Reykt og svolítið steikt …

Stundum gerast hlutir í mínu eldhúsi sem líklega mundu hvergi nokkursstaðar annarsstaðar gerast. Ég er nefnilega ekki bara snillingur eins og allir vita, heldur er ég líka alveg hrikaleg brussa og alveg rosalega utan við mig oft á tíðum. Og þá getur nú ýmislegt komið upp á.

Ég steikti mér egg í hádeginu. Egg og ristað brauð og basilika og salatblað og svona … Fínt bara. Og borðaði það og settist svo inn í stofu í minn ágæta LazyBoy og hreiðraði um mig og fór að lesa bók. Náttúrlega um mat en það er annað mál.

En þegar ég var búin að sitja þarna drykklanga stund fór ég að finna daufa lykt af brunnum pappír. Ég var alveg hundrað prósent viss um að ég hafði slökkt á eldavélinni og auk þess var enginn pappír þar nálægt svo ég ákvað að þetta væri eitthvað frá nágrönnunum (það var opið út á svalir). En lyktin ágerðist frekar en hitt og á endanum reis ég upp úr mínum þægilega stól og labbaði fram í eldhús.

Nei, það var eins og ég hélt, slökkt á eldavélinni og ekkert að svíða þar, enda var liðinn að minnsta kosti hálftími (eða líklega nærri þrjú korter) síðan ég kláraði steikinguna og ef eitthvað hefði sviðnað þar hefði líklega allt staðið í björtu báli og gaskúturinn sprunginn og ég steindauð og ekki þurft að hafa nokkrar áhyggjur af smávegis brunalykt. En ég leit samt inn í ofnana til öryggis og kíkti á þvottavélina og önnur raftæki.

Og svo opnaði ég ísskápinn.

Það var ekkert persnekst fortíðarskrímsli þar sem sagði ,,zuuuuul!“ eða eitthvað svoleiðis, eins og í Ghostbusters. En það vall á móti mér reykur. Sem alls ekki á að koma úr ísskápnum, nema þeim sem er búið að breyta í reykofn (það mundi ég gera ef ég hefði aðstöðu til). Mér varð nú fyrst fyrir að kippa ísskápnum úr sambandi því ég allavega stend í þeirri meiningu að það sé gáfulegt. Og hugsaði svo ,,almáttugur, ísskápurinn ónýtur, hvað geri ég nú?“

En þetta var eitthvað dularfullt og það var greinilega lykt af brunnum pappír en ekki brunnum raflögnum eða einhverju slíku. Og ljósið hafði virkað þegar ég opnaði skápinn og rafmagninu hafði ekki slegið út. Svo að ég opnaði skápinn aftur  og góndi inn í hann og skildi ekki neitt í neinu. Það kom enn reykur.

Og svo áttaði ég mig á að reykurinn kom frá eggjabakka sem stóð á grind í miðjum ísskápnum. Bakkinn stóð ekki í ljósum logum en það kom greinilega reykur frá honum. Svo að ég greip hann og hljóp með hann að vaskinum.

IMG_3083

Eggjabakkinn hefur líklega staðið heldur nærri gasloganum á meðan ég var að brjóta egg á pönnuna og þegar ég tók hann og fór með hann aftur í ísskápinn hefur eitt hornið líklega aðeins verið byrjað að sviðna án þess að ég tæki eftir því – og svo var eldurinn búinn að malla í ísskápnum í meira en hálftíma. Eða reyndar bara glæður, þetta hefur aldrei verið neinn eldur – það bráðnaði ekkert, glerhillan sem var beint yfir bakkanum sprakk ekki (volgnaði aðeins) og meira að segja eggin voru ósprungin. Og höfðu ekki eldast neitt; ég braut eitt í bolla til að athuga.

Merkilegt.

Til allrar hamingju var ég ekki búin að gera helgarinnkaupin og mest af innihaldi ísskápsins var innpakkað í krukkur, box eða plastpoka svo að reykskemmdir í skápnum voru litlar. Ég er nýtin manneskja og ákvað að það væri óþarfi að henda eggjunum en borgaði sig þó líklega að nota þau sem fyrst. Svo ég ákvað að nota allavega einhver egg í kvöldmatinn og baka svo kannski eitthvað.

