Sko, ég veit satt að segja ekki hvort spaghettíkúrbítur (spaghetti squash) fæst akkúrat núna; en hann er stundum til og ég á til þessa uppskrift, sem ég gerði um þetta leyti í fyrra, þegar ég setti saman eitthvað um grænmetisrétti sem hentuðu vel um hátíðarnar fyrir MAN. Svo að ég set hann hér ef spaghettíkúrbítur skyldi nú fást einhvers staðar eða verður til á næstunni.
Þetta er skemmtilegt grænmeti sem fæst sem sagt stundum og hentar ágætlegl í marga grænmetisrétti. Nafnið kemur af því að þegar búið er að baka hann losnar aldinkjötið sundur í þræði sem minna á spaghettí. Bragðið er auðvitað ólíkt en þetta er spennandi hráefni sem gaman er að vinna með. Og hér er semsagt ein útgáfa, sem er alveg hægt að gera dálítið sparilega. Jafnvel jólalega. Ég var með einn svona, sem er um það bil passlegt fyrir tvo sem aðalréttur (hann er samt það stór að maður gæti haldið að það yrði meira úr honum).
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og hita hann í 180°C. Svo tók ég spaghettíkúrbítinn og skar hann í tvennt …
… og skóf fræin úr helmingunum (ekkert með allt of miklu offorsi). Penslaði svo skurðflötinn með 1 msk af olíu og kryddaði með pipar og salti.
Svo tók ég ofnskúffu, klæddi hana með bökunarpappir (til að spara mér þrif), setti grind ofan á, lagði helmingana á grindina með skurðflötinn niður og bakaði þá í um 45 mínútur.
Á meðan tók ég eitt granatepli og losaði fræin úr þvi – mér finnst best að skera það í tvennt (eða öllu heldur, skera hring um eplið, bara gegnum hýðið, og rífa svo helmingana í sundur, þannig fer enginn safi til spillis), halda svo helmingunum á hvolfi yfir skál og berja í þá t.d. með bakkanum á þungum hníf svo að fræin hrynji úr. Ég á mynd af þessu en finn hana ekki …
Svo grófmuldi ég 50 g af valhnetum og grófsaxaði 30 g af pistasíum og blandaði þessu saman við granateplafræin, 30 g af þurrkuðum trönuberjum og lófafylli af saxaðri steinselju í skál. Ég hristi (eða hrærði) svo saman 2 msk af ólífuolíu, 1/4 tsk af kóríanderdufti, cayennepipar á hnífsoddi, pipar og salti og blandaði þessu saman við hnetublönduna.
Nú var spaghettíkúrbíturinn orðinn meyr og ég tók helmingana út og setti þá á disk. Tók svo gaffal og dró hann fram og aftur um aldinkjötið í spaghettíkúrbítunum til að losa um þræðina. Gætti þess þó að gera ekki göt á hýðið.
Síðan blandaði ég „spaghettíinu“ vel saman við hnetublönduna og setti svo allt saman aftur yfir í hýðishelmingana og bar réttinn fram í þeim.
Ég bar þetta fram á klettasalati og raðaði nokkrum hindberjum í hring til að gera þetta nú jólalegra. En það er ekkert nauðsynlegt.
*
Fylltur spaghettíkúrbítur
1 spaghettíkúrbítur
1 msk olía
pipar og salt
1 granatepli
50 g valhnetur, grófmuldar
30 g pistasíuhnetur, saxaðar
30 g þurrkuð trönuber
lófafylli af steinselju, saxaðri
2 msk ólífuolía
1/4 tsk kóríanderduft
cayennepipar á hnífsoddi
pipar og salt