Kjúklingur á jólaföstu

Ég er búin að vera að elda töluvert af fuglakjöti af ýmsu tagi að undanförnu, bæði fyrir sjálfa mig (og gesti) og fyrir myndatökur fyrir ýmis blöð og tímarit – heilar endur, andabringur, andalæri, kalkúnabringur, kalkúnaleggi, akurhænur, skoskar rjúpur, gæsabringur og eitthvað fleira – en eiginlega engan kjúkling. Sem gefur nú kannski dálítið skakka mynd því auðvitað eldar maður oftar kjúkling en hinn fiðurfénaðinn.

Ég elda reyndar ekkert oft heilan kjúkling, enda er ég yfirleitt að elda fyrir einn eða tvo og þótt ég þekki ansi margar aðferðir til að nýta afganga af steiktum kjúklingi finnst mér yfirleitt ekki mikið varið í að borða kjúkling marga daga í röð. Samt finnst mér nýsteiktur, heill kjúklingur eiginlega bestur – betri en bringur, eða læri, eða leggir. Það er að segja ef hann er vel steiktur, safaríkur en ekki þurr, og hamurinn stökkur og góður.

Hér er kjúklingur sem ég gerði fyrir MAN snemma á árinu. Hann uppfyllir alveg þessi skilyrði og mér finnst hann eiga afskaplega vel við á köldum vetrardegi. Meðlætið er líka svolítið óvenjulegt – maður fær alls konar rótargrænmeti með kjúklingi en gulrófur eru þó ekki algengar. Mér fannst þær koma mjög vel út hér og þær eru ekta vetrargrænmeti en þeir sem líst ekkert á rófur gætu notað annað í staðinn, t.d. butternut-grasker, nípur eða sætar kartöflur.

Þetta var vænn og bústinn kjúklingur, um 1,7 kg. Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og hita hann í 225°C. Svo kryddaði ég kjúklinginn að innan og utan með pipar og salti og stakk nokkrum sítrónubátum inn í hann.

_MG_3414

Ég hellti svolítilli olíu í stórt, eldfast mót (eða ofnskúffu), setti kjúklinginn í það og kreisti dálítinn sítrónusafa yfir hann. Ýrði svolítilli olíu á kjuklinginn, stráði 1/2 tsk af þurrkuðu timjani yfir, setti fatið í ofninn og steikti í 30 mínútur. Þá tók ég fatið út úr ofninum.

_MG_3417Ég var búin að flysja 1 kg af gulrófum og skera þær  í bita, 3-4 cm á kant. Svo blandaði ég saman í skál dálítilli olíu (2-3 msk), 1/2 tsk af þurrkuðu timjani, söxuðum nálum af 2-3 rósmaríngreinum (ef þær eru ekki til má t.d. nota meira timjan), pipar og salti og velti rófuteningunum upp úr blöndunni. Ég dreifði þeim svo í kringum kjúklinginn, lækkaði hitann í 190°C og steikti í um 30 mínútur í viðbót, eða þar til kjúklingurinn var rétt steiktur í gegn og tær safi rann út þegar prjóni var stungið í lærið þar sem það er þykkast.

Þá tók ég kjúklinginn út, setti hann á fat og hélt honum heitum. Dreifði 250 g af sveppum, sem ég var búin að skera í tvennt, í fatið með rófunum og steikti í 10-15 mínútur í viðbót.

_MG_3549

Ég dreifði svo gulrótum og sveppum í kringum kjúklinginn á fatinu, hellti soði úr fatinu (ef eitthvað er) yfir fuglinn og stráði dálítilli steinselju yfir (má sleppa en það er bara svo fallegt að hafa svolítið grænt með).

_MG_3586

Steiktur kjúklingur með gulrófum og sveppum

1 kjúklingur, 1,6-1,8 kg

salt og pipar

1 sítróna

4 msk olía

1 tsk timjan, þurrkað

1 kg gulrófur

2-3 rósmaríngreinar (má sleppa)

250 g sveppir, skornir í tvennt

steinselja, flatblaða (má sleppa)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s