Brakandi gott

Svo ég haldi nú áfram að segja frá tiltektinni í frystiskápnum – sem varð að páskamatnum – þá er röðin komin að páskadagsmáltíðinni, sem var ákveðin þegar ég komst að því að ég átti sex andalæri en ekki fjögur, eins og ég hélt. Þetta voru hin vænstu læri svo ég sá að þetta yrði örugglega nóg handa okkur þótt við séum flest mestu átvögl – en að vísu var mesta átvaglið, hann Úlfur, ekki á staðnum. Hann réði sig í vinnumennsku hjá afa sínum á Njálsstöðum um páskana og er þar enn, stundar skítmokstur og skepnuhirðingu af kappi og er alsæll. Og sjálfsagt kominn langleiðina með að éta afa sinn út á gaddinn.

En semsagt, sex læri dugðu okkur og hefðu jafnveld dugað þótt Úlfur hefði verið með. Og andaskúffan í frystiskápnum var hálftóm á eftir, sem gengur náttúrlega ekki svo ég fór í Nóatún og keypti heila önd til að setja í hana og geyma til betri tíma. En það er önnur saga.

Andabringur eru afbragðsmatur (sem einbúar geta vel látið eftir sér að elda ofan í sig af og til, ein andabringa er til dæmis ódýrari en pítsa) og heilar endur líka en með árunum kann ég sífellt betur að meta lærin, verst að það er misauðvelt að fá þau. En einhverntíma í fyrra var nóg af þeim og þá keypti ég þessi (og fleiri) og stakk í frysti. Lærin eru tiltölulega ódýr og afskaplega auðelduð – það er eiginlega varla hægt að klúðra þeim, þau steikja sig sjálf, liggur við. Og svo eru þau bragðmikil og góð.

Ég tók lærin úr frysti daginn áður en ég eldaði þau og lét þau þiðna í ísskápnum, tók þau svo út svona tveimur tímum áður en þau fóru í ofninn til að þau þiðnuðu alveg og væru ekki ísköld.

_MG_0752

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo kryddaði ég lærin vel með pipar og salti. Setti 2 tsk af olíu eða svo í botninn á frekar stóru eldföstu móti, skar niður einn lauk og nokkrar rósmaríngreinar og dreifði í mótið.

_MG_0755

Ég raðaði svo lærunum í formið, dreifði smávegis rósmaríni yfir og saltaði aðeins betur með flögusalti (það er til að fá haminn stökkari). Setti formið í ofninn og steikti lærin í svona 1 klst. og 20 mínútur (ath. að þetta voru vel stór læri og ég vildi hafa þau alveg moðsteikt; styttri tími dugir alveg en það ætti ekki að vera hætta á að lærin ofþorni vegna fitunnar í hamnum).

_MG_0762

Ég jós feiti úr forminu svona tvisvar sinnum yfir þau á þeim tíma. Ég sauð á meðan um 1 kg af kartöflum – eða ég hafði raunar soðið þær fyrr um daginn og þær voru kaldar.

_MG_0767

Ég skar svo kartöflurnar í báta, dreifði þeim í formið á milli læranna og jós feiti úr forminu yfir, setti aftur í ofninn og bakaði í svona hálftíma. – Það er líka hægt að setja kartöflurnar hráar í formið en þá hefði ég sett þær svona 20 mínútum fyrr (þ.e. þegar lærin voru búin að vera í klukkutíma) og e.t.v. hækkað hitann ögn.

_MG_0784

Þá voru kartöflurnar orðnar fallega gullinbrúnar og svolítið stökkar og andalærin meyr og mjúk og hamurinn brakandi stökkur.

_MG_0786

Á meðan kartöflurnar voru í ofninum hafði ég gert sósuna: Ég hitaði 1 msk af olíu í potti, saxaði 1 lauk og lét hann krauma í nokkrar mínútur í potti ásamt svolitlu timjani og pipar. Svo bætti ég 3 msk af púrtvíni út í og lét sjóða töluvert niður. Bætti svo 400 ml af vatni og 1 msk af andakrafti út í og lét malla nokkra stund. Þegar andalærin voru tilbúin hellti ég soðinu úr fatinu í skál, fleytti mestalla fituna ofan af og hrærði hinu saman við sósuna. Síaði hana og setti aftur í pottinn, ásamt svoan 100 ml af rjóma, hitaði að suðu og lét malla smástund. Þykkti ögn með sósujafnarar og bætti við nokkrum dropum af sósulit. Og pipar og salti ef þarf (en bæði andakrafturinn og soðið eru salt svo þess ætti varla að þurfa). Og svo er ekkert verra að setja aðeins meira púrtvín …

_MG_0791

Ég bar þetta bara fram með sósunni og kartöflunum og svo eplasalati (ekki alveg Waldorf en svolítið í þá áttina).

Þetta var alveg ljómandi páskamatur.

_MG_0791 - Version 2

Og hamurinn á öndinn var alveg einstaklega góður. Ég veit ekki með ykkur en það er fátt sem örvar munnvatnskirtlana mína meira en þessi sjón …

 

Steikt andalæri með kartöflubátum

6 stór andalæri

1-2 tsk olía

1 laukur

nokkrar rósmaríngreinar

nýmalaður pipar

salt

1 kg kartöflur, soðnar

 

Sósa:

1 msk olía

1 laukur

svolítið timjan (greinar eða þurrkað)

nýmalaður pipar

3 msk púrtvín, eða eftir smekk

400 ml vatn

1 msk andakraftur

100 ml rjómi

svolítill sósujafnari

nokkrir dropar af sósulit

 

7 comments

  1. fyndið, ég var líka með andalæri en raðaði þeim þétt þannig að þau enduðu á að nánast djúpsteikjast í fitunni – kartöflurnar voru með allan tímann, um tvo tíma. Hef aldrei fengið svona góðar kartöflur á ævinni!

    • Já, ég hefði kannski gert það líka en lærin voru svo stór og mörg að kartöflurnar hefðu hulið þær að miklu leyti og ég hélt að hamurinn yrði kannski ekki eins stökkur og góður svo ég ákvað að forsjóða kartöflurnar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s