Jarðarber, epli og kanell

Er ekki alveg kominn tími á eitthvert bakkelsi? Mér sýnist að tíu síðustu færslur hjá mér að minnsta kosti séu bakkelsislausar (brauð telst ekki með). Enda hef ég reyndar ekki verið að baka mjög mikið núna í apríl. Þó hefur það komið fyrir.

Ég þurfti að nota dálítið af jarðarberjum um daginn og keypti stóran bakka, um 500 grömm. Þau voru ansi misstór og það vildi svo til að það hentaði best að nota minni berin í það sem ég var að gera, svo að þegar það var búið átti ég eftir fimm hlussustór ber, áreiðanlega nokkuð yfir 100 grömm samtals.

_MG_0254

Ég hefði náttúrlega bara getað borðað þau eintóm, mér þykja jarðarber frekar góð (en þó misjöfn), en ég ákvað samt að nota þau frekar í eitthvert bakkelsi. Svo að ég ákvað að baka jarðarberja- og eplamúffur. Datt líka í hug að krydda þær með kanel.

_MG_0241

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 190°C. Svo setti ég 125 g af smjöri í pott ásamt 150 ml af vatni, hitaði þar til smjörið var bráðið og lét kólna ögn. Svo vippaði ég fram hrærivélinni minni – einn af stóru kostunum við Bosch-hrærivélina mína er hvað hún er létt og auðvelt að vippa henni hist og her og þarf ekki nema aðra höndina til, ég þurfti sko báðar við gömlu vélina og maður vippaði henni ekki neitt – en allavega, ég hellti smjörblöndunni í skálina, setti 100 ml af þunnu hunangi og 2 egg út í og hrærði þetta saman.

_MG_0238

Svo mældi ég 125 g af heilhveiti, 175 g af hveiti, 2 1/2 tsk af lyftidufti, 1 1/2 tsk af kanel og 1/4 tsk af salti og blandaði lauslega saman.

_MG_0252

 

Ég setti þurrefnin í hrærivélarskálina og blandaði þeim saman við á litlum hraða og lét vélina ekki ganga lengur en þurfti til að rétt blanda þessu saman – múffurnar verða seigar ef hrært er of mikið.

_MG_0259

 

Svo hreinsaði ég jarðarberin og skar þau í litla bita og tók svo eitt meðalstórt epli, flysjaði það og kjarnhreinsaði og skar í litla bita. Blandaði þessu saman við deigið með sleikju.

_MG_0272

Ég klippti svo tólf ferninga úr bökunarpappír, setti þá ofan í múffuform og fyllti af deigi. Auðvitað má líka nota pappírsform eða sílikonform.

_MG_0286

Setti svo múffurnar í ofninn og bakaði þær á næstneðstu rim í 20-22 mínútur. Tók þær svo út og setti á grind.

_MG_0330

 

Jújú, þetta voru alveg ágætis múffur.

_MG_0358

 

Jarðarberja- og eplamúffur með kanel

125 g smjör

150 ml vatn

100 ml þunnt hunang

2 egg

125 g heilhveiti

175 g hveiti

2 ½ tsk lyftiduft

1 ½ tsk kanell

¼ tsk salt

1 epli

5-6 stór jarðarber

 

20-22 mínútur við 190°C.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s