Meira jólameðlæti, er það ekki bara? Ég veit reyndar ekki hvaða skoðun þið kunnið að hafa á rósakáli, það er ein þessara grænmetistegunda sem fólk hefur gjarna sterkar skoðanir á í aðrahvora áttina. En þetta er uppskrift sem ég gerði fyrir jólaþátt í MAN fyrir tveimur árum, hún stendur fyrir sínu.
Rósakál er vetrargrænmeti, upp á sitt besta um jólaleytið og í Bretlandi þykir mörgum það ómissandi hluti af jólamáltíðinni. Þótt ekki kunni allir að meta það getur það verið mjög gott ef þess er gætt að ofelda það ekki því þá hættir því til að verða beiskt á bragðið. Mér finnst mjög gott að forsjóða það og steikja svo á pönnu með möndlum, og þannig er þessi uppskrift einmitt.
Rósakálið er til dæmis gott með svínasteik, kalkúna eða lambakjöti. Þar sem gera má ráð fyrir að ýmislegt annað meðlæti sé haft með ætti þetta alveg að duga fyrir 6-8 manns.
Ég byrjaði á að taka svona 50 g af möndlum, heilum en án hýðis. Skar þær í tvennt (flestar allavega) og ristaði þær á þurri pönnu við meðalhita í nokkrar mínútur, eða þar til þær voru farnar að taka lit en ekki brenna. Hristi pönnuna oft á meðan. Svo hellti ég möndlunum á disk og lét þær kólna.
Svo tók ég 500 g af rósakáli og snyrti það; skar þunna sneið neðan af stilknum og hreinsaði burt sölnuð blöð. Sauð svo kálið í saltvatni í 4-5 mínútur. Síðan hellti ég kálinu í sigti og lét kalt vatn buna á það smástund til að stöðva suðuna og kæla það ögn. Skar svo rósakálshausana í tvennt.
Ég saxaði svo hálfan rauðlauk og einn hvítlauksgeira. Bræddi 60 g af smjöri á pönnu og lét lauk og hvítlauk krauma í smjörinu við meðalhita í 2-3 mínútur. Þá setti ég rósakálið á pönnuna og steikti það við meðalhita í nokkar mínútur, eða þar til það var byrjað að taka lit og var orðið næstum meyrt. Það má prófa það með því að stinga í það hnífsoddi. Þá hrærði ég möndlunum saman við.
Svo kreisti ég safa úr hálfri sítrónu yfir og kryddaði með pipar og salti eftir þörfum.
Síðan hellti ég rósakálinu á disk og bar það fram.
*
Rósakál með möndlum
50 g möndlur, heilar en afhýddar
500 g rósakál
salt
1/2 rauðlaukur
1 hvítlauksgeiri
60 g smjör
1/2 sítróna