Rósabaka

Ég held ég hafi sagt um daginn að nú færi ég að koma með eitthvað af jólauppskriftum, kominn tími til. En það þýðir ekki bara steikur og sætmeti og svoleiðis, þótt það sé kannski uppistaðan í hefðbundnum jólamat. Bæði er nú ýmislegt annað sem fer á jólaborðið og svo er líka hægt að hafa ýmislegt annað, ef maður er til í að bregða út af hefðunum.

Ég elda ekki jólamat þessi árin (ekki um jólin, en ég geri það stundum á öðrum tímum fyrir myndatökur) en var einmitt að hugsa um það fyrir nokkrum dögum hvað ég myndi nú hafa í jólamatinn ef ég fengi að ráða. Það er að segja, ef ég væri bara að elda fyrir mig.   Og komst reyndar að þeirri niðurstöðu að ég myndi líklega elda mér fisk. Kannski lúðu eða skötusel eða bara steinbít. Nú, eða rækjur eða hörpuskel. Ég veit ekki hvað ég myndi gera við þetta en það er ekki vandamál, það er ótrúlega auðvelt að gera flotta rétti úr fiski. Og auðvelt að elda fisk fyrir einn.

Það getur verið mera vandamál með grænmetisrétti – það er að segja, að elda litla rétti sem eru góðir en líta um leið fallega út og henta á hátíðarborðið. Þetta gildir hvort sem maður borðar nú einn eða er með eina eða tvær grænmetisætur í fjölskyldunni sem maður vill að fái kannski eitthvað annað en upphitað linsubaunabuff eða grænmetiskássu eða míní-hnetusteik, þótt þetta geti nú allt verið ágætt.

Í hitteðfyrra gerði ég þessa grænmetisböku fyrir jólablað MAN; mér finnst hún líta vel út og hún var alveg ljómandi góð. Og kosturinn er að það er  jafnvel hægt að útbúa hana með fyrirvara og hita upp svo ekki þurfi að gera allt á síðustu stundu, jafnhliða jólasteikinni og meðlætinu. Hún er ekki vegan, það eru bæði egg og ostur í henni (já, og smjördeig), en það má nú kannski gera einhverja útfærslu sem hentar fyrir grænkera.

Grænmetisrósirnar gefa bökunni skemmtilegan svip og fallegast er að hafa þær fjölbreyttar og í ýmsum litum. Nota má ýmislegt grænmeti sem hentar til að skera í lengjur og vefja upp – aðalvandinn er að skera það nógu þunnt. Auðvitað má hafa bökuna eins stóra og hver vill, bæta þá bara við fleiri grænmetisrósum og tvö- eða þrefalda fyllinguna sem sett er á botninn. Magnið hér miðast við litla böku, 15-18 cm í þvermál.

Ég byrjaði á að búa til bökuskelina. Hitaði ofninn í 200°C. Ég var með ófrosið, upprúllað smjördeig sem (stundum) er hægt að kaupa en það má líka nota frosnar smjördeigsplötur úr pakka; það þarf þá að láta þær þiðna, leggja þær svo á vinnuborð og láta þær skarast, þrýsta brúnunum saman með fingurgómunum og fletja deigið út, hæfilega stórt til að þekja bökumótið sem nota á. Ég lagði það yfir mótið, þrýsti því létt niður og snyrti brúnirnar. Lagði svo bökunarpappírsörk yfir deigið í mótinu, setti farg ofan á (ég á sérstakar leirkúlur til þess en það má nota t.d. hrísgrjón eða þurrkaðar baunir) og bakaði skelina í 15 mínútur. Þá tók ég bökuskelina út og fjarlægði pappírinn með farginu.

Svo tók ég grænmetið sem ég ætlaði að nota – gulrætur, kúrbít, sætar kartöflur og nípur (parsnips) og skar það í þunnar, langar ræmur. Ég notaði ostaskera en það má líka nota flysjunarjárn. Eða hníf, ef maður treystir sér til að skera grænmetið nógu þunnt.

_MG_2251

Ég hrærði svo saman 75 g af mjúkum rjómaosti, 1 egg, 3 msk af nýrifnum parmesanosti, blöð af 2-3 timjangreinum (eða svona 1/2 tsk af þurrkuðu timjani, en ferskt er mun betra hér), pipar og salt, þar til blandan var slétt. Hellti henni í bökuskelina. Svo rúllaði ég grænmetisræmunum upp í vefjur eða rósir – það gæti verið hæfilegt að nota 2-3 ræmur í hverja vefju. Ef þarf má stinga í þær tannstönglum til að þær haldist upprúllaðar þar til komnar eru nógu margar til að þær styðji hver við aðra og haldi lögun.

_MG_2252

Ég raðaði grænmetisrósunum nokkuð þétt ofan á (maður býr bara til fleiri eftir þörfum) og penslaði yfir þær með olíu.

_MG_2293Svo tók ég álpappírsbút, nokkru stærri en formið, setti það á hann og braut pappírinn upp með hliðunum og aðeins inn yfir deigbrúnirnar, svo að þær brynnu ekki við seinni baksturinn. Ég stakk bökunni svo í miðjan ofninn og bakaði hana í 30-35 mínútur, eða þar til grænmetið var meyrt og farið að taka lit og ostafyllingin hafði stífnað.

_MG_2314

Það er alveg hægt að bera bökuna bara fram svona og hafa bara t.d. salat með en ég vildi gera aðeins meira svo að ég útbjó meðlæti á meðan bakan var í ofninum: tók eina dós af kjúklingabaunum og hellti leginum af þeim í sigti. Svo tók ég nokkur grænkálsblöð, skar stilkana úr þeim og skar þau í ræmur. Hitaði 2 msk af ólífuolíu á pönnu og steikti baunirnar í nokkar mínútur. Bætti þá grænkáli, 2 msk af kasjúhnetum, 1/2 tsk af óreganói, ögn af chiliflögum, pipar og salti á pönnuna og steikti áfram smástund, eða þar til grænkálið var farið að verða stökkt. Hrærði oft á meðan.

Svo losaði ég bökuna gætilega úr forminu, setti hana á kringlótt fat og dreifði baunum og grænkáli í kring.

_MG_2353 (3)

Annars má líka bera bökuna fram sér á diski og setja baunablönduna bara í skál og bera með.

*

Grænmetisrósabaka með kjúklingabaunum og grænkáli

aðalréttur fyrir 1-2

1 rúlla smjördeig (eða 1 pk frosið deig)

kúrbítur

gulrætur

sæt kartafla

nípur (parsnips) eða annað hentugt grænmeti

75 g rjómaostur, mjúkur

1 egg

3 msk nýrifinn parmesanostur

blöð af 2-3 timjangreinum

pipar

salt

olía til penslunar

*

Steiktar kjúklingabaunir og grænkál

1 dós kjúklingabaunir

nokkur grænkálsblöð

2 msk ólífuolía

2 msk kasjúhnetur

1/2 tsk óreganó, þurrkað

nokkrar chiliflögur, muldar, eða cayennepipar á hnífsoddi

pipar

salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s