Ég fór á pósthúsið eftir vinnu til að ná í sendingar sem ég átti þar. Þær voru allar frá Amazon í Bretlandi en ég var ekki viss hvað var í pökkunum – ég var eins og oftar með fleiri en eina pöntun í gangi og þótt ég panti oft nokkrar bækur saman til að sleppa við sendingarkostnaðinn sendir Amazon oft hverja bók fyrir sig – skiptir engu máli upp á sendingarkostnaðinn (sem er enginn) en þýðir náttúrlega að það þarf að borga tollmeðferðargjald af hverri bók fyrir sig, sem er ekki gott.
Allavega, ég kíkti í pakkana á meðan ég beið eftir strætó. Þetta var eitt tímarit (The Apocalypse Issue af Lucky Peach, sem ég hlakka mikið til að lesa) og svo þrjár bækur. Þegar ég sá tvær af þeim hugsaði ég strax ,,æ, já, þessi“ en þegar ég opnaði pakkann með þriðju bókinni brá svo við – sem ég man ekki eftir að hafi gerst fyrr í allri minni matreiðslubókakaupasögu – að ég hugsaði ,,ha, hvað er þetta eiginlega? pantaði ég þessa bók?“ því það var ekki nóg með að ég myndi ekkert eftir að hafa pantað hana, ég kannaðist ekkert við hana eða höfundinn og mundi ekkert eftir að hafa séð bókina fyrr eða lesið um hana.
Hún virtist samt alveg áhugaverð og ég sá þegar ég kom heim að jújú, ég hafði vissulega pantað hana, hún hefur verið svona ,,impulse buy“, ég hef líklega fallið fyrir titlinum The Bowler’s Meatball Cookbook, með undirtitlinum Ballsy Food, Ballsy Flavours. Og þar sem ég var enn á heimleið og ekki búin að kaupa í matinn kom eiginlega ekki annað til greina en að hafa kjötbollur. Svo ég stökk út úr strætó á næstu stöð við Bónus og kom þar við og keypti nautahakk. Án þess að hafa opnað bókina eða hafa hugmynd um hvaða uppskriftir væru í henni, ég taldi bara víst að ég rækist þar á eitthvað sem veitti mér innblástur til að elda úr hakkinu og því hráefni sem ég átti heima því ég keypti ekkert nema hakkið.
Og jújú, það eru ýmsar álitlegar uppskriftir í bókinni, reyndar ekki síst úr lamba-, svína-, kálfa- og kjúklingahakki (og svo eru fiski- og grænmetisbollur líka og bókin því ekki alveg réttnefnd) en ég ákvað að styðjast við uppskrift að Smokin’ Bacon Balls.
Ég átti nefnilega beikon. Ég á oftar en ekki beikon. Að vísu ekki eikarreykt eins og uppskriftin gerði ráð fyrir en so what. Þetta voru svona 100 g af þykkskornu beikoni og 225 g af hakki. Ég átti heldur ekki rjóma eða ricottaost en ég gerði ráð fyrir að í staðinn fyrir þetta tvennt gæti ég notað 100 g af rjómaosti. Ég átti heldur ekki reyktan cheddarost en ég átti venjulegan íslenskan, 75 g. Og ég átti reykta papriku (1 tsk), pipar, salt, eitt egg og 60 g af brauðmylsnu. Reyndar panko-mylsnu en hún hlaut að duga. Og steinselju átti ég ekki til en notaði basilíku í staðinn. Svo þetta er nú örugglega ekkert voða líkt bollunum í bókinni …
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 220°C. Svo skar ég beikonið smátt og steikti það í nokkrar mínútur, þar til það var stökkt. Tók það svo upp með gataspaða og setti á disk en geymdi pönnuna og beikonfeitina sem á henni var.
Ég braut eggið í skál, setti rjómaostinn (sem best er að sé mjúkur) út í og hrærði þetta saman þar til það var tiltölulega slétt, eða allavega ekki með stórum rjómaostskekkjum.
Ég setti svo hakkið út í – það er best að setja það ekki allt í einu, heldur mylja það yfir með höndunum. Svo hrærði ég því saman við rjómaostsblönduna.
Ég setti kryddið, beikonið og brauðmylsnuna út í …
… og saxaði svo basilíkuna og reif cheddar-ostinn gróft og setti út í.
Ég hrærði farsið fyrst lauslega saman með sleikju og hnoðaði það svo létt með höndunum.
Ég mótaði hakkið svo í hnöttóttar bollur, svona rúmlega á stærð við valhnetur – það komu 18 bollur úr farsinu – og setti þær á pappírsklædda bökunarplötu. Svo bakaði ég þær í miðjum ofninum í svona 16 mínútur. Það þarf ekkert að snúa þeim en ef það er ekki gert verða þær heldur dekkri á hliðinni sem snýr niður en hinum – það gerir ekkert til en þó þarf að passa að þær brenni ekki.
Á meðan gerði ég tómatsósu (ekki eftir uppkrift úr bollubókinni þó) – það tekur reyndar ekki nema örfáar mínútur: Ég hitaði beikonpönnuna aftur (það má líka nota pott og hella þá 1 msk af ólífuolíu í hann), saxaði 2 hvítlauksgeira smátt og setti út í og lét krauma smástund án þess að brúnast, saxaði svo nokkur basilíkublöð og setti á pönnuna og opnaði svo dós af söxuðum tómötum og hellti út í. Kryddaði með pipar, salti og fáeinum chiliflögum og lét malla í 3-4 mínútur. Tilbúið.
Þegar bollurnar voru tilbúnar tók ég þær út og setti á fat sem ég var búin að dreifa salatblöðum á. Setti svolítið af sósunni yfir en setti hitt í skál og bar fram með.
Þetta voru alveg ljómandi góðar bollur bara. En eins og ég sagði, sennilega ekkert voðalega líkar fyrirmyndinni í bollubókinni samt … En fyrir mér eru matreiðslubækur ekki til að elda upp úr, heldur til að læra af og leita að hugmyndum og innblæstri. Sem tókst nokkuð vel hér.
Beikon- og ostakjötbollur
225 g nautahakk
100 g beikon
100 g rjómaostur
1 egg
60 g brauðmylsna (ég notaði japanska panko-mylsnu)
1 tsk reykt paprika (má nota venjulega)
pipar
salt
75 g cheddar-0stur
nokkur basilíkublöð
Eldsnögg tómatsósa
1 msk beikonfeiti eða olía
2 hvítlauksgeirar
nokkur basilíkublöð
1 dós saxaðir tómatar
pipar
salt
smáklípa af chili-flögum (má sleppa)
ég alveg ELSKA hvað uppskriftirnar þínar eru bæði skemmtilegar og þægilegar – og alltaf svo handhægar hvað hráefni varðar.
Var hér til að finna uppskrift fyrir morgundaginn (á hakk í ískápnum) og þessar verða gerðar er nokkuð viss um að manninum mínum muni líka þær vel
Hjartans þakkir fyrir þessa uppskrift. Eldaði þetta áðan og var rosalega gott. Meira að segja matvöndu börnin mín sem vilja venjulega ekki borða ýmislegt af því sem er í uppskriftinni hámuðu matinn í sig.
Gott að heyra. – Mér hefur oft reynst vel að upplýsa matvönd börn ekkert of mikið um innihaldið, eða hafa það á ,,need to know“-stigi – þau fá (kannski) að vita hvað er í matnum ef þau spyrja …
Hvað er þett fyrir sirka marga ?
Þrjá til fjóra, fer eftir hvaða meðlæti er haft með og hvað þetta eru miklir matmenn.