Hann-Sam og Hún-Sam

Mér finnst alltaf svolítið skondið þegar hjón heita nákvæmlega sama nafni – en líklega veldur það ansi oft ruglingi. Frægasta dæmið um þetta eru hjónin Evelyn og Evelyn Waugh, sem kölluð voru af vinum sínum He-Evelyn og She-Evelyn; ekki veit ég hvort það átti einhvern þátt í því að hjónabandið entist ekki nema í rúmt ár. Hérlendis þekki ég ekki dæmi um þetta, enda afar fá nöfn sem notuð hafa verið á bæði kynin, en þó geta nöfn (og þó enn frekar gælunöfn) verið næstum eins. Ég hef heyrt af Lillu og Lilla og Diddu og Didda og hér fyrir eina tíð þekkti ég Lúllu og Lúlla. Oft voru þó nöfnin á bak við gælunöfnin mjög ólík.

Víða erlendis er fjöldi nafna sem notaður er á bæði kynin og þar eru ýmis dæmi um að hjón hafi sama nafn. Eða séu að minnsta kosti kölluð sama nafni. Af þekktum samnefndum pörum (en að vísu ekki hjónum) frá seinni árum má nefna Paris Hilton og Paris þarna hvaðhannnúhét … Og í heimi matreiðslubókahöfunda ber þar mest á hjónunum Sam og Sam Clark – þau heita að vísu Samuel og Samantha en eru ævinlega kölluð Sam, bæði tvö. Ég veit reyndar ekki hvernig þau eru greind í sundur þegar á þarf að halda, kannski eru þau kölluð He-Sam og She-Sam.

En þar með er ég nú komin að efninu því þau hafa gefið út nokkrar matreiðslubækur í tengslum við spænsk-norðurafríska veitingastaðinn sinn, Moro, og í bókinni Casa Moro var meðal annars uppskrift að matarmiklu, volgu salati úr butternut-kúrbít og kjúklingabaunum og með tahini-dressingu. Þetta er alveg einstaklega gott salat og mjög margir matarbloggarar og aðrir hafa tekið það upp og gert sínar eigin útgáfur af því, breytt ýmsu, tekið eitthvað burt, sett annað inn, breytt um grænmeti, krydd o.s.frv.. Ég las fjöldamargar slíkar uppskriftir og gerði svo mína eigin sem ég er nokkuð ánægð með – en eiginlega er fátt eftir úr þeirri upprunalegu nema butternut-inn, kjúklingabaunir og tahini – og aðferðin, svona að mestu leyti.

Salatið er hreinn grænmetisréttur (vegan) en það mætti alveg bera það fram með t.d. kjúklingi, eða jafnvel blanda bitum af steiktri kjúklingabringu saman við. Það er samt óþarfi, það er alveg nógu bragðgott og matarmikið eins og það er. Uppskriftin birtist fyrst í marsblaði MAN.

_MG_0901

Ég byrjaði á að hita ofninn í 220°C. Svo tók ég butternutkúrbít, um 750 g, flysjaði hann, fræhreinsaði og skar í bita, 2-3 cm á kant. Ég tók líka eitt rautt chilialdin, fræhreinsaði það og saxaði smátt.

_MG_0904

Svo blandaði ég 3 msk af olífuolíu, ½ tsk af kummini, ¼ tsk af kanel og dálitlum pipar og salti saman í skál, setti butternutteningana og chiliið út í og blandaði vel. Hellti öllu á pappírsklædda bökunarplötu (eða í eldfast mót), dreifði úr því og setti í ofninn í 20−25 mínútur, eða þar til butternutkúrbíturinn var nærri meyr og farinn að taka lit.

_MG_0909

Á meðan gerði ég tahinisósuna: Ég opnaði kjúklingabaunadós og setti svona 100 ml (1 dl) af baununum í matvinnsluvél ásamt 2 söxuðum hvítlauksgeirum og safa úr hálfri sítrónu. Maukaði þetta vel saman.

_MG_0910

Bætti svo við kúfaðri matskeið af tahini, 2 msk af ólífuolíu, pipar og salti og maukaði vel. Bætti svo smátt og smátt við köldu vatni þar til sósan var þykkfljótandi. Smakkaði og bragðbætti með sítrónusafa, pipar og salti eftir þörfum.

_MG_0912

 

Nú var kúrbíturinn nærri meyr og ég skar svona 150 g af spergilkáli í fremur litla kvisti, dreifði þeim innan um kúrbítsbitana og bakaði svo áfram í 8-10 mínútur.

_MG_0913

 

Svo tók ég afganginn af kjúklingabaununum (sjá sósuuppskriftina), hellti leginum af þeim og setti í skál. Blandaði butternutkúrbítnum og spergilkálinu gætilega saman við, ásamt helmingnum af hummussósunni.

_MG_0920

Ég hellti svo öllu saman á fat (eða i skál), stráði nokkrum basilíkublöðum yfir …

_MG_0937

… og bar afganginn af sósunni fram með.

_MG_0953

 

Það var nú ekki mikið að þessu, sko.

 

Butternut- og kjúklingabaunasalat með hummussósu

750 g butternut-kúrbítur

1 rautt chilialdin

3 msk ólífuolía

½ tsk kummin

¼ tsk kanell

pipar

salt

150 g spergilkál

1 dós kjúklingabaunir (-100 ml)

basilíka

 

Hummusdressing

100 ml kjúklingabaunir

2 hvítlauksgeirar, saxaðir

1 sítróna

1 kúfuð msk tahini

2 msk ólífuolía

pipar

salt

vatn eftir þörfum

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s