Súkkulaðigóðgæti

Það einfaldasta er oft best og hér er ein sönnun þess. Þetta er nefnilega afar einfaldur en um leið góður súkkulaðibúðingur – nógu góður til að vera jólaeftirréttur; punkturinn yfir i-ð í endann á góðri máltíð. Hann er bragðmikill og mér finnst best að hafa skammtana litla svo að þetta dugir í 8–10 espressobolla, en það má nota stærri skálar eða setja bara allt í eina skál. Það er gott að setua svolítinn líkjör út í til bragðbætis – eða dreypa á honum með, ásamt góðu kaffi. Uppskriftin birtist fyrst í nóvemberblaði MAN.

Ég byrjaði á að aðskilja fjögur egg. Setti rauðurnar til hliðar en þeytti hvíturnar þar til þær voru hálfstífar, blandaði þá 2 msk af sykri smátt og smátt saman við og þeytti áfram þar til komnir voru stífir toppar.

IMG_2509Svo braut ég 200 g af suðusúkkulaði í bita og setti í súkkulaðibræðslupottinn minn (eða í skál yfir vatnsbaði), ásamt 5 msk af heitu vatni og 1 msk af Amarula, af því að ég átti það nú til og vildi bragðbæta búðinginn ögn, en það má líka nota annan líkjör, t.d. Baileys eða sleppa því bara og nota aðeins meira vatn. Ég var með tvær mandarínur og reif börkinn af annarri þeirra yfir súkkulaðið (og hefði líka notað börkinn af helmingnum af hinni, ef ég hefði ekki verið með líkjörinn).

Svo bræddi ég súkkulaðið gætilega og hrærði oft í á meðan. Þá tók ég pottinn af hitanum, setti blönduna í hrærivélarskál (eða aðra skál) og þeytti eggjarauðunum saman við, einni í einu.

IMG_2519

Ég hrærði fjórðungi af stífþeyttu hvítunum saman við og blandaði svo afganginum gætilega saman við með sleikju.

Ég skipti svo búðingnum í bolla eða litlar skálar og setti í kæli í a.m.k. 2–3 klst., en má líka vera til næsta dags. Svo má líka setja allt í eina stóra skál.

IMG_2624

Skreyttu e.t.v. með fínrifnum mandarínuberki eða rifnu súkkulaði.

*

Mandarínu-súkkulaðibúðingur

fyrir 8–10

4 egg

2 msk sykur

200 g suðusúkkulaði

90 ml (6 msk) heitt vatn (eða 5 msk heitt vatn og 1 msk Amarula)

1–2 mandarínur (aðeins börkurinn notaður)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s