Dagurinn í dag er svolítið merkilegur fyrir mig því að einmitt í dag eru fimmtíu ár síðan ég hætti að vera sveitastelpa, flutti úr Blönduhlíðinni þar sem ég átti heima þar til ég var tæpra ellefu ára og á Sauðárkrók. Fór að ganga í skóla í fyrsta skipti á ævinni, umgangast jafnaldra mína (aðra en systkinin) – sem var eitthvað sem ég kunni alls ekki – hvarf úr því að lifa að minnsta kosti að hálfu leyti í eigin hugarheimi og ímyndunum og fantasíum yfir í raunveruleikann. Það var áfall og ég er ekki viss um að ég sé búin að ná mér af því ennþá.
En þetta var líka afmælisdagurinn hennar mömmu. Og þetta er afmælisdagur dótturdóttur minnar, dagurinn þegar ég varð amma. Það eru 24 ár síðan og mér hefur held ég gengið mun betur að venjast ömmuhlutverkinu en flutningnum á mölina. Ég er að minnsta kosti alveg ágæt amma, er mér sagt.
Hér áður fyrr kom dótturdóttirin oft í mat til mín á afmælisdaginn sinn ásamt fjölskyldunni og mátti velja matseðilinn og það brást ekki – hver sem aðalrétturinn var – að hún valdi sér brúnaðar kartöflur með. Þótt það væri hangikjöt í matinn. Eitt árið pantaði hún meira að segja – og fékk – bjúgu með brúnuðum kartöflum. Svona er ég góð amma.
En hún er hætt að koma í mat á afmælinu og þess vegna voru engar brúnaðar kartöflur í matinn – reyndar eldaði ég ekkert í kvöld því ég fór í útgáfuboð og borðaði töluvert af pinnamat og svo var ég boðin heim til fólks og fékk þar osta og síld með rúgbrauði, sem ég kann vel að meta, svo að það var ekki þörf á neinum kvöldmat. Svo að það verður að segjast að uppskriftin sem hér kemur hefur bara ekkert með afmælið hennar Heklu að gera og heldur ekki flutninginn eða neitt annað sem gerðist þennan dag. Nema hvað jólin eru að nálgast og þetta er ögn jólalegur eftirréttur. Sem á þó við á öðrum tímum líka, að minnsta kosti á veturna. Hann er svolítið svoleiðis.
Þetta eru semsagt rauðvínssoðnar perur, Perur soðnar í rauðvíni eru kannski ekki beint hollusturéttur, og þó … Yfirleitt eru þær soðnar í sykruðu rauðvíni en ég setti sykurinn ekki út í fyrr en ég hafði tekið perurnar upp úr og bar svo sírópið fram með; þá geta þeir sem vilja forðast sykur (til dæmis ég) sleppt því.
Uppskriftin er fyrir sex af því að ég var með sex perur, litlar, en ef maður fær bara stórar perur gæti hálf pera á mann dugað. Best er að þær séu fremur harðar, ekki þó grjótharðar.
Ég byrjaði á að flysja perurnar en skildi stilkana eftir. Mér finnst best að nota flysjunarjárn en það má auðvitað bara nota hníf.
Svo skar ég mjóa sneið neðan af hverri peru og kjarnhreinsaði þær neðan frá með kúlujárni (melónujárni) en það má líka nota teskeið eða bara hníf.
Ég setti svo perurnar í pott, sem best er að sé rétt hæfilega stór til að rúma þær. Bætti svo við einni kanilstöng og 2-3 negulnöglum og skar tvær ræmur af sítrónuberki (gula börkinn) og setti út í. Svo hellti ég hálfum lítra af rauðvíni yfir og bætti við nægilega miklu vatni til að rétt flaut yfir perurnar (þess vegna er best að potturinn sé ekki of stór því þá þarf að þynna rauðvínið óþarflega mikið meðt vatni).
Svo klippti ég út hring úr bökunarpappír og lagði ofan á yfirborðið til að halda perunum niðri. Hitaði þetta að suðu og lét malla rólega í um 40 mínútur.
Þá tók ég perurnar upp úr og lét þær kólna.
Síaði vínlöginn og setti hann svo aftur í pottinn, setti 150 g af sykri út í, hækkaði hitann og lét sjóða rösklega þar til lögurinn fór að þykkna. Lét sírópið kólna aðeins.
Svo tók ég sýrðan rjóma (mætti líka vera t.d. grísk jógúrt blönduð þeyttum rjóma) og setti á diska. Setti eina peru ofan á og dreypti sírópi yfir. Bar svo afganginn af sírópinu fram með. Það má líka sleppa rjómanum/jógúrtinni og þá hentar rétturinn fyrir grænkera.
*
Rauðvínssoðnar perur
6 litlar perur, helst fremur harðar
500 ml rauðvín
vatn ef þarf
1 kanilstöng
2-3 negulnaglar
2 ræmur af sítrónuberki
125 g sykur
sýrður rjómi eða grísk jógúrt