Trifli (eða triffli eða trifl) er einn af þessum gömlu, söguríku eftirréttum sem eru hálfpartinn fallnir í gleymsku, að minnsta kosti undir því nafni, þótt í mörgum fjölskyldum muni fólk eftir sérrítriflinu hennar ömmu – eða búi það kannsi enn til á jólunum. En trifli er til í mörgum myndum og það þarf ekkert endilega að vera sérrí …
Vinafólk mitt, Alan Davidson og Helen Saberi, skrifuðu fyrir mörgum árum litla bók um trifli, sögu réttarins og alls konar útfærslur í ýmsum löndum. Þar kemur fram að fyrstu trifliuppskriftirnar birtust á prenti árið 1751, annars vegar í bók sem breska matargerðarkonan Hannah Glasse tók saman, og hins vegar í safnritinu The Lady’s Companion. Óvíst er hvor uppskriftin er eldri en rétturinn virðist allavega hafa slegið rækilega í gegn því ekki leið á löngu þar til engin bresk matreiðslubók var án trifliuppskrifta, sem þróðuðust þó og breyttust á ýmsan hátt.
Rétturinn var þó alltaf í lögum og neðst voru kökumolar, makrónur, fingurkex eða annar sætur kökumulningur, bleyttur upp (yfirleitt með víni en stundum ávaxtasafa eða -mauki), þá eggjabúðingur (custard) og síðan þeyttur rjómi eða bragðbætt rjómafroða (syllabub) og þetta svo skreytt á ýmsa vegu. Undir lok 19. aldar var kökubotninn gjarna bleyttur með „as much sherry as it will absorb“, þar ofan á kom sulta eða ávaxtamauk, svo eggjabúðingur og síðan þeyttur rjómi. Þannig var trifliuppskrift Helgu Sigurðardóttur, sem ég þýddi fyrir Alan og Helen og þau birtu í bók sinni, en sérkenni þeirrar uppskriftar er að þar er notuð rabarbarasulta. Nú eru líka til alls konar nútímaleg afbrigði af trifli; sum innihalda alls konar ferska ávexti og ber og í mörgum er eggjabúðingnum sleppt.
Þeir ættingjar triflis sem flestir þekkja eru þó annars vegar ítalski rétturinn tiramisú, þar sem kaffi kemur í staðinn fyrir vínið og mascarponeostur í staðinn fyrir eggjabúðing, og svo alls konar samsetningur af því tagi sem gengur gjarna undir nöfnum eins og nammibomba eða eitthvað ámóta, þar sem möndlumakrónur eru grófmuldar og bleyttar með sérríi eða öðru, berjum, ávöxtum, hnetum og rifnu súkkulaði eða ýmsum sælgætismolum dreift yfir og allt svo þakið með þeyttum rjóma og skreytt t.d. með berjum og súkkulaði eða sælgætismolum. Þetta er hálfgert trifli en er þó sjaldan kallað því nafni.
Þetta hér er aftur á móti trifli – en að vísu nútímaleg útgáfa. Ekkert sérrí og enginn eggjabúðingur, heldur þynnt jarðarberjasulta og blanda af mascarponeosti, sýrðum rjóma og döðlum. Döðlurnar koma í stað sykurs. Það er svo að ég (og aðrir sem sneiða sem mest hjá sykri, nema í náttúrulegu formi) geti fengið sér smávegis af triflinu. Þá þarf bara að passa að fara ekki með skeiðina alveg niður á botn í skálinni því að kexið er sætt og sultan auðvitað líka, nema maður noti sykurlausa sultu.
Skálin, vel á minnst. Ég hef nú einhverntíma gefið yfirlýsingu um að alminleg trifliskál eigi að vera til á hverju menningarheimili en það eru smáýkjur. Hitt er annað mál að djúp glerskál hentar best fyrir trifli en það má auðvitað nota hvaða skál sem er. Það nýtur sín samt best í gleri. Þetta er frekar stór skammtur, ætti að duga fyrir 8 eða svo.
Ég byrjaði á að taka einn pakka af fingurkexi (ladyfingers) en það má líka nota möndlumakrónur eða svamptertubotn. Reyndar myndi ég kjósa tertubotninn (rifinn í bita) fremur en makrónukökurnar, finnst þær of sætar. Eða fannst það áður en ég hætti að borða sykur … Ég raðaði fingurkexinu á botninn á fallegri skál. Ef skálin er lítil er lagið haft tvöfalt.
Svo setti ég 100 ml af jarðarberjasultu (ég var með Dalfour) og 100 ml af vatni í lítinn pott, hitaði og hrærði saman (það má nota hvítvín í staðinn fyrir vatn ef maður er í þannig skapi, ég var það ekki) og dreypti blöndunni jafnt yfir kexið til að bleyta í því.
Ég var með jarðarber, svona 400-500 g (ekki svo nauið). Tók nokkur ber frá til að setja ofan á en skipti hinum í tvennt og skar þau í sneiðar. Dreifði öðrum helmingnum ofan á kexið,
Síðan vigtaði ég 150 g af döðlum, tók steinana úr þeim og setti þær í matvinnsluvélina ásamt 250 g af mascarponeosti og 200 ml af sýrðum rjóma. 18%; reyndar var ég meðd 36% rjóma þegar ég gerði þetta og hann er bestur en nú er hann ekki til lengur svo að 18% verður að duga. Hrærði þetta vel saman, þar til blandan var alveg slétt, og bragðbætti með 1 tsk af vanilluessens. Það má líka sleppa döðlunum en nota í staðinn sykur eftir smekk. Ég setti svo mascarponekremið ofan á jarðarberin og sléttaði dálítið úr því.
Svo setti ég hinn helminginn af berjunum þar ofan á. Stífþeytti svo 250 ml af rjóma og dreifði yfir.
Að lokum skreytti ég triflið með fráteknu berjunum og kældi það í ísskáp.
*
Jarðarberjatrifli
1 pakki fingurkex (ladyfingers) – einnig má nota makrónukökur eða bara svamptertubotn
100 ml jarðarberjasulta
100 ml vatn
150 g döðlur
250 g mascarponeostur, mjúkur
200 g sýrður rjómi
1 tsk vanilluessens
400-500 g jarðarber
250 ml rjómi