Hvítasunnu-grillið

Sumarið er nú ekkert að flýta sér að koma. En ætli maður geti ekki bara verið kátur á meðan ekki er allt á kafi í snjó.

Nei, það var ekki alveg grillveður í dag, fannst mér, allavega ekki á svölunum hjá mér, sem snúa í norður og eru skjóllitlar en duga samt alveg fyrir litla Weber-grillið mitt (sem er þó stærra en það virðist). En ég hafði tekið væna hrossalund úr frysti og þegar ég horfði á hana fannst mér eiginlega ekki hægt að gera annað við hana en grilla hana. Hún kallaði einhvernveginn á það.

Uppskriftin dugir auðvitað alveg eins fyrir nautalund. En þetta var semsagt hross. Og var svo sannarlega ekki að þykjast vera neitt annað, enda ekki ástæða til.

Ætli uppskriftir að forrétti og eftirrétti komi svo ekki á næstu dögum.

IMG_3207

 

Þetta var hin vænsta lund, 1600 grömm og líklega einir 40-45 cm á lengd. Ég lét hana þiðna í nokkra daga í ísskápnum og tók hana svo út svona tveimur tímum áður en hún átti að fara á grillið svo hún væri nokkurn veginn við stofuhita.

IMG_3223

 

Ég byrjaði á að skera burt allar himnur, þær eru seigar og um að gera að losna við þær. Best er að stinga beitutm hníf undir og skera þær af í ræmum – og reyna að hafa sem allra minnst af kjöti með.

IMG_3226

 

Það er best að þykktin á lundinni sé sem jöfnust svo að steikingin verði jöfn og ég batt seglgarn um lundina á nokkrum stöðum, annars vegar til að halda aðalbitanum og litla hliðarstykkinu sem ég man aldrei hvað heitir þétt saman og svo braut ég mjóa endann á lundinni inn undir og batt þar utan um líka. Þá var ég komin með stykki sem var allt álíka þykkt.

IMG_3229

 

Svo setti ég 1 msk af svörtum piparkornum og 1 tsk af mustarðskornum (sinnepsfræjum; það má samt alveg sleppa þeim) í mortél og grófsteytti. Blandaði svo 1 tsk af hvítlaukssalti og slatta af flögusalti (Saltverk eða Maldon, til dæmis) saman við.

IMG_3235

 

Ég hellti góðum slatta (jæja, nokkrum matskeiðum) af ólífuolíu yfir kjötið og bar hana á það allt með lófunum. Svo kryddaði ég það vel með kryddblöndunni og lét liggja á meðan grillið var að hitna.

IMG_3248

 

 

Fyrst grillaði ég lundina á beinum, nokkuð háum hita í fimm mínútur á hvorri hlið (ókei, það eru vissulega fjórar hliðar á lundinni en ég grillaði hana bara á tveimur). Ég hafði grillið lokað á meðan því það var frekar kalt og dálítil gola en á hlýjum og lygnum sumardegi hefði ég líklega haft það opið.

IMG_3253

 

Þegar lundin hafði brúnast á tveimur hliðum slökkti ég á brennaranum sem var beint undir henni, lokaði grillinu (og á þessu stigi hefði ég haft það lokað hvernig sem veðrið var) og lét hana grillast áfram við óbeinan eld.

IMG_3287

 

Ég er ekki alveg klár á hvað ég grillaði lundina lengi eftir að ég var búin að brúna hana, það gæti hafa verið svona 20 mínútur – en ég notaði instant kjöthitamæli og beið þar til hann sýndi 54°C. Hefði reyndar mátt taka hana af grillinu við 51°C eða svo, innri hiti hækkaði meira en ég hélt á meðan hún beið (og hún á að bíða í allavega 10 mínútur á hlýjum stað innandyra áður en hún er skorin) en hún var meyr og safarík samt. – Ég var búin að sjóða nokkrar bökunarkartöflur  þar til þær voru rétt orðnar meyrar og setti þær á grillið svona fimm mínútum áður en ég tók lundina af því og sneri þeim svo og lét þær grillast áfram á meðan lundin beið.

IMG_3307

 

Grilluð hrossalund með kartöflu, salati og béarnaisesósu. Ekki slæmt.

 

2 comments

    • Þessi var nú bara keypt í Bónus (og var bara í frystinum, þurfti ekki að biðja um hana sérstaklega eins og mér skilst að þurfi með nautalundir).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s