Bragðmikið brauð

Ég þurfti ekkert að kaupa í páskamatinn semsagt, tók bara til í frystiskápnum og fann villisvín, kindalundir, andalæri, gæsabringur, humar og eitthvað fleira. Þannig að þetta var töluverð kjöthátíð (humarinn er náttúrlega ekki kjöt en sama er) og þótt það verði nú kannski einhverjir afgangar í kvöldmatinn, þá langaði mig í eitthvað allt annað þegar ég skreiddist á fætur í morgun. Nýbakað brauð með extra sterkum cheddarosti, til dæmis.

Ég átti ekkert gerdeig í krukku í ísskápnum núna svo ég ákvað að baka lyftiduftsbrauð, það væri fljótlegra. Hefði auðvitað getað bakað einhvers konar flatbrauð en ég var nú ekki það svöng að ég gæti ekki vel beðið í rúman klukkutíma. Svo ég bakaði formbrauð.

Fyrr í vetur (sumardagurinn fyrsti er ekki kominn svo það er enn vetur) bakaði ég alveg ágætis brauð sem ég setti svo uppskriftina að í MAN. Það var úr grískri jógúrt, ljósu sírópi, heilhveiti, pólentu og valhnetum. Mig langaði núna í dekkra og bragðmeira brauð svo ég ákvað að spila út frá hinni uppskriftinni en nota venjulega jógúrt, dökkt melassasíróp og rúgmjöl. Sleppa hnetunum en nota fimm korna blöndu í staðinni.

Það má alveg nota síróp í staðinn fyrir melassa ef hann er ekki til eða ef maður vill ekki hafa brauðið alveg svona dökkt og bragðmikið. Melassi (cane molasses), sem er seigfljótandi, dökkt og bragðmikið síróp sem verður til þegar safi úr sykurreyr er soðinn – það er að segja, melassinn er afurðinn sem verður til við aðra suðu á reyrmassanum, þegar er búið að sjóða töluvert af súkrósanum úr honum og er því alls ekki eins sætur og reyrsíróp úr fyrstu suðu, heldur oft pínulítið beiskur, en inniheldur dálítið af steinefnum. (Úr þriðju suðu kemur svo ,,blackstrap molasses“ sem inniheldur lítið af súkrósa en hlutfallslega mikið af steinefnum og er meðal annars notað í heilsubótarskyni en þó aðallega í dýrafóður og iðnaðarframleiðslu.)

Ég byrjaði á á kveikja á ofninum og stilla hann á 165°C.

_MG_0796

 

Svo setti ég 300 ml af hreinni jógúrt í hrærivélarskálina og bætti við sirka 100 ml af melassa. Þegar þarf að mæla melassa er langbest að setja hann út í annan vökva svo hann loði síður við mælikönnuna og ég hafði ætlað að byrja á að mæla jógúrtina og setja svo melassa út í þar til 400 ml strikinu á mælikönnunni væri náð – en gleymdi mér og var búin að setja jógúrtína í skálina áður en ég gáði að mér. Svo ég nennti ekki að mæla melassann neitt nákvæmlega, mokaði bara því magni sem ég giskaði á að væri nærri 100 ml út í … Það er ekki svo nauið. Og brauðið verður alls ekki eins sætt og það yrði af svipuðu magni af sírópi eða sykri.

_MG_0797

 

Svo hrærði ég þetta saman. Melassinn er það þykkur og seigur að það getur tekið 2-3 mínútur að fá blönduna alveg jafna og einlita. Reyndar hefði það líklega tekið styttri tíma ef ég hefði notað hrærarann (eða hvað á að kalla það) en ekki deigkrókinn á hrærivélinni en þar sem ég þurfti hvort eð er að nota krókinn við afganginn var ég ekkert að óhreinka hvorttveggja.

_MG_0800

 

Svona semsagt. Svo þarf bara að skafa niður skálina með sleikju til að það sem þar hefur sest blandist líka saman við.

_MG_0806

 

Svo mældi ég 150 g af rúgmjöli, 250 g af heilhveiti, 2 tsk af lyftidufti, 1 tsk af matarsóda og 1 tsk af salti, blandaði saman og hellti út í.

_MG_0815

 

Ég hrærði þetta saman og endaði svo á að blanda 75 g af fimm korna blöndu saman við. Eða það mætti líka nota einhverja blöndu af fræjum og korni eftir eigin smekk. Eða jafnvel bara eina tegund af fræjum.

_MG_0818

 

Svo tók ég fremur stórt jólakökuform, setti pappír á botninn þótt það sé húðað , það er alltaf betra að losa brauð og kökur úr þannig, og raunar hefði jafnvel verið betra í þessu tilviki að setja pappír upp með hliðunum líka því brauðið festist aðeins við og ég þurfti að renna hnífsblaði meðfram til að ná því úr forminu þegar það var bakað. – En allavega, ég sléttaði yfirborðið (gerði það einfaldlega með blautum höndum, hefði líka getað bleytt sleikjuna og notað hana.

_MG_0821

 

Svo setti ég formið á neðstu rim í ofninum og bakaði það í svona 55 mínútur. Tók það svo út, lét það kólna aðeins og losaði það svo úr forminu (með erfiðismunum, sem sagt, en þó án þess að nokkuð brotnaði af því).

_MG_0865

 

Gerbrauð er alltaf best að láta bíða góða stund áður en skorið er af þeim (þótt það geti verið erfitt að standast freistinguna) en svona brauð er alveg óhætt að skera á meðan þau eru vel volg. Skorpan á þessu er dálítið hörð og stökk og það er best að nota sagtenntan hníf.

_MG_0856

 

Þetta var ansi gott volgt með smjöri. Og ekki versnaði það þegar ég bætti við þykkum flísum af extra sterkum cheddarosti.

 

Jógúrt-melassa-rúgmjölsbrauð

300 ml jógúrt

100 ml melassi (eða síróp)

150 g rúgmjöl

250 g heilhveiti

2 tsk lyftiduft

1 tsk matarsódi

1 tsk salt

75 g fimm korna blanda

 

165°C, 55-60 mínútur.

 

 

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s