Salatið sem varð ostakaka

Sko, ég átti til vel þroskað mangó (meiraðsegja tvö) og vel þroskaðar lárperur og vel þroskaða tómata og papriku og fjallasteinselju og sítrónu og límónu og hnetur og ég veit ekki hvað og þetta kallaði náttúrlega beint á sumarlegt og sólríkt salat og af því að ég á líka kjúklingabringur ætlaði ég að gera litríkt og fallegt og bragðgott kjúklingasalat.

En allt í einu langaði mig að gera köku. Mig langaði samt ekkert að baka.

Og svo horfði ég á þessi bústnu og mjúku mangó og fann ilminn af þeim og allt í einu kom bara ekkert annað til greina en að gera mangóostaköku. Salatið getur beðið.

Þegar ég geri ostakökur baka ég þær oftast, frekar en að nota matarlím eða eitthvað slíkt, finnst bakaðar ostakökur yfirleitt betri. Þessar óbökuðu eru oft of sætar og jafnvel svolítið væmnar. En ég er ekki hrifin af bökuðum mangóostakökum, eða kannski hef ég ekki fundið réttu uppskriftina. Ég gerði hins vegar einu sinni óbakaða mangóostaköku sem mér þótti nokkuð góð og gat rifjað upp hvað ég hafði gert, svona nokkurn veginn allavega. Gerði ákveðnar breytingar á því, minnkaði til dæmis sykurinn allnokkuð. Ostakakan sem ég gerði núna er afar langt frá því að vera dísæt og það gæti reyndar verið að einhverjir mundu vilja meiri sykur en ég notaði. En þá er það bara allt i lagi og það er um að gera að smakka bara blönduna og finna hvað maður er sáttur við. Mér finnst alls ekki þurfa meiri sykur en það er minn smekkur. Sjáum til hvað öðrum finnst á morgun …

IMG_2883

Ég byrjaði á að gera botninn. Tók einn pakka af Haust-kexi (sem er HEILHVEITIKEX, ekki hafrakex, bara svo það sé á hreinu. Af hverju í ósköpunum kalla allir það hafrakex? Það er ekki arða af höfrum í því og á pakkanum stendur skýrt og greinilega Grahamskex (sem er heilhveitikex) og Whole Wheat Biscuits. Ekki Oatmeal Biscuits. Ég er búin að vera að tuða yfir þessu síðustu fimmtán árin en samt kalla allir Haustkexið (og gott ef ekki flest annað kex sem notað er í ostakökubotna) hafrakex. Ég ætla samt að halda áfram að tuða) – jæja, og 100 g af smjöri. Setti þetta i matvinnsluvélina og muldi nokkuð vel saman. Það mega samt alveg vera einhverjir kexmolar. En helst ekki stórar smjörklessur.

IMG_2887

Tók svo meðalstórt smelluform og hellti kexblöndunni í það …

IMG_2890

… og þrýsti kexblöndunni létt niður á botninn og aðeins upp með hliðunum. Svo setti ég formið í frysti á meðan ég var að útbúa fyllinguna.

IMG_2892

Fyrst flysjaði ég annað mangóið og skar aldinkjötið utan af steininum og skar það í stóra bita.

IMG_2893

Setti bitana í matvinnsluvél ásamt 250 g af mascarponeosti og 250 g af rjómaosti. Það má alveg nota bara rjómaost eða bara mascarpone en þetta var það sem ég átti til. Ég hrærði þetta vel saman, þar til mangóið var alveg komið í mauk og samlagað ostinum.  Bætti svo við 60 g af hrásykri. Það má nota hvítan sykur og það má nota meiri sykur en þetta var það sem mér fannst henta best.

IMG_2903

Ég var búin að leggja 5 matarímsblöð í bleyti í kalt vatn í nokkrar mínútur og nú tók ég þau upp, kreisti úr þeim vatnið en setti safa úr hálfri appelsínu í lítinn pott, setti matarlímsblöðin út í og bræddi við vægan hita. Lét þau kólna aðeins …

IMG_2902

… og þeytti á meðan 250 ml af rjóma.

