Það er fátt hversdagslegra en grjónagrautur en mörgum finnst líka fátt jólalegra. Sjálf er ég reyndar ekki alin upp við jólagraut og hef aldrei komist upp á þann sið – ekki ris a l’amande heldur – en hins vegar var grjónagrautur og grjónavellingur (sem er þynnri) æði oft í matinn þegar ég var að alast upp og ég kann vel að meta hann.
Ég hef nokkrum sinnum minnst hér á nýju bókina mína, Pottur, panna og Nanna, en hef nú ekki viljað vera að pirra ykkur með stöðugu plöggi þótt þetta sé náttúrlega frábær bók. Mér fannst það líka óþarfi, var viss um að bókin myndi selja sig sjálf, enda hefur það komið á daginn og upplagið mun klárast fyrir jól (bara svo að þið vitið af því ef ykkur langar í hana). Nú, og svo er auðvitað endurprentunin af Matarást til líka. Og nokkrir eldri titlar, sem þið getið séð með því að smella á Bækurnar mínar hér í síðuhausnum.
En hér er allavega uppskrift að grjónagraut úr Pottur, panna og Nanna. Steypujárnspottur er alveg ídeal en ef maður á ekki slíkt þing (eða svona fimmtán til tuttugu stykki, eins og ég) er hægt að nota aðra potta, svo framarlega sem þeir eru með nokkuð þéttu loki. Það er betra að þeir séu þykkbotna og ef lokið er ekki þétt má bjarga sér með því að setja álpappír yfir pottinn og brjóta hann vel niður fyrir barmana og höldurnar áður en lokið er sett á. Uppskriftin er hér alveg eins og hún birtist í bókinni, nema hvað ég bætti við texta við eina mynd; hann er innan sviga og skáletraður.
Grjónagrautur í ofni
Hrísgrjónagrautur er – við fyrstu sýn að minnsta kosti – einhver einfaldasti matur sem hægt er að hugsa sér: mjólk (eða vatn og mjólk), grjón, salt. Kannski rúsínur, og sumir setja sykur en ég hef alltaf látið nægja að strá kanilsykri yfir og núna duga rúsínurnar mér. Sulturinn gerir sætan graut, segir gamalt máltæki en mér finnst vel mega segja „suðan gerir sætan graut“ því að ef grauturinn er rétt soðinn kemur af honum sætur keimur.
En suðan hefur einmitt reynst mörgum vandamál. Mjólk hættir til að brenna við og þá verður grauturinn sangur, það kemur brunabragð af honum sem fáum líkar. Stundum brennur aðeins við á pottbotninum án þess að það hafi mikil áhrif á bragðið af grautnum en þó alltaf einhver og svo er vesen að þrífa pottinn. Suðan þarf að vera jöfn og mjög hæg og þetta hefur fólk reynt að leysa með ýmsu móti, til dæmis með því að taka pottinn af eldavélinni þegar grauturinn hefur soðið stutta stund og pakka honum inn í teppi eða sæng í nokkra klukkutíma.
En þegar ég prófaði að sjóða grautinn í lokuðum steypujárnspotti í ofni við vægan hita rann upp fyrir mér að það er líklega langbesta aðferðin og nú nota ég hana eingöngu. Grauturinn sér um sig sjálfur og brennur aldrei við botninn.
Þetta virkar vegna þess að mjólkin fer að brenna við 130°C og þá er galdurinn að hafa hitann lægri. Ef grauturinn brennur við í ofninum er líklegt að hitastillingin á ofninum sé ekki nógu nákvæm og þá er bara að hafa hitann aðeins vægari. Það er líka hægt að setja bara kalda mjólk og grjón í pottinn, setja beint í ofninn og hræra þá í á svona 20–30 mínútna fresti en það tekur mun lengri tíma en ef suðu er hleypt upp á grautnum áður en hann fer í ofninn.
Hitaðu ofninn í 120°C. Settu mjólkina í emaleraðan steypujárnspott og hitaðu hana rólega að suðu. Taktu pottinn af hitanum, helltu grjónunum rólega saman við og hrærðu á meðan. Settu lok á pottinn, settu hann í ofninn og láttu grautinn malla í um 1 klst.
Gott er að taka pottinn út einu sinni eða tvisvar og hræra í grautnum en það er þó ekki nauðsynlegt. Ef grjónin eru ekki soðin eða grauturinn þunnur eftir klukkutíma má hafa hann lengur í ofninum, þó ekki svo lengi að grjónin sjóði í mauk.
Saltaðu grautinn þegar um 10 mínútur eru eftir og hrærðu rúsínunum saman við, ef þær eru hafðar með.
(Hnausþykkur grautur en hvergi örlar á brúnni skán í botninum. Ef maður vill ekki hafa grautinn svona þykkan má nota aðeins meiri mjólk.)
Berðu grautinn fram með kanilsykri og mjólk. Einnig má nota hann í ris a l’amande.
Grjónagrautur í ofni
1,2 l mjólk (eða blanda af vatni og mjólk)
150 g grautargrjón
½ tsk salt, eða eftir smekk
60 g rúsínur (má sleppa)
[…] – keypt fyrir möndlugraut eða ris a […]