Vín með matnum

Ég er í sumarbústað í Skagafirði. Engar vöfflur eða pönnukökur en rauðvín og hvítvín með matnum, mikil ósköp … og það þótt hvorki sé verði að leysa skuldavandann né horfa á stóru myndina. Við systkinin erum bara búin að vera að sökkva okkur í minningar, erum að taka til í dótinu sem mamma lét eftir sig. Og hún lét nú ýmislegt eftir sig, blessunin; henti aldrei neinu en geymdi allt. Við erum ekki jafnhirðusöm. En förum í gegnum allt því þarna eru fjársjóðir inn á milli, friðarsamningar sem við gerðium okkar á milli þegar við vorum krakkar og annað slíkt.

Áður var hún reyndar búin að láta mann fá eitt og annað, til dæmis fékk ég fyrir nokkrum árum tvo óskalista sem ég hafði gert þegar ég var líklega átta ára og á báðum stóð meðal annars (innan um ýmislegt dót, bækur eftir Enid Blyton og þess háttar) Matreiðslubók. Ekki nein tiltekin matreiðslubók, enda efast ég um að ég hafi þekkt nafn á nokkurri slíkri, en snemma beygist krókurinn. En mér varð ekki að ósk minni og það liðu einhver ár þar til ég eignaðist fyrstu matreiðslubókina.

Ég hef séð um matseldina í bústaðnum í þetta skipti og tek svolítið mið af pabba gamla, sem er hérna hjá okkur um helgina, og elda eitthvað sem ég veit að honum þykir gott og mér finnst henta fyrir mann á nítugasta ári. Hann fékk grillað lambafillet með bökuðum kartöflubitum og rjómapiparsósu í gær – og rauðvín með og lét sér vel lynda.

Í kvöld eldaði ég aftur á móti tvö laxaflök sem keypt voru á Króknum í gær. Var ekki viss hvað ég ætlaði að gera við þau þegar þau voru keypt, hefði jafnvel grillað þau ef veðrið hefði verið annað en það var rigningarsuddi og mér leiðist að grilla í rigningu svo ég ákvað að hægsteiktja laxinn í ofni með kryddjurtum og hafa steinseljukartöflur og sítrónu- og timjansmjörsósu með.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 145°C og svo setti ég bökunarpappírsörk á plötu og sullaði dálítilli olíu á hana.

IMG_2720

Svo lagði ég flökin á pappírinn, kryddaði með pipar og salti, hellti dálítið meiri olíu (ókei, alveg slatta) yfir þau og svo saxaði ég lófafylli af steinselju (flatblaða) og aðra af basilíku og reif börkinn af einni sítrónu og blandaði saman við. Ég ætlaði að setja þetta beint á flökin en mundi svo að ég hafði tekið með dálítið pistasíu-dukkah sem ég átti til, kannski til að nota út á salat eða eitthvað. Ég gerði það semsagt ekki en ég stráði teskeið af því eða svo yfir hvort laxaflak – en það má alveg sleppa því líka, það gefur ágætt viðbótarbragð en er alls ekki nauðsynlegt.

IMG_2723

Svo stráði ég söxuðu kryddjurtunum og sítrónuberkinum yfir flökin og setti þau svo inn í 145°C heitan ofninn (í miðjan ofn) í svona hálftíma. Það er ágætt að stinga hnífsoddi í annað flakið þar sem það er þykkast til að athuga hvort það er steikt í gegn.

IMG_2725

Á meðan setti ég upp kartöflur til suðu og fór svo að gera sósuna. Setti svona 100 ml af hvítvíni í pott, saxaði fjórðung úr lauk (það var ekki til skalottlaukur) og setti út í ásamt nokkrum timjankvistum, pipar og dálitlu salti og lét þetta sjóða þar til mestallur vökvinn var gufaður upp, kannski svona 2 msk eftir. Þá veiddi ég timjanið upp úr.

IMG_2727

Svo skar ég 125 g af köldu smjöri í smábita og þeytti þeim smám saman út í hvítvínsblönduna, einum eða tveimur í einu, og bætti við nýjum þegar þeir fyrri voru bráðnaðir. Hrærði stöðugt og hafði hitann mjög vægan – sósan má ekki sjóða.

IMG_2730

Ég átti svolítinn rjómaafgang – kannski svona 150 ml – og þeytti honum saman við smátt og smátt. Kreisti svo safa úr svona þriðjungi af sítrónu út í, smakkaði og bragðbætti með meiri pipar, salti og sítrónusafa. Tók svo sósuna af hitanum en hélt henni heitri á meðan ég lauk við matargerðina.

IMG_2734

Þegar kartöflurnar voru orðnar meyrar hellti ég vatninu af þeim og lét það gufa vel af. Hitaði svo dálitla olíu á pönnu, setti kartöflurnar á hana, kryddaði þær með pipar og salti og steikti þær við góðan hita í nokkrar mínútur; hrærði oft í þeim á meðan. Svo stráði ég saxaðri steinselju yfir (meiri en sést á myndinni, kannski svona lófafylli) og steikti aðeins lengur.

IMG_2739

Ég tékkaði á laxinum, sem var einmitt tilbúinn, og tók hann svo út og notaði tvo spaða til að flytja flökin yfir á fat. Ofnhitinn var það það vægur að kryddjurtirnar voru enn fagurgrænar. Svo hafði ég kartöflurnar og sósuna með, ásamt salati.

Þetta þótti alveg ljómandi gott. Og hvítvín með, Mouton Cadet. Reyndar var bara til nóg handa mér og pabba, hinir fengu sér rauðvín með …

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s