Eins og ég sagði í síðustu færslu gat ég ekki gert upp við mig hvað ég vildi fá oná brauðið mitt svo ég gerði tvenns konar góðgæti, fenniku-appelsínu-mustarðsmaukið og svo gerði ég rautt pestó með valhnetum; öllu venjulegra og líka fljótlegra því hér þarf náttúrlega ekkert að sjóða.
Ég hef gert svona mauk áður en notaði þá bara olíuna úr krukkunni með sólþurrkuðu tómötunum. Ég var ekki alveg nógu ánægð með það svo núna notaði ég góða ólífuolíu og það var mun betra.
Þetta pestó geymist allavega í nokkra daga í ísskápnum en það er gott að slétta yfirborðið alveg og hella þunnu lagi af ólífuolíu yfir, þá geymist það betur.
Ég notaði það sem ég átti af sólþurrkuum tómötum í olíu (frá Jamie Oliver), þetta voru ein tólf stykki. Svo tók ég 50 g af valhnetum, eina sítrónu, rósmaríngrein, tvo hvítlauksgeira, salt, pipar og 4 msk af ólífuolíu.
Ég byrjaði á að mala valhneturnar fremur fínt í matvinnsluvél. Svo setti ég tómatana út í, ásamt grófsöxuðum hvítlauksgeirum og rósmarínnálum. Reif börkinn af sítrónunni yfir, kreisti svona 1 msk af sítrónunni í skálina og kryddaði með pipar og salti. Lét svo vélina ganga þar til allt var orðið að mauki og skóf miður skálarbarmana með sleikju.
Svo lét ég vélina ganga á meðan ég hellti ólífuolíunn út í í mjórri bunu. Smakkaði til að athuga hvort þyrfti meiri pipar, salt eða sítrónusafa (þess þurfti ekki).
Þetta var alveg ágætis tómatpestó.
Til dæmis á nýbökuðu brauði með hráskinku og basilíku.
Alveg þokkalegasti kvöldmatur barasta.
Tómat- og valhnetupestó
10-12 sólþurrkaðir tómatar í olíu
50 g valhnetur
2 hvítlauksgeirar
1 rósmaríngrein
1 sítróna
pipar
salt
4 msk ólífuolía