Forláksmessan, mitt árlega jólasamkvæmi, var í gær og hingað komu líklega 80-90 manns. Mér finnst óskaplega gaman að halda veislur af þessu tagi, satt að segja, og er búin að halda svona boð í yfir tuttugu ár – lengst af á Þorláksmessu. Sumt af því sem ég geri er eins frá ári til árs, annað tekur breytingum, svo koma inn nýir réttir og aðrir detta út. Fólk heldur gjarna að þetta sé rosaleg vinna og ég geri ekkert annað í marga daga en að útbúa veitingar. Svo er nú ekki; sumt er gert með fyrirvara, en ég hef líka lært það að gera ekkert sem er fyrirhafnarsamt eða tímafrekt. Og að skipuleggja mig (það er mér ekki eðlislægt); skrifa niður hvað ég þarf að gera og hvenær. Og reyna að eiga sem minnst eftir á veisludaginn sjálfan því það tekur nefnilega mun lengri tíma að setja allt á diska og föt, skreyta og koma fyrir á borðinu en maður reiknar með.
En þetta hafðist nú allt saman og var fjarska vel heppnað þótt ég segi sjálf frá. Og hér kemur uppskrift að einum réttinum.
Ég hef í mörg ár verið með hægbakaðan lax sem ég geri í ýmsum útgáfum – ein þeirra er hér, ég hélt reyndar að ég hefði birt fleiri útgáfur hér en það er líklega misminni. Þetta er ævinlega einn vinsælasti rétturinn á hlaðborðinu og gjarna fyrstur til að klárast. Svo að ég hef verið að bæta við einhverjum fleiri fiskréttum og prófa mig áfram með hvað fólki líkar. Hef til dæmis verið með ýmsar útfærslur af saltfiski.
Svo var ég í fiskbúð á þriðjudaginn og þá sá ég þessi stóru og þykku og fallegu bleikjuflök sem mig langaði að gera eitthvað úr. Svo að mér datt í hug að heitreykja þau. Sem er einfalt að gera ef maður á wokpönnu með loki. Einhvern tíma var ég með uppskrift hér að tereyktum laxi en nú langaði mig að gera þetta ögn öðruvísi – þótt ég notaði samt te.
Mér láðist nú að taka mynd af reykingablöndunni eða af bleikjunni áður en heitreykingin hófst. En ég byrjaði á að taka wokpönnu og rífa þrjár lengjur af álpappír, svo langar að þegar þær voru lagðar yfir pönnuna í sex arma stjörnu náðu þær mjög vel út fyrir barmana.
Ég tók bleikjuflökin, þerraði þau og penslaði með svolítilli olíu. Saltaði þau og kryddaði með grófmöluðum regnbogapipar (fimmlitri piparblöndu, en það má nota svartan eða hvítan pipar ef hún er ekki til) og flögusalti, setti þau á grind með roðhliðina niður og dreypti 1 tsk af balsamediki yfir hvort flak.
Það má í sjálfu sér nota nokkurn veginn hvaða te sem er (alltsvo svo framarlega sem það er alvörute en ekki jurtate) og ég átti nokkra poka af einhverri bragðbættri tegund sem ég hafði keypt til að nota í eitthvert verkefni en gat svo ekki drukkið afganginn af því að ég kann ekki að meta bragðbætt te. Svo að ég klippti opna svona sex poka og hellti innihaldinu í skál. Blandaði svo 3 msk af hrásykri (eða púðursykri) og 50 g af hrísgrjónum saman við. Setti þetta á álpappírsklædda wokpönnuna, kveikti undir henni, setti lokið á og hitaði þar til aðeins fór að sjást í reyk undan lokinu. Þá setti ég grindina með bleikjunni yfir, lokaði pönnunni og braut álpappírinn upp fyrir barmana til að halda reyknum inni.
Ég hafði pönnuna óhreyfða við nokkuð góðan hita í svona 18 mínútur. Það ætti ekki að sleppa mikill reykur út (ég sá næstum engan) en vissara samt að hafa viftuna á fullum styrk og glugga opna. Þá tók ég lokið af og aðgætti hvort fiskurinn væri tilbúinn – stakk hnífsoddi í hann til að athuga litinn. En þetta voru þykk flök og hann var ekki tilbúinn svo að ég gaf honum 7 mínútur í viðbót – semsagt 25 mínútur alls. Tíminn getur verið misjafn eftir hitanum undir pönnunni og þykktin á fiskinum. Laxinn í uppskriftinni sem ég vísa í hér ofar var í litlum, þunnum stykkjum og þurfti miklu styttri tíma.
En þá var bleikjan líka tilbúin og leit mjög vel út. Fannst mér allavega.
Svona leit reykblandan út. Ég lét hana kólna aðeins og svo vafði ég bara álpappírnum utan um hana og henti öllu saman. Það þurfti ekki einu sinni að skola wokpönnuna á eftir.
Það má auðvitað borða bleikjuna heita, beint úr reykingunni, en þar sem hún var að fara á hlaðborð lét ég hana kólna áður en ég færði hana yfir á fat. Setti hana á klettasalatsbeð en þess þarf ekki. Skreytingin á myndinni eru radísuspírur og litlir, heimaræktaðir gulir tómatar en það má nota hvaða kryddjurtir sem er eða sleppa bara skreytingunni.
*
Heitreykt bleikja
2 bleikjuflök, 500-600 g hvort
olía til penslunar
regnbogapipar (eða önnur piparkorn), grófsteyttur
flögusalt (eða annað salt)
2 tsk balsamedik
Reykblanda:
innihaldið úr nokkrum tepokum
3 msk hrásykur eða púðursykur
50 g hrísgrjón
Glaesilegt. Thu ert hofthingi!
Takk fyrir flott blogg og gledileg jol!