Ég eldaði kalkúnaleggi í kvöldmatinn. Fjóra hlussustóra, ég hélt að það yrði svo mikill afgangur að það yrði kalkúnaleggjakássa í ýmsum birtingarmyndum í matinn næstu viku en það var furðu lítið sem gekk af. Dugir ekki nema í tvo daga í mesta lagi.
Uppskriftin kemur mögulega seinna en hér er önnur kalkúnauppskrift og kannski heldur jólalegri, því að þetta er kalkúnabringa. Ég gerði þessa uppskrift upphaflega fyrir Kvennablaðið fyrir einhverjum árum.
Margir halda að kalkúnar hafi verið óþekktir hér á landi þar til bandaríski herinn kom hingað á stríðsárunum og flutti inn ómældar kalkúnabirgðir til að elda á þakkargjörðarhátíðinni og um jólin. Það er þó ekki alveg rétt. Það er meira að segja kalkúnauppskrift í elstu íslensku matreiðslubókinni, sem kom út árið 1800, en ekki er þó víst að hún hafi nokkurntíma verið notuð. En sjálfsagt hafa kalkúnar af og til verið fluttir hingað til lands á 19. öld og í blaðaauglýsingu frá 1896 eru kalkúnar taldir upp með fuglum og öðru kjötmeti sem Íshúsið tekur til geymslu. Á fyrri hluta 20. aldar voru einhverjir að feta sig áfram í kalkúnarækt og í desember 1934 auglýsir verslun í Reykjavík þá sem besta fáanlega jólamatinn.
Þótt ýmsir kunni nú að vera sammála því var eftirspurnin ekki mikil og það var ekki fyrr en um og upp úr 1980 sem kalkúnar fóru að verða algengur hátíðamatur hérlendis. Það er vissulega hátíðlegt að bera fram heilan kalkúna með öllu tilheyrandi en mörgum vex þó stærðin í augum – allra minnstu kalkúnar eru 4-5 kg og það hentar illa fyrir litlar fjölskyldur. Eldamennskan tekur líka langan tíma og getur verið fyrirhafnarsöm. Lærin þurfa í raun mun lengri tíma en bringan og það getur verið vandamál að hitta á að elda alla hluta fuglsins hæfilega.
En það getur líka verið hátíðlegt að bera fram kalkúnabringu og ein slík (eða öllu heldur hálf, þótt einnig sé hægt að elda heilt bringuskip) er einmitt hæfileg fyrir þriggja til fjögurra manna fjölskyldu. Hún er fljótelduð, að minnsta kosti miðað við heilan fugl, og það er hægt að setja fyllingu í hana ef maður vill. Og svo er þetta alls ekki dýr matur.
Þessi hér er fyllt með þurrkuðum ávöxtum og hnetum og það mætti nota aðrar tegundir en hér, allt eftir smekk. Svo stráði ég raspi á bringuna áður en hún fór í ofninn en það má líka t.d. pensla hana með sinnepi og strá kryddjurtum yfir eða vefja hráskinkusneiðum utan um hana.
Ég var með kalkúnabringu sem var um 1,2 kg, það er kappnóg fyrir fóra. Lét bringuna þiðna í ísskáp og tók hana úr kæli klukkutíma áður en hún átti að fara í ofninn svo að hún væri ekki ísköld. Hitaðuiofninn í 225°C.
Svo lagði ég bringuna á bretti og skar djúpan vasa í aðra hliðina á henni en gætti þess að skera ekki í gegn.
Ég setti svo 75 g af rjómaosti í skál, hrærði hann og kryddaði með pipar og salti. Saxaði hálfan lítinn rauðlauk og 75 g af þurrkuðum apríkósum smátt og grófsaxaði 50 g af pekanhnetum (eða valhnetum eða öðrum hnetum). Blandaði þessu saman við rjómaostinn, ásamt 40 g af þurrkuðum trönuberjum, blöðunum af nokkrum timjangreinum og lófafylli af saxaðri steinselju, setti fyllinguna inn í bringuna og lokaði fyrir með kjötprjónum eða tannstönglum.
Ég setti bringuna í eldfast mót og hellti 2 msk af olíu yfir.
Síðan blandaði ég saman 4-5 msk af brauðraspi og 2 msk af nýrifnum parmesanosti og kryddaði með pipar og salti. Stráði raspblöndunni jafnt yfir bringuna og setti hana í ofninn.
Eftir um 15 mínútur lækkaði ég hitann í 170°C. Steikti bringuna í 30-40 mínútur í viðbót, eða þar til kjöthitamælir sem stungið var í hana miðja (í fyllinguna) sýndi 75°C. Þá tók ég hana út og lét hana standa í nokkrar mínútur.
Bringuna má til dæmis bera fram með salati, steiktum kartöflumbátum, soðnum baunum eða öðru grænmeti og e.t.v. rauðkál og sveppasósu.
Eða bara með ofnsteiktu rótargrænmeti (hér með bökuðum rauðrófum og gulrótum og með epla- og fennikusalati.
Kalkúnabringa með ávöxtum og hnetum
1 kalkúnabringa, um 1200 g
75 g rjómaostur, mjúkur
pipar
salt
½ lítill rauðlaukur
75 g þurrkaðar apríkósur
50 g pekanhnetur
40 g þurrkuð trönuber
blöðin af nokkrum timjangreinum
lófafylli af steinselju, saxaðri
2 msk olía
4-5 msk brauðrasp
2 msk nýrifinn parmesanostur