Ég held ég hafi áður – en líklega ekki á þessum vettvangi – sagt sögu sem kona sem ég kannast við sagði mér einu sinni. Fyrstu jólin sem hún eldaði sjálf vantaði hana uppskrift að salati með hamborgarhryggnum, leitaði til frænku sinnar og fékk hjá henni uppskrift. Hún gerði þetta salat á jólunum, fannst það ágætt og sambýlismaður hennar hrósaði því í hástert. Svo að hún gerði það aftur næstu jól og þarnæstu og þarnæstu, það varð partur af fastri eldamennsku á jóladag og þegar börnin stálpuðust fóru þau að spyrja „ætlarðu ekki að gera bleika salatið, mamma?“ Og mamma gerði bleika salatið; hún var satt að segja orðin svolítið leið á því sjálf en gerði það fyrir fjölskylduna af því að þetta var partur af jólunum þeirra. Og hún var ekkert að nefna aðra möguleika. Hefðir eru jú hefðir.
En svo var það einhverntíma, þegar börnin voru öll orðin fullorðin og jafnvel komin tengdabörn við jólaborðið, að mamman áræddi að spyrja, þegar allir voru í sunnudagskaffi og verið að tala um jólin: „Hvernig þætti ykkur ef ég gerði eitthvert annað salat í staðinn fyrir það bleika?“ Það kom skrítinn svipur á börnin og þau játuðu eitt af öðru að þau væru reyndar ekkert sérlega hrifin af þessu salati, ekki lengur að minnsta kosti – og eiginmaðurinn laumaði að lokum út úr sér að honum hefði nú satt að segja aldrei þótt það neitt sérstakt, hefði bara sagt það í upphafi til að gleðja hana. Það fannst semsagt engum neitt sérlega mikið varið í salatið þótt allir létu sem svo væri.
Það var ekkert bleikt salat á jólaborðinu þetta aðfangadagskvöld (og aldrei síðan). En mér skildist að sumir hefðu nú saknað þess pínulítið – ekki bragðsins vegna þó, það var bara partur af hefðinni. En það komu þá nýjar hefðir í staðinn …
Svona er þetta stundum, fólk getur verið of fast í hefðunum (þótt margt gott sé um hefðir að segja). En oft er nú auðveldara að breyta til í salötum og öðru meðlæti, fremur en kannski aðalréttinum. Og hér er til dæmis epla- og fennikusalat sem er frísklegt og gott og sérlega hátíðlegt. Mér finnst það passa einkar vel með svínakjöti en reyndar líka t.d. með kalkúna eða önd. Og ýmsu öðru.
Ég notaði þrjú epli, stórt grænt, meðalstórt ljósrautt og lítið dökkrautt epli. Auðvitað má líka bara blanda öllu saman í skál en þá er betra að skera eplin í helminga eða fjórðunga áður en þau eru sneidd niður. Ég byrjaði á að taka eplin, skera af þeim bláendana og stinga kjarnann úr þeim. Best er að nota kjarnstungujárn en ef það er ekki til er kannski betra að sneiða eplin niður fyrst og kjarnhreinsa þau svo.
Ég kreisti safa úr einni sítrónu í skál. Skar svo hvert epli um sig í mjög þunnar sneiðar með mandólíni, ef það er til, eða með beittum hníf og velti þeim vel upp úr sítrónusafanum en hélt hverri tegund sér; tók þær upp úr safanum og setti á disk.
Ég skar svo rótarendann af fennikunni og skar hana líka í mjög þunnar ræmur/sneiðar.
Ég átti til ávaxta-smoothie (Froosh) og setti 3 msk af honum út í skálina með sítrónusafanum (en það má líka nota t.d. eplasafa). Hrærði svo saman við þetta 2 msk af eplaediki, 2 msk af ólífuolíu, pipar og salti. Velti fennikuræmunum upp úr leginum og tók þær svo upp úr og setti þær á disk.
Ég velti svo sneiðunum af stærsta eplinu upp úr leginum og staflaði þeim í 3-4 óreglulega stafla á fat.
Svo setti ég dálítið af fennikuræmunum ofan á, ásamt 1-2 dillkvistum.
Síðan tók ég næsta epli, velti sneiðunum upp úr leginum og staflaði þeim ofan á og síðan fenniku og dilli. Að lokum gerði ég eins við minnsta eplið.
Svo dreifði ég dillkvistum í kringum epla-fennikustaflana og stráði svo muldum pekan- eða valhnetum og dálitlu af granateplafræjum yfir (þarf ekki en gerir mikið fyrir útlitið).
Er þetta ekki bara soldið jólalegt? (Bara að það verði ekki að jólahefð sem enginn kann í raun og veru að meta.)
*
Epla- og fennikusalat
meðlæti fyrir 4-6
3 epli, gjarna þrenns konar og misstór
safi úr 1 sítrónu
1 fennika, frekar lítil
2 msk eplaedik
3 msk ávaxtamauk (smoothie) eða eplasafi
2 msk ólífuolía
hvítur pipar
salt
dillknippi
nokkrar pekan- eða valhnetur, grófmuldar
fræ úr 1/2 granatepli (má sleppa)
[…] Eða bara með ofnsteiktu rótargrænmeti (hér með bökuðum rauðrófum og gulrótum og með epla- og fennikusalati. […]