Og í búðinni rak ég augun í reykta ýsu. Fannst það eitthvað svo viðeigandi, en nei, hún var ekki í skápnum meðan eggjabakkinn brann svo hún er ekki heimareykt. – Reyndar var það áratugum saman svo að ef ég var spurð hvort það væri eitthvað sem ég borðaði ekki svaraði ég ,,reykt ýsa“. Mér þótti hún góð en það var ástæða fyrir því að ég gat ekki borðað hana, tengdist gamalli minningu … En svo tókst mér að yfirvinna það og nú held ég að það sé bara eiginlega ekkert sem ég borða ekki. (En ýmislegt sem ég sækist svosem ekkert eftir, það er annað mál.)

IMG_3102

Svo ég ákvað að gera mér reykta ýsu með hollenskri sósu (til að nota eitthvað af eggjunum) , puy-linsum og spínati. Það má líka nota ýmiss konar grænmeti í staðinn fyrir linsunrar og þá ætti þetta að vera ídeal fyrir þá sem eru á LCHF-mataræði og svoleiðis, er það ekki? Nóg af próteini og fitu, allavega …

Ég var með um 400 g af reyktri ýsu, 250 ml af mjólk til að sjóða hana í, slatta af linsubaunum (kannski svona 200 ml), sellerístöngul, hálfan rauðlauk, timjangrein (eða bara þurrkað timjan), 1 lárviðarlauf,, 1 tsk af grænmetiskrafti, pipar og salt, lófafylli af spínati – og í sósuna 2 egg (notaði reyndar bara rauðurnar), 110 g af smjöri, sítrónubát og 1 vorlaukl.

IMG_3105

Ég skar niður rauðlauk og sellerístöngul í pott ásamt timjangrein, lárviðarlaufi, grænmetiskrafti, pipar og salti og svo linsubaununum, hellti köldu vatni yfir og sauð þetta við vægan hita í svona 25 mínútur, eða þar til baunirnar voru meyrar.

IMG_3109

Svo var það hollenska sósan: Ég bræddi smjörið við mjög vægan hita. Braut reyktu eggin og aðskildi þau, henti hvítunum en setti rauðurnar í matvinnsluvélina ásamt græna og ljósgræna hlutanum af vorlauknum, pipar og salti, og þeytti allt vel saman.

IMG_3112

Svo hellti ég bráðnu, sjóðheitu smjörinu smátt og smátt út í og lét vélina ganga á meðan. Kreisti að lokum safann úr sítrónubátnum út í á meðan vélin gekk, smakkaði og bætti við ögn af pipar og salti.

IMG_3116

Ég hellti sósunni svo aftur í smjörpottinn og velgdi hana aðeins (en hún má alls ekki nálgast það að sjóða og það þarf að hræra stöðugt) og hélt henni svo heitri. – Ef sósan verður of þykk má þynna hana annaðhvort með ögn af mjólkinni sem ýsan er soðin í eða svolitlu af linsubaunasoðinu.

IMG_3123

Hitaði mjólkina með ögn af pipar, setti fiskinn út í og lét hann malla í svona 5 mínútur.

IMG_3121a

Þegar baunirnar voru meyrar hellti ég þeim í sigti og lét renna af þeim en setti þær svo aftur í pottinn og blandaði spínatinu vel saman við. Það þarf ekki frekari eldamennsku. Setti linsu- og spínatblönduna svo á fat og fiskinn ofan á.

IMG_3132

Ég skreytti fiskinn með ögn af steinselju en þess þarf ekki.

IMG_3143

Og hollenska sósan með …

IMG_3163

Þetta var ansi hreint gott. En kannski nógur reykur í bili. Ég hafði verið að hugsa um reyktan forrétt á morgun en er eiginlega búin að skipta um skoðun …

Reykt ýsa mð linsum og hollenskri sósu

400-500 g reykt ýsa

250 ml mjólk

pipar

Linsur með spínati

200 ml puy-linsur

1 sellerístöngull

1 lárviðarlauf

1 timjankvistur

1/2 rauðlaukur

1 tsk grænmetiskraftur

pipar

salt

Hollensk sósa

110 g smjör

2 eggjarauður

1 vorlaukur (eða nokkur graslauksstrá)

1 sítrónubátur

pipar

salt

3 comments

  1. Hahaha …. þetta er ótrúleg saga – það gerast greinilega skemmtileg ævintýri í eldhúsinu þínu! 🙂 Mér finnst reykt ýsa ekki sérstaklega góð en ég er nokkuð viss um að ég myndi borða þennan rétt með góðri lyst – ég myndi fá mér vel af sósunni!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s