Hér er uppskrift að sultu eða mauki sem er gott eitt sér á brauð eða kex, svo og með ostum, en hentar líka vel með ýmsu kjöti og á vel heima á jólaborðinu. Líklega er annars réttara að kalla þetta mauk en sultu því hér er enginn viðbættur sykur og á móti sætunni úr gráfíkjunum og appelsínusafanum kemur dálítið balsamedik. Gráfíkjur, appelsína, timjan, balsamedik, kanell og salt, það er hráefnið í maukið. Enginn sykur semsagt (nema sá sem er í ávöxtunum, náttúrlega).
Úr þessu ætti að verða svona ein krukka. Maukið geymist í 1–2 vikur í kæli en annars er best að frysta það.
Ég var með 400 g af mjúkum gráfíkjum (hálfþurrkuðum). Byrjaði á að skera stilkana af þeim og saxaði þær svo gróft. Svo setti ég þær í pott, kreisti safann úr appelsínunni yfir (ef maður vill meira appelsínubragð mætti byrja á að fínrífa börkinn út í).
Svo bætti ég 3-4 msk af vatni og 1 msk af balsamediki í pottinn ásamt nokkrum timjangreinum, kanel á hnífsoddi og svolitlu salti. Hitaði að suðu og lét þetta malla undir loki í 10–15 mínútur, eða þar til gráfíkjurnar voru meyrar og mestallur vökvinn gufaður upp.
Ég lét maukið kólna í nokkrar mínútur. Veiddi svo timjangreinarnar upp úr en settu allt hitt úr pottinum í matvinnsluvél og maukaði vel. Setti síðan heita sultuna í krukku og lokaði. Ég lét hana kólna alveg og setti hana svo í ísskáp.
Þetta mauk er alveg ágætt. Það er að segja ef maður kann að meta gráfíkjur. Sem ég geri vissulega.
*
Gráfíkjumauk
400 g gráfíkjur
safi úr 1 appelsínu
3–4 msk vatn
1 msk balsamedik
nokkrar timjangreinar
kanell á hnífsoddi
salt á hnífsoddi