Jæja, nú tókst mér að komast alla leið með salatið sem ég ætlaði að hafa í matinn í gær en breyttist í ostaköku. Slíkt gerist oft í minni eldamennsku, enda er ég með eindæmum óskipulögð. Stundum er ég byrjuð að elda eitthvað ákveðið þegar maturinn tekur skyndilega allt aðra stefnu (þó kannski ekki svo drastískt að kjúklingasalat verði að köku) og stundum tíni ég bara til einhver hráefni og veit í rauninni ekkert hvað ég ætla að elda úr þeim – það kemur bara jafnóðum.
Ég held að fólk eins og ég, sem á ákaflega erfitt með að fara eftir uppskrift og gerir það helst ekki – og lætur hráefnið stundum taka af sér völdin – verði ýmist alveg ágætir kokkar eða alveg skelfilega vondir. Ef maður er sæmilega fróður um mat og matargerð, af lestri eða bara af reynslu, og hefur þokkalegan sans fyrir því hvað passar saman og hvernig bragð blandast og fléttast saman, þá lendir maður sennilega í fyrri hópnum og eru flestir vegir færir. Ef þetta skortir og maður prófar bara hvað sem manni dettur í hug án þess að stoppa, hugsa málið, reyna að finna bragðið í huganum … þá gæti maður orðið kokkur af því tagi sem vekur hrollkenndar minningar um ,,verstu máltíð lífs míns“ eða eitthvað slíkt.
Mér finnst afskaplega gaman að elda og langskemmtilegast að nota ekki uppskrift. En ég þekki líka fólk sem er mjög góðir kokkar en finnst eldamennska leiðinleg og vill helst ekki koma nálægt henni. Og fólk sem hefur engan áhuga á að elda en þarf að gera það og er ekki sérlega góðir kokkar. Og svo er líka til fólk sem finnst mjög gaman að elda og er alltaf í tilraunum en er samt vondir kokkar – kannski þeir verstu af öllum af því að það getur ekki farið eftir uppskrift en hefur ekki þessa tilfinningu sem þarf að hafa eitthvað af til að geta spilað af fingrum fram. Svona eins og þegar ég reyni að syngja. Mér finnst mjög gaman að syngja og er af mikilli söngætt (pabbi og átta bræður hans voru til dæmis allir í karlakórnum Heimi) en hef ekki tóneyra og get með engu móti haldið lagi.
En þetta var útúrdúr. Ég ætlaði að segja frá salatinu. Reyndar hætti ég við að hafa þetta kjúklingasalat og útbjó kjúkling með salati. En það var nú bara tæknilegt atriði, ég hefði líka getað skorið kjúklinginn í bita og blandað þeim saman við salatið.
Ég byrjaði allavega á að undirbúa kjúklinginn (tvær litlar bringur, 200 g hvor). Ég tók 1 msk af olíu, 1 kúfaða msk af apríkósusultu, 2 tsk af dijon-sinnepi, saxaðar nálar af 1 rósmaríngrein, pipar og salt og hrærði saman á djúpum diski.
Ég skar hvora bringu um sig í tvennt og velti þeim svo upp úr kryddleginum.
Ég hitaði 2 msk af olíu á pönnu og steikti bringurnar við fremur vægan hita; tveir bitarnir voru þykkari en hinir og ég steikti þá í 7 mínútur á hvorri hlið en hina í 5. Þar sem kryddlögurinn er sætur er hætta á að hann brenni ef hitinn er of hár og það er vissara að fylgjast með.
Sem var lítið mál að gera því ég stóð við hliðina á eldavélinni að útbúa salatið. Ég tindi til tvo vel þroskaða tómata, tvær pínulitlar vel þroskaðar lárperur, bita af vel þroskuðu mangói (afganginn af ostakökunni), papriku sem ég notaði þó bara helminginn af, væna lófafylli af salatblöndu og steinseljuknippi (sem ég notaði svo lófafylli af).
Ég skar tómata, lárperur, mangó og papriku í litla bita og blandaði saman í skál. Hrærði saman 1 1/2 msk af ólífuolíu, 1 msk af appelsínusafa, 2 tsk af límónusafa, pipar og salt og hellti yfir og blandaði svo salatblöðum og saxaðri steinselju saman við.
Úr þessu varð nú bara hið sumarlegasta salat. Ekki að það sé komið neitt sumar sko, en við erum allavega nær því hér en fyrir austan …
Ég tékkaði á kjúklingnum – jú, hann var akkúrat tilbúinn. Ég tók hann af hitanum en lét hann bíða á heitri pönnunni í nokkrar mínútur á meðan ég var að ganga frá eftir salatgerðina og leggja á borðið.
Þetta leit nú ekkert illa út.
Og bragðaðist ekkert illa heldur. Eiginlega alveg ljómandi vel.
Kjúklingabringur með litríku salati
2 kjúklingabringur
1 msk olía
1 kúfuð msk apríkósusulta
2 tsk dijonsinnep
nálar af 1-2 rósmaríngreinum
pipar
salt
2 msk olía til steikingar
Litríkt salat
2 litlar lárperur, vel þroskaðar
2 vel þroskaðir tómatar
1/2 rauð paprika
1/4 mangó, vel þroskað
lófafylli af salatblöðum
lófafylli af saxaðri fjallasteinselju
1 1/2 msk ólífuolía
1 msk nýkreistur appelsinusafi
1-2 tsk nýkreinstur límónusafi
pipar
salt