Er þetta súkkulaði?

Er hvítt súkkulaði annars nokkuð súkkulaði? Nei, eiginlega ekki – að minnsta kosti fellur það ekki undir skilgreiningu á súkkulaði í mörgum löndum, vegna þess að það inniheldur engan kakómassa (cocoa solids). Ef það er „ekta“ inniheldur það hins vegar kakósmjör, fituna úr kakóbaununum. Ódýrari tegundir gera það ekki einu sinni, heldur er notuð önnur juftafita eða mjólkurfita. Auk þess eru í hvíta súkkulaðinu mjólkurefni, sykur, lesitín (ýruefni til að halda því saman) og bragðefni, oftast vanilla. Stundum ekki einu sinni ekta vanilla, heldur vanilín.

Það lyktar ekki eins og súkkulaði og það er lítið sem ekkert súkkulaðibragð af því; súkkulaðibragðið kemur nefnilega ekki úr kakósmjörinu, heldur úr kakómassanum. Gott (ekta) hvítt súkkulaði getur samt bragðast ágætlega – eða fellur a.m.k. vel að smekk sumra, en laaaangt frá því allra – en ódýrari tegundir af hvítu súkkulaði eru sjaldnast vel ætar. Svo er líka hægt að gera sitt eigið hvítt súkkulaði með því að bræða saman kakósmjör, mjólkurduft, sykur og kannski ögn af vanillu.

Hvers vegna köllum við það þá súkkulaði? Kannski bara „i mangel af bedre“ – það ætti sennilega að heita eitthvað allt annað. En ætli því verði nú breytt héðan af …

Hvítt „súkkulaði“ sem sagt. Það er því býsna ólíkt súkkulaði og alls ekki hægt að nota það að öllu leyti eins og dökkt súkkulaði þótt sumt gangi alveg. En það passar samt alveg ágætlega í suma ábætisrétti og kökur – þótt súkkulaðibragðið vanti. Það er til dæmis bara alveg ágætt í þessari böku hér. Mér finnst hindber og hvítt „súkkulaði“ eiga sérlega vel saman. Það má bæta dálitlum sykri í fyllinguna en ekki gera það nema smakka fyrst – mörgum finnst hún alveg nógu sæt án þess.

Botninn í bökunni er aðallega úr múslíi eða granóla; ég notaði heimagerða granólablöndu en það má nota hvaða blöndu sem er, mér þykir reyndar betra að ekki séu rúsínur eða aðrir þurrkaðir ávextir í henni en það er smekksatriði. Ég bætti líka við 50 g af valhnetum og byrjaði á að grófmala þær  í matvinnsluvél. Svo blandaði ég múslí- eða granólablöndunni og 75 g af linu smjöri saman við.

_MG_3740

Blandan ætti að vera einhvernveginn svona – nógu blaut til að klessast saman en ekki löðrandi í smjöri.

Ég hellti svo blöndunni í bökuform, dreifði úr henni og þrýsti henni upp með hliðunum og niður á botninn. Það gerir ekkert til þótt sumstaðar séu göt. Svo kældi ég bökuskelina.

_MG_3748

Þá var það fyllingin: Ég byrjaði á að taka 3 matarlímsblöð og leggja þau í bleyti í kalt vatn smástund. Svo setti ég 250 ml af rjóma og 170 g af hvítu súkkulaði (og ég er að tala um alminlega sort sem inniheldur kakósmjör en ekki t.d. einhverja óskilgreinda jurtafeiti) í pott, hitaði rólega og hrærði þar til súkkulaðið var bráðið. Um að gera að hafa hitann vægan og fara gætilega, hvítu súkkulaði hættir meira við að brenna eða hlaupa í kekki en alvörusúkkulaði. Þegar blandan var orðin slétt tók ég pottinn af hitanum, kreisti vatnið úr matarlíminu, setti það í pottinn og hrærði þar til það var bráðið.

_MG_3751

Þá hellti ég blöndunni í skál og lét hana kólna þar til hún var ylvolg (en ekki köld, þá stífnar matarlímið). Þá hrærði ég 300 g af grískri jógúrt saman við. Reyndar mætti líka nota hreint skyr eða vanilluskyr, eða blöndu af mascarponeosti og sýrðum rjóma. Á þessu stigi mætti smakka og bragðbæta með svolitlum sykri ef manni finnst þess þurfa. Allavega ef notað er skyr. Ég tók svo bökuskelina úr ísskápnum, hellti súkkulaði-jógúrtblöndunni í hana og kældi síðan bökuna.

Svo raðaði ég svona 200 g af hindberjum ofan á þegar fyllingin var byrjuð að stífna aðeins og skreytti með söxuðu hvítu súkkulaði (það voru 30 g afgangs) og e.t.v. mintulaufi. Svona til að fá eitthvað grænt upp á punt en það er ekkert nauðsynlegt samt._MG_4066

Ég bara treysti því að smakkararnir mínir hafi engu logið þegar þeir sögðu að þetta væri aldeilis ágætt.

*

Hindberja-hvítsúkkulaðibaka

50 g valhnetur

200 g góð múslí- eða granólablanda

75 g smjör, lint

3 matarlímsblöð

250 ml rjómi

200 g hvítt súkkulaði

300 g grísk jógúrt

e.t.v. svolítill sykur

200 g  hindber

e.t.v. mintulauf

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s