Kjúklingar á fullu blússi

Ég hef dálítið minnst á ýmiss konar mataræði að undanförnu en áttaði mig reyndar ekki á því eða mundi ekki að í tveimur af helstu biblíum einnar þessar mataræðistegundar, WAPF-mataræði, er vitnað í mig. Það er þó ekki þar með sagt að ég sé aðalgúrú þessarar stefnu eða að þetta sé mitt mataræði. Svo slæmt er það nú ekki.

WAPF er kennt við Weston A. Price Foundation og í mataræðinu er lögð áhersla á náttúrulegt hráefni og gamlar/hefðbundnar matreiðsluaðferðir – ég er reyndar mjög hrifin af reglu númer tvö: ,,Eat only foods that will spoil, but eat them before they do“ – þetta finnst mér ansi góð regla. Að ýmsu leyti er þetta nokkuð svipað paleo-mataræði nema hvað korn, baunir og mjólkurvörur eru í góðu lagi. En þarna er töluverð áhersla á súrsaðan mat, sýrt grænmeti og fleira, og það er þar sem ég kem inn – höfundur helstu bókar stefunnar, Nourishing Traditions, fékk fyrir mörgum árum leyfi til að vitna í eitthvað sem ég hafði skrifað um íslenskan súrmat, og Sandor Katz, höfundur súrmatarbiblíunnar The Art of Fermentation, fékk upplýsingar hjá mér um súrmat, skyr og sýru. Við spjölluðum saman á Facebook og ég hefði nú kannski orðað sumt aðeins öðruvísi ef ég hefði vitað að hann ætlaði að vitna í það orðrétt …

Ég er samt ekkert sérstaklega í þessu mataræði þótt ýmislegt við það höfði til mín. Og kvöldmaturinn minn – þótt uppskrift að honum komi í framhaldi af þessu – var ekkert sérstaklega í WAPF-stíl þótt hann hafi líklega ekkert stangast á við það heldur. Ætli megi ekki einna helst skrifa hann á Miðjarðarhafsmataræði – ef eitthvað? Ólífuolía, kryddjurtir, kúrbítur, eggaldin, paprika, tómatar, hvítlaukur, rauðlaukur …

Þótt ég geti vissulega tekið hraustlega til matar míns var ég ekki ein um þetta, við vorum fimm í mat. Ég var að hugsa um að kaupa einn stóran og vænan kjúkling en langaði svo meira í litla og keypti tvo minnstu kjúklingana sem ég fann í búðinni, þeir voru rúm 1100 grömm hvor.

IMG_2574

Ég byrjaði á að hita ofninn í 240°C (nei, ekki prentvilla). Svo tók ég kjúklingana og kryddaði þá að utan og innan með pipar og Maldon-salti. Skar sítrónu í fjórðunga og stakk tveimur inn í hvorn kjúkling.

IMG_2580

Ég hellti dálítilli ólífuolíu í eldfast mót, setti kjúklingana í það, hellti dálítið meiri ólífuolíu yfir og stráði svona 1 tsk af herbes de provence yfir hvorn kjúkling (það mætti nota aðra kryddjurtablöndu, t.d. ítalska blöndu). Setti svo kjúklinginn í ofninn og steikti hann í svona 40 mínútur. Án þess að lækka hitann og án þess að hreyfa nokkuð við kjúklingnum.

IMG_2583

Á meðan tók ég til grænmetið: einn rauðlauk, 4-5 hvítlauksgeira, 1 lítið eggaldin, 1 kúrbít (sem ég notaði þó ekki allan en þetta var sá minnsti sem ég fann í búðinni), eina rauða papriku, eina dós af kirsiberjatómötum (mætti nota saxaða tómata), hálft knippi af steinselju sem var farin að slappast en ekki skemmast og svona 2 tsk af herbes de provence. Og pipar, salt og ólífuolíu.

IMG_2584

Ég byrjaði á að saxa laukinn og hvítlaukinn og láta það krauma í 2-3 msk af ólífuolíu  í nokkrar mínútur við meðalhita. Á meðan skar ég eggaldin, kúrbít og papriku í fremur litla bita og hrærði þessu svo saman við ásamt saxaðri steinselju, herbes de provence, pipar og salti. Lét krauma 2-3 mínútur og hellti svo innihaldi tómatdósarinnar í pottinn.

IMG_2589

Bætti við svolitlu vatni (svona 150 ml), hitaði að suðu og setti lok á pottinn. Ég lét grænmetið malla í 15-20 mínútur við fremur vægan hita, hrærði nokkrum sinnum og hefði bætt við svolitlu vatni ef þess hefði þurft.

IMG_2592

Ég tók kjúklinginn út og stakk kjöthitamæli í hann. 72 gráður, sem var fínt því ég breiddi svo álpappír yfir og lét fuglana standa í 10 mínútur – þá hækkar kjarnahitinn dálítið og kjúklingarnir urðu alveg mátulega steiktir, safaríkir og fínir.

IMG_2594

Þá var líka grænmetið einmitt tilbúið svo ég hellti því á disk, skreytti með basilíku og bar fram með kjúklingnum.

Það var ekki mikill afgangur. Ekki af kjúklingunum allavega.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s