Góðgæti á brauðið

Ég var ekkert búin að plana matinn í dag neitt sérstaklega, átti hálfpartinn von á einhverjum afkomendum mínum í mat en var ekki búin að kaupa neitt. En þegar í ljós kom að ég yrði ein ákvað ég að nenna ekki út í búð og nennti eiginlega ekki að elda neitt heldur. Aftur á móti átti ég heilhveitibrauðdeig í krukku í ísskápnum og bakaði úr því og ákvað að hafa bara brauð í kvöldmatinn (ég er semsagt ekki á lágkolvetnamataræði).

Það var til ostur og smávegis af hráskinku og svo ákvað ég að gera eitthvert mauk á brauðið; kannaði ísskápinn, fletti nokkrum bókum, skoðaði nokkrar vefsíður og fann tvenns konar mauk sem mig langaði í og átti það sem til þurfti (eða eitthvað sem gat komið í staðinn). Gat ekki gert upp á milli þeirra svo ég gerði bara báðar.

Hér er uppskrift að annarri (ég set hina inn á eftir9, sem er líklega óvenjulegri en ætti að falla vel í geð þeim sem kunna að meta fennikubragð. Hitt aðalkryddið er mustarðskorn (sinnepsfræ) en það er nú samt eiginlega ekki sinnepsbragð af þessu. Hins vegar er appelsínubragð og ef maður vill mauk sem minnir meira á marmilaði má hafa meiri sykur. Ég hugsa að það sé gott líka.

Þetta gæti líka verið gott t.d. með köldu kjöti eða pylsum.

IMG_2478

Ég átti til eina litla fenniku og eina appelsínu og svo tók ég til 4 msk af púðursykri, 4 msk af eplaediki, 2 tsk af mustarðskornum og 1/2 tsk af fennikufræi. (Við þetta bættist svo seinna pipar, salt og vatn.)

IMG_2482

 

Ég setti púðursykur, edik, mustarðskorn og fennikufræ í pott og saxaði svo fennikuna smátt og reif gula börkinn af appelsínunni og setti í pottinn og hitaði að suðu og lét sjóða rösklega smástund.

IMG_2484

 

Á meðan skar ég hvíta börkinn af appelsínunni og skar svo aldinkjötið í geira -þ.e. ég skar hvert lauf fyrir sig frá en lét himnurnar sitja eftir. Svo saxaði ég aldinkjötið smátt og setti það í pottinn.

IMG_2486

 

Ég tók svo það sem eftir var af appelsínunni (himnur og það sem hafði orðið eftir af aldinkjötinu) og kreisti úr því safann í pottinn. Appelsínan var ekki eins safarík og ég hafði búist við svo ég bætti við 4 msk af vatni. Lét þetta svo malla við mjög vægan hita í svona 25 mínútur.

IMG_2504

 

Þá ætti nær allur vökvi að vera gufaður upp. Það er vissara að fylgjast með þessu þegar líður á suðutímann og bæta við örlitlu vatni ef hætta er á að maukið brenni við. Ég smakkaði svo og kryddaði með ögn af pipar og salti og lét maukið kólna.

IMG_2539

 

Mér finnst þetta bara ansi gott.

IMG_2532

 

Til dæmis með osti og nýbökuðu brauði.

IMG_2514

 

Ekkert svo slæmur kvöldmatur ef maður er ekkert sérlega svangur.

 

Fenniku-og appelsínumauk

1 lítil fennika

1 appelsína

4 msk púðursykur

4 msk eplaedik

2 tsk mustarðskorn (sinnepsfræ)

1/2 tsk fennikufræ

pipar

salt

vatn eftir þörfum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s