Rótargrænmeti með steikinni

Rauðrófur eru hin mesta hollustufæða og meðal annars skilst mér að þær geti haft góð áhrif á blóðþrýstinginn. Ég er með of háan blóðþrýsting en það er nú ekkert þess vegna sem ég hef dálæti á rófum og þær rata ósjaldan á borðið hjá mér (það má finna ýmsar rauðrófuuppskriftir hér á blogginu). Mér þykja þær einfaldlega frekar góðar. Hið sama er þó ekki að segja um alla í minni fjölskyldu, enda eru rauðrófur ein þeirra grænmetistegunda sem fólk hefur gjarna sterkar skoðanir á …

En allavega, þótt rauðrófur séu að sumu leyti kannski dálítið hversdagslegt grænmeti – grófgert, svolítið rústik kannski, með moldarkenndu bragði, finnst sumum – þá geta þær átt mjög vel heima með hátíðamatnum og liturinn gerir þær reyndar frekar jólalegar. Hér eru þær ofnbkaðar með gulrótum og rauðlauk og bornar fram sem volgt salat og bragðbætt með gráðaosti eða fetaosti – mér fannst það eiga vel við en það má sleppa ostinum. Salatið er gott t.d. með svínasteik, fuglakjöti og raunar flestum steikum – eða bara eitt sér, t.d. með soðnu byggi eða hrísgrjónum.

Þegar ég gerði þetta – fyrir jólaþátt í MAN fyrir tveimur árum – þá vildi reyndar svo til að ég átti bakaða rauðrófuteninga úr öðru verkefni og notaði þá svo að þeir sjást ekki á myndunum (ekki nema náttúrlega af tilbúnu salatinu) en ég miða leiðbeiningarnar við að þeir séu bakaðir líka. Ég blanda þeim samt ekki saman við, þá yrði allt salatið rautt eða rauðflekkótt.

Svo að ég byrjaði á að hita ofninn í 220°C. Og ef ég hefði ekki átt bökuðu rauðrófurnar hefði ég byrjað á að taka 300 g af rauðrófum, flysja og skera í teninga, um 2 cm á kant. Ef maður vill ekki að allt verði rauðrófuflekkótt er gott að vera með hanska og leggja bökunarpappír eða álpappír á skurðarbrettið. Teningarnir eru svo settir á álpappírbút, 1 msk af ólífuolíu hellt jafnt yfir, kryddað með ögn af pipar og salti og álpappírinn brotinn utan um rauðrófubitana. Böggulinn má svo annaðhvort setja sér í lítið, eldfast mót eða setja hann í annan endann á stóru, eldföstu móti.

Ég tók svo einn rauðlauk, ekkert allt of stóran, og skar hann í geira. Ég vildi helst láta geirana haldast saman svo að ég stakk kjötnál (eða tannstöngli) í hvern þeirra. En það er í sjálfu sér ekkert nauðsynlegt.

_MG_2241

Ég var með litlar gulrætur (dverggulrætur), um 600 g. Það er heldur ekkert bráðnauðsynlegt að nota dverggulrætur, mér þóttu þær bara fallegri í þennan rétt. Það mætti alveg nota venjulegar gulrætur (í minni kantinum þó) og skera þær e.t.v. í tvennt. Annars skar ég sverari dverggulræturnar í tvennt eftir endilöngu. Setti svo rauðlauk og gulrætur í mótið ásamt nokkrum timjangreinunum (eða dálitlu þurrkuðu timjani), hellti 3 msk af olíu jafnt yfir, kryddaði með pipar og salti og setti formið (eða formin, ef tvö eru notuð) í ofninn á neðstu rim.

Ég bakaði þetta svo þar til grænmetið var meyrt og gulræturnar höfðu tekið góðan lit – það gæti tekið svona hálftíma. Hrærði gætilega í einu sinni eða tvisvar. Svo tók ég grænmetið út, opnaði rauðrófuböggulinn og lét mesta hitann rjúka úr. Fjarlægði timjangreinarnar (og tók nálarnar úr rauðlauknum, auðvitað).

_MG_2257

Ég setti svo lúkublöð að salatblöðum á fat og dreifði grænmetinu yfir. Dreypti svo olíu úr steikarfatinu yfir það. Svo muldi ég svona 40-50 g bita af gráðaosti (en það mætti líka nota fetaost, nú eða sleppa ostinum bara) yfir grænmetið og skreytti með steinselju.

_MG_2280

*

Bakaðar rauðrófur og gulrætur

300 g rauðrófur

1 lítill rauðlaukur

600 g gulrætur, litlar

4 msk ólífuolía

nokkrar timjangreinar eða ½ tsk þurrkað timjan

pipar

salt

lúkufylli af salatblöndu eða klettasalati

40-50 g biti af gráðaosti eða fetaosti

e.t.v. steinselja

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s