinnunni heldur.
Nýtni er mér frekar ofarlega í huga þessa dagana (þið munið eftir bókinni minni sem var verið að endurprenta …) og þar sem ég var að elda ýmsa ólíka rétti um síðustu helgi fyrir myndatökur voru ýmsir afgangar, bæði af tilbúnum réttum og umframhráefni sem ég þurfti að nýta. Svo ég er búin að vera að setja saman ýmislegt undarlegt síðustu dagana, kannski kemur eitthvað af því seinna.
En fyrr í vikunni hirti ég nokkra banana í vinnunni sem átti að fara að henda. Við fáum ávaxtasendingu vikulega, sem er frábært, en það er misjafnt hvort allt klárast, stundum er eitthvað farið að láta verulega á sjá áður en fólk nær að borða það. Og þá hirði ég það stundum og geri eitthvað úr því. Reyndar oft eitthvað sem er ekki alveg eins hollt og ávextirnir sjálfir, en jæja …
Ég hef svosem alveg séð svartari banana en þessa en þeir voru samt farnir að ilma vel og einn var næstum fljótandi. Ég ákvað að gera kryddað bananabrauð, dálítið stórt því bananarnir voru fimm. Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stillti hann á 165°C.
Ég flysjaði bananana, braut þá í bita og setti í matvinnsluvélina ásamt 125 ml af hlynsírópi (eða hunangi) …
… 100 g af linu smjöri, 2 eggjum og 100 g af púðursykri. Ég maukaði þetta svo allt vel saman.
Svo setti ég í skálina 400 g af heilhveiti, 3 teskeiðar af lyftidufti, 1/2 teskeið af matarsóda, 2 teskeiðar af kanel, 1 teskeið af engiferdufti, 1/2 teskeið af negul og 1/2 teskeið af salti. Hrærði þetta saman við en notaði púlshnappinn á vélinni því það er best að hræra deigið sem minnst.
Svo vigtaði ég 100 g af hafragrjónum og setti út í, ásamt u.þ.b. 80 g af grófmuldum valhnetum (ég vigtaði 100 g en tók nokkrar frá og geymdi, meira um það rétt bráðum). Ég ætlaði aldrei að hræra þetta saman við í matvinnsluvélinni því ég vildi hafa þetta gróft, ætlaði bara að nota sleikju, en svo rann upp fyrir mér að þetta var nú heldur mikið magn til þess …
… svo að ég mokaði öllu saman yfir í skál og blandaði hafragrjónunum og hnetunum saman við með sleikju.
Deigið var heldur mikið fyrir stærsta jólakökuformið mitt en of lítið fyrir ofnskúffu. Ég tók eldfast mót, 25×25 cm, setti eldhúspappírsferning á botninn og smurði hliðarnar, og jafnaði svo deiginu í það. (Auðvitað má nota hvaða stærð af formi sem er en stærðin hefur áhrif á bökunartímann, það þarf bara að taka tillit til þess.) Svo saxaði ég valhneturnar sem eftir voru og stráði þeim yfir.
Svo setti ég kökuna í ofninn á næstneðstu rim og bakaði hana í um 50 mínútur, eða þar til prjónn sem ég stakk í hana kom hreinn út og hún var farin að losna frá börmunum. (Eða í alvöru reyndar þar til mér fannst hún vera bökuð – maður fær tilfinningu fyrir því með reynslunni.) Lét hana kólna smástund í forminu og tók hana svo úr því, setti á grind og lét kóla alveg.
Ja, eða næstum alveg því mig langaði að smakka.
Jú, hún var ansi góð. Gott sambland af banana- og kryddbragði og heilhveitið gerði hana líklega enn betri. Og hún gerði töluverða lukku í vinnunni í morgun.
Kryddað heilhveiti-bananabrauð
4-5 bananar, mjög vel þroskaðir
100 g lint smjör
125 ml hlynsíróp
2 egg
400 g heilhveiti
3 tsk lyftiduft
½ tsk matarsódi
2 tsk kanell
1 tsk engiferduft
½ tsk negull
½ tsk salt
100 g hafragrjón
100 g valhnetur
Um 50 mínútur við 165°C.