Sumarkveðja og minningar

Góðan daginn og gleðilegt sumar.

Þessa morgunkveðju fékk ég alltaf á sumardaginn fyrsta hér áður fyrr frá foreldrum mínum – eða líklega bara frá mömmu fyrstu árin, pabbi var sjaldan heima á sumardaginn fyrsta þegar ég var lítil – og hef meiri mætur á henni en flestum öðrum kveðjum. Alveg sama hvernig veðrið er … Ég áttaði mig líka seinna á því að þetta var dagurinn þeirra. Þau settu upp hringana á sumardaginn fyrsta fyrir 61 ári. Þú hefur valið daginn vel, sagði pabbi löngu seinna þegar ég sagði honum að ég ætlaði að flytja í íbúðina sem ég hafði keypt mér á fyrsta sumardag. Það er gæfudagur.

Samt var nú líf þeirra ekkert sérlega gæfusamt framan af og kannski var trúlofunardagurinn viss fyrirboði; allt fór meira og minna í handaskolum, Héraðsvötnin voru ófær og pabbi komst ekki í Djúpadal fyrr en seint um kvöldið svo þau gátu ekki gert þetta eins og þau höfðu ætlað sér og um nóttina kom afi fullur heim af balli og mamma var dregin á fætur að hita kaffi og svo ákvað sá gamli að fara og gefa fénu og þegar mömmu fór að lengja eftir honum fór hún út í fjárhús og fann hann sofandi í garðanum og þurfti sjálf að ljúka við gegningarnar og drösla afa svo heim.

Og þannig var nú trúlofunarnóttin okkar, sagði pabbi.

Svo tók við búskapur og basl. Og svo fékk pabbi lömunarveiki, var líklega einn af þeim síðustu sem veiktist af henni hérlendis, sama árið og byrjað var að bólusetja. Þess vegna er mér fátt verr við en áróður gegn bólusetningum. Hann lamaðist ekki varanlega en var lengi óvinnufær og gat ekki unnið erfiðisvinnu eftir það. Gat ekki haldið áfram á þeirri braut sem hann vildi vera á, starfað á þeim vettvangi sem honum leið best á. Hann var sveitamaður og hefði aldrei átt að vera annað en bóndi.

Þess í stað varð hann skrifstofumaður á Króknum, kom oftast heim seinnipartinn á laugardögum og fór aftur á sunnudögum. Þess vegna fengum við oftast sumarkveðjuna frá honum tveimur dögum of seint. Fjárhagurinn var auðvitað í rúst eftir veikindi og fleira, mamma var ólaunuð ráðskona hjá afa með þrjú lítil börn – svo bættist það fjórða við – og svo voru afabræður mínir þarna líka og yfirleitt fleiri og þetta var stórt og erfitt heimili og með árunum skilst mér sífellt betur og betur hvað foreldrar mínir áttu erfitt líf. Við systkinin urðum ekki mikið vör við það á þessum árum. Svo lagaðist þetta nú töluvert þegar öll fjölskyldan flutti á Krókinn 1967. Og þá fór ég að fá sumarkveðjuna frá pabba á réttum degi.

En ég fæ enga sumarkveðju í dag. Þetta er fyrsti sumardagurinn sem ég á enga foreldra. Mamma dó fyrir hálfu öðru ári, pabbi verður jarðaður við hlið hennar á morgun. Ég syrgi þau ekki en sakna þeirra óendanlega. Og um leið er ég glöð yfir því að þau áttu sextíu ár saman og þrátt fyrir erfiða byrjun fengu þau líka mörg góð ár þar sem þau gátu verið saman, ferðast og bara notið þess að vera þau tvö.

Það er svo gott að þegja með henni mömmu þinni, sagði pabbi.

Ég verð bara að þegja með sjálfri mér og óska internetinu gleðilegs sumars. Sem er allt í lagi, ég var einmitt að lesa einhvers staðar í gær að aldrað fólk sem væri mikið á netinu væri hamingjusamara og síður líklegt til að þjást af þunglyndi en þeir sem létu það eiga sig. Svo ég er í góðum málum.

Er asnalegt og hallærislegt að skrifa svona inngang og setja svo mataruppskrift á eftir? Líklega. En vitiði, mér er nú sama, ég er svo vön að gera asnalega og hallærislega hluti. Partur af Aspergernum, held ég. Og þegar ég byrjaði á pistlinum átti hann að stefna í allt aðra átt …

Þótt skömm sé frá að segja man ég ekki hvort mamma var vön að gæða okkur á einhverju sérstöku á sumardaginn fyrsta en það var líklega eitthvað gott með kaffinu. Það var alltaf eitthvað með kaffinu, á hverjum einasta degi og oft á dag, en líklega var eitthvað aðeins haft við þennan dag. Sjálf er ég vön að bera fram pönnukökur með rjóma og þær eru alltaf á blárósóttum diski. Það geri ég örugglega seinna í dag en uppskriftin er nú ekki að pönnukökum í þetta skipti. Sætmeti þó því hér er súkkulaðibúðingur. Mamma notaði nú bara Royal og ekki ætla ég að lasta það, Royal er afbragð. En ég gerði það ekki.

_MG_0528

 

Ég byrjaði á að brjóta 200 g af súkkulaði með appelsínubragði (ég notaði Síríus) í bita og setja í pott með 150 ml af rjóma. Hitaði rólega þar til súkkulaðið var næstum bráðið og tók það svo af hitanum og hrærði þar til það var alveg bráðið. (Eða það var það sem ég ætlaði að gera. Í alvörunni gleymdi ég mér og súkkulaðirjóminn var farinn að sjóða þegar ég áttaði mig. En ég kippti pottinum bara af hitanum og hrærði rösklega í og þetta kom ekki að sök. Ég mæli samt ekki með því.)

Ég setti 2 matarlímsblöð í bleyti í kalt vatn í nokkrar mínútur og svo kreisti ég vatnið úr þeim og hrærði þeim saman við súkkulaðiblönduna. Lét hana hálfkólna.

_MG_0529

Svo stífþeytti ég 350 ml af rjóma í viðbót. Tók tæplega þriðjunginn frá og geymdi en setti hitt í aðra skál.

_MG_0532

 

Svo setti ég 1 heilt egg og 2 rauður í hrærivélarskálina, ásamt 3 msk af sykri (eða eftir smekk) og 1/2 tsk af vanilluessens. Þeytti þetta mjög vel saman.

_MG_0539

 

Svo hrærði ég súkkulaðiblöndunni saman við eggin og blandaði síðan rjómanum (þ.e. stærri skammtinum) gætilega saman við með sleikju. Hellti svo búðingnum í skál og setti í kæli í svona 2 klst., eða þar til hann hafði stífnað.

_MG_0548

 

Svo skreytti ég búðinginn með afganginum af rjómanum og mandarínusneiðum og -bátum (skar börkinn af í stað þess að afhýða þær til að losna við himnur). Það má nota appelsínubita í staðinn fyrir mandarínur.

_MG_0559

 

Sko, þetta er nú bærilega sumarlegt, er það ekki? Sumarkveðja til ykkar.

Enn og aftur: Góðan dag og gleðilegt sumar. Í minningu fólks sem fylgdist að í gegnum súrt og sætt í sextíu ár.

 

Appelsínu-súkkulaðibúðingur 

(eða mandarínu kannski?)

200 g appelsínusúkkulaði, ég notaði Síríus

500 ml rjómi (150 + 300)

2 matarlímsblöð

1 heilt egg

2 eggjarauður

3 msk sykur

1/2 tsk vanilluessens

1-2 mandarínur (eða 1 góð appelsína)

 

5 comments

  1. Já gleðilegt sumar og kærar þakkir fyrir bloggið þitt í vetur.

  2. Takk fyrir þessi fallegu skrif um foreldra þína Nanna og fyrir öll önnur skrif þín. Uppskriftna að súkkulaðibúðingi ætla ég að próa þótt Royal sé í minningunni ansi góður. Mig grunar að það tengist ljúfu stundunum þegar hann var borinn fram.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s