IMG_2911

Svo setti ég matvinnsluvélina aftur af stað og hellti matarlímsblöndunni saman við osta-mangóhræruna í mjórri bunu.

IMG_2917

Svo skar ég helminginn af hinu mangóinu í bita og setti út í ásamt rjómanum. – Ég blandaði þessu saman með sleikju í matvinnsluvélarskálinni en það væri reyndar þægilegra að setja þetta í rjómaskálina og blanda því saman þar.

IMG_2919

Svo sótti ég formið í frystinn, hellti fyllingunni í það og sléttaði yfirborðið með sleikju. Skreytti með svolitlu smátt söxuðu mangói (má sleppa), breiddi plastfilmu yfir og kældi í nokkra klukkutíma.

IMG_2947

Ætli hún hafi ekki staðið óhreyfð í ísskápnum í svona þrjá tíma. En þá stóðst ég hana ekki lengur, enda var hún orðin nógu stíf.

IMG_2962

Svona kaka er auðvitað meira eftirréttur en kaka með kaffinu. En hún var svosem ágæt með kaffi líka.

Mangóostakaka

1 pakki Haust-heilhveitikex (já, heilhveitikex)

100 g smjör

1 1/2 vel þroskað mangó

250 g rjómaostur

250 g mascarponeostur (eða 500 g af annarrihvorri tegundinni)

60 g hrásykur (eða magn og tegund eftir smekk)

5 matarlímsblöð

safi úr 1/2 appelsínu

250 ml rjómi

3 comments

  1. sæl Nanna, ég hef verið að skoða ýmsar ostakökuuppskriftir hér og það og í þessar óbökuðu er ýmist notað matarlim eða ekki. Ég var bara forvitin, til hvers er það notað ef það er s.s. hægt að sleppa því? Hverju bætir það við áferðina á óbökuðu ostakökunum? Ef það er matalím í uppskriftinni og maður á ekki slíkt til er hægt að sleppa því eða þarf maður að gera einhverjar frekari breytingar á uppskriftinni til að bæta upp matarlímsmissinn?
    Bestu þakkir fyrir skemmtilega og fróðlega síðu.

    • Sko, það er alveg hægt að sleppa því í ýmsum tilvikum en ef ekkert matarlím (eða annað þykkingarefni, til dæmis Royal vanillubúðingur eða Knorr hlaupduft eða eitthvað slíkt) er notað verður ostamassinn linari og hætt við að hann haldi ekki nógu vel lagi þegar kakan er skorin. Slíkar ostakökur eru því oftar en ekki bornar fram í formi eða þær eru settar í frysti og bornar fram hálffrosnar. Þær eru líka sjaldan eins þykkar og þessi hér.

      Þetta fer þó eftir hráefninu, til dæmis stífnar massinn betur ef hann inniheldur töluvert af súkkulaði og eins ef ekki er notaður rjómi í hann.

      Ef þú vilt til dæmis sleppa matarlími í þessari uppskrift eða annarri sambærilegri mætti í staðinn nota kannski hálfan pakka af vanillubúðingsdufti, en þú getur líka prófað að sleppa rjómanum, þá verður fyllingin sennilega nógu stíf til að halda lagi þokkalega en hefur hins vegar ekki sömu mýkt.

      Ég veit líka að margir eru smeykir við að nota matarlím og halda að það sé svo mikil hætta á að það fari í kekki. Það getur vissulega gerst þegar volgt matarlím er sett út í kalda blöndu (gerðist í fyrsta skipti sem ég notaði matarlím í búðing af því að ég hafði skrópað í tímanum þar sem okkur var kennt það – en hefur svo aldrei gerst síðan) en þegar matarlíminu er t.d. hellt í matvinnsluvél í gangi eins og hér er gert er hættan á því engin.